Ævikvöld kvótakerfisins

Greinar

Veiðar smábáta falla undir heildarstjórn þorskveiða í kvótakerfinu, þegar Alþingi hefur samþykkt smábátafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Þar með hefur kvótakerfið náð tökum á því meginhlutverki sínu að hafa hemil á heildarveiði þorsks í fiskveiðilögsögunni.

Kvótakerfið er gallagripur, svo sem margoft hefur komið fram í umræðu undanfarinna ára. Það hefur hliðarverkanir eins og flest skipulag að ofan, framleiðir ný vandamál í stað þeirra, sem það leysir. En sem kerfi færist það þó nær innri fullkomnum með frumvarpinu.

Sjávarútvegsráðherra samdi við smábátaeigendur um, að þeir héldu þeim þorskveiðihlut, sem þeir hafa náð á síðustu árum. Sá hlutur er mun meiri en hann var fyrir fimm árum. Þessi samningur endurspeglast í frumvarpinu, sem gefur smábátunum 20% heildaraflans.

Þessi 20% eru 45.000 tonn á þessu fiskveiðiári, sem er svipað og smábátaaflinn hefur verið undanfarin fimm ár. Fiskveiðiárið 1991-1992 var smábátaaflinn 47.700 tonn. Þannig taka smábátamenn engan þátt í þeim samdrætti, sem orðið hefur í þorskveiðum á tímabilinu.

Fyrir fimm árum var heildarafli þorsks 333.000 tonn, en verður væntanleg 165.000 tonn á þessu fiskveiðiári. Með því að halda óbreyttu þorskaflamagni hefur smábátaflotanum því tekizt að auka hlutdeild sína í minnkandi heildarafla úr 14% í 21% á fimm ára tímabilinu.

Smábátamenn eru að vonum ánægðir með þessa niðurstöðu, en útgerðarmenn og togarasjómenn óánægðir. Hinir síðarnefndu segjast hafa tekið á sig allan samdrátt undanfarinna fimm ára og sé nú refsað með því að fá ekki að sama skapi aðild að árangri samdráttarins.

Þeir síðarnefndu segja enn fremur, að smábátamenn séu verðlaunaðir fyrir að fara ekki eftir fyrri reglum og hafa með frekjunni komizt úr 14% í 21%. Ekki beri að verðlauna þá fyrir þetta, heldur færa hlut þeirra aftur niður í fyrri hlutdeild, 14% eða enn minna.

Stórútgerðarmenn njóta ekki samúðar kjósenda í kveinstöfum sínum. Þeir hafa áratugum saman verið stimplaðir í þjóðarvitundinni sem grátkerlingar og upp á síðkastið einnig sem sægreifar, er hafi sölsað svo undir sig þjóðareignina, að hún gangi þar í erfðir.

Smábátamenn hafa einmitt notað þá áhrifamiklu röksemd, að samningurinn og frumvarpið fresti því, að svokallaðir ofursægreifar eignist allan kvótann við Ísland. Þessi röksemd fer betur í þjóðina en grátur sægreifa út af minnkuðu tangarhaldi sínu á þjóðareigninni.

Af þessu tilefni skal ítrekað enn einu sinni, að nauðsynlegt er að leggja niður kvótakerfið hið bráðasta og taka upp útboð veiðileyfa til að tryggja, að sem mestur hluti veiðanna falli í hlut hagkvæmustu útgerðarinnar, og til að tryggja, að þjóðin eigi sjálf auðlindina.

Ef hins vegar er litið afmarkað á smábátafrumvarpið, sem liggur fyrir Alþingi, verður að líta svo á, að hinir óvinsælu sægreifar hafi nokkuð til síns máls. Til dæmis væri hægt að fara bil beggja og láta smábátana hafa 35.000-40.000 tonn í stað 45.000 tonna.

Með frumvarpinu hefur ríkisstjórnin að undirlagi sjávarútvegsráðherra hins vegar lagzt á sveif með smábátamönnum gegn stórútgerðum og togarasjómönnum. Þingflokkar stjórnarinnar hafa samþykkt þessa leið, sem einnig nýtur stuðnings í röðum stjórnarandstöðunnar.

Burtséð frá þessum ágreiningi um hlut smábátanna er frumvarpið ágæt endurbót á gersamlega úreltu kvótakerfi og getur framlengt ævikvöld þess um nokkur ár.

Jónas Kristjánsson

DV