Misjafnt skömmtuð samúð

Greinar

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa sent stjórn Ísraels samúðarkveðjur vegna nýrra hermdarverka Hamas-samtaka öfgafullra Palestínumanna. Ráðherrarnir hafa aldrei sent Palestínumönnum samúðarkveðjur vegna hryðjuverka Ísraelshers í Palestínu.

Átakasaga síðasta áratugar á hernumdu svæðunum í Palestínu hefur verið næsta eindregin saga ríkisrekins ofbeldis Ísraels gegn vopnlausum Palestínumönnum. Nokkur hundruð Palestínumanna hafa á þessum tíma fallið fyrir vopnum hryðjuverkasveita Ísraelshers.

Framkvæmd hernáms Ísraels í Palestínu hefur allan þennan tíma strítt gegn alþjóðlegum sáttmálum um réttindi fólks á hernumdum svæðum. Þessi framkvæmd hefur magnað stuðning almennings við öfgasamtök á borð við Hamas, sem hafna friðarsamningum.

Samkvæmt ísraelskum lögum má herinn beita pyntingum í fangelsum sínum. Enn fremur eru sakir á hendur einstaklingum látnar leiða til ofbeldis gegn ættingjum þeirra. Til dæmis eru þeir reknir úr húsum sínum og þau jöfnuð við jörðu, svo sem nú er að gerast.

Núverandi forsætisráðherra Ísraels, Símon Peres, er sem fyrrverandi hermálaráðherra persónulega ábyrgur fyrir tugum barnamorða í Palestínu og fyrir eyðingu þúsunda heimila í hefndarskyni fyrir meinta glæpi einhverra skyldmenna þeirra, sem í húsunum bjuggu.

Um hernumdu svæðin fara ísraelskir trúarofstækismenn alvopnaðir og ögra heimamönnum, sem ekki mega bera vopn. Engar ráðstafanir eru gerðar til að koma í veg fyrir hryðjuverk ofstækismannanna, sem hafa með bandarískum stuðningi reist sér heimili í Palestínu.

Í friðarferli undanfarinna ára hefur Ísraelsstjórn nánast neytt Frelsissamtök Palestínumanna til uppgjafar. Yassir Arafat hefur mátt kyngja þungbærum samninganiðurstöðum, sem stjórn Ísraels hefur síðan ekki staðið við, nema þegar hún telur sér það henta.

Engin furða væri, þótt meirihluti íbúa Palestínu hefði hafnað forsjá Arafats og styddi öfgasinnaða hryðjuverkahópa á borð við Hamas. Það er raunar mesta furða, að meirihluti fólksins í landinu skuli enn styðja friðarferilinn sem leiðtogar þjóðanna hafa stundum verið að feta.

Ísraelum er enginn greiði gerður með einhliða samúðarkveðjum valdamanna, sem enga samúð hafa sýnt á hinum vængnum. Slíkt hvetur valdamenn Ísraels til að halda áfram hryðjuverkum, er flokkast sem glæpir gegn mannkyninu samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu.

Betra væri, að vestrænir valdamenn segðu valdamönnum Ísraels, að þeirra ábyrgð felist í að hafa komið upp krumpuðu þjóðskipulagi, þar sem Herrenvolk Ísraelsmanna kúgar Untervolk Palestínumanna og beitir eins konar Gestapósveitum til að kúga þá til undirgefni.

Vestrænir valdamenn eiga að segja valdamönnum Ísraels, að í því ástandi, sem þeir hafi komið upp í Palestínu, sé ekki lengur auðvelt að gera greinarmun á frelsishetjum annnars vegar og hryðjuverkamönnum hins vegar. Hernámsríkið geti sjálfu sér um kennt.

Hryðjuverkamennirnir, sem hafa stjórnað Ísrael frá því að Palestína var hernumin, eru valdamenn í skjóli kjósenda. Almenningur í Ísrael ber ábyrgð á valdamönnum sínum og hefur raunar hvatt til þeirrar hörku, sem enn einu sinni hefur kallað á hryðjuverk á móti.

Erlendis er spakmæli, er segir, að þeir, sem kjósa að lifa með sverði, hætti líka á að deyja með sverði. Þeir þurfa ekki meiri samúð en fórnardýr þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV