Ofbeldisórar í auglýsingum

Greinar

Fólk ræður því, hvort það fer í kvikmyndahús og hvaða myndir það sér þar. Sömuleiðis ræður fólk, hvort það fer á myndbandaleigur og hvaða myndir það tekur á leigu. Erfiðara er að stjórna notkuninni á því efni, sem kemur beint í sjónvarpstæki fólks, sumpart að því óvöru.

Erfiðast reynist fólki að forðast kvikmyndakynningar, sem stundum eru í tengslum við fréttatíma. Fólk, sem ætlar í sakleysi sínu að fylgjast með fréttum, lendir í að þurfa að horfa á ofbeldis- og kynóra þeirra, sem ráða ferðinni í miðstöð afsiðunar mannkyns í Hollywood.

Ástandið á þessu sviði hefur verið með versta móti á sjónvarpsstöðvunum í vetur. Á tímabili var tæpast þorandi að opna fyrir venjulegar fréttir af ótta við að lenda á þessum kvikmyndakynningum, þar sem virðist skeytt saman ógeðfelldustu þáttum viðkomandi kvikmyndar.

Eðlilegt er að fara fram á það við sjónvarpsstöðvarnar, að þær hafi einhvern hemil á þessu efni, birti það annaðhvort ekki eða á fyrirfram auglýstum tíma utan þess tíma, þegar venjulegt fólk ætlar að fara að fylgjast með fréttum af því, sem er að gerast í heiminum.

Einhvern veginn virðist glæpalýðurinn, sem stjórnar kvikmyndaiðnaðinum í Hollywood, hafa komizt á þá skoðun, að mannkynið vilji helzt horfa á óra af ýmsu tagi. Kvikmyndakynningar sjónvarpsstöðvanna benda til þess, að framleiðendur flaggi helzt slíkum afurðum.

Fullsannað er, að kvikmyndir þessar hafa slæm áhrif á sumt fólk. Landlæknir hefur upplýst, að hundrað bandarískar rannsóknir, sem ekki eru kostaðar af kvikmyndaiðnaðinum, leiði í ljós, að ofbeldiskvikmyndir veki oft kvíða og árásargirni hjá sumum börnum.

Samkvæmt upplýsingum landlæknis er talið, að 15% barna og unglinga, er horfa á ofbeldismuyndir, sýni merki um mikla árásarhneigð og rúmlega 35% í viðbót verði fyrir nokkrum áhrifum í þá átt. Þetta skýrir stóraukna villimennsku í ungmennaofbeldi á götunum.

Tíðni alvarlegra meiðsla vegna ofbeldis hefur tvöfaldazt á Reykjavíkursvæðinu frá 1987, sem er tiltölulega skammur tími. Mynztur ofbeldisins hefur breytzt. Ber nú meira en áður á barsmíðum og spörkum í höfuð og kynfæri. Og liggjandi fólki er ekki lengur hlíft.

Að hluta kann þetta að stafa af veruleikafirringu í kvikmyndum, þar sem ofbeldi af þessu tagi er ótæpilega stundað og að því er virðist án varanlegra áhrifa á þolendur. Áhorfendur fá þá brengluðu mynd, að ofbeldið sé ekki eins hættulegt og það er í raun og veru.

Glæpalýðurinn, sem stjórnar kvikmyndaiðnaði Hollywood, lætur líta svo út í kvikmyndum, að ofbeldi sé nánast sársaukalaust, oftast lofsvert og stundum fyndið. Samkvæmt rannsóknum síast þetta hugarfar inn í áhorfendur, einkum þá, sem eru ungir og óharðnaðir.

Rannsókn á ofbeldi í sjónvarpsdagskrám leiddi í ljós, að þeir, sem beittu valdi, sluppu við refsingu í 73% tilvika og ekki sást í 58% tilvika, að þolendur ofbeldis fyndu fyrir sársauka. Þetta gefur greinilega afar ranga mynd af raunveruleikanum utan skjás og tjalds.

Glæpakóngar kvikmyndaiðnaðarins hafa lengi verið heilagar kýr. Þó kallaði Clinton Bandaríkjaforseti nýlega þá verstu inn á teppið hjá sér og las yfir þeim. Þess sjást líka merki, að áhugahópar almennings þar vestra fari að byrja að grípa til aðgerða gegn afsiðunarliðinu.

Brýnasta verkefnið hér á Íslandi í baráttunni gegn afsiðuninni er að losa nánasta umhverfi fréttatíma sjónvarps við kynningar á ofbeldisórunum frá Hollywood.

Jónas Kristjánsson

DV