Ofbeit hrossa

Greinar

Minnkandi kvótar í ríkisreknum hlutum landbúnaðarins hafa leitt til offramleiðslu í greinum, sem standa utan við kvóta og ríkisrekstur. Um leið og sauðfé og nautgripum fækkar, fjölgar hrossum langt umfram auknar þarfir markaðarins og burðargetu sumra bújarða.

Offramleiðsla reiðhrossa hefur lækkað markaðsverð miðlungshrossa niður fyrir framleiðsluverð þeirra. Hrossarækt byggist í vaxandi mæli á nógum tíma fólks, sem reiknar sér ekki mikið kaup við ræktun og tamningar, en hefur grundvallartekjur sínar af öðru.

Því miður er hluti þessarar óarðbæru ræktar stjórnlaus með öll. Til eru bújarðir, þar sem hrossum fjölgar nánast með villtum hætti, án þess að bóndinn stundi neitt ræktunarskipulag að heitið geti. Sumir þessara bænda hafa hreinlega orðið gjaldþrota á slíku.

Þekktar eru nokkrar jarðir á landinu, sem eru nauðbeittar af hrossum. Á mörgum fleiri jörðum eru til ofbeitt hólf, sem sums staðar stinga mjög í augu við þjóðvegi landsins. Þessi mikla beit er minnisvarði um misvitra hrossabændur, sem hafa misst ræktunartökin.

Að vísu þarf að gera greinarmun á þessari ofbeit og ofbeit sauðfjár, sem stunduð er á afréttum, þar sem ríkir uppblástur og landeyðing. Ofbeit hrossa er stunduð í heimahögum, þar em ekki er hætta á uppblæstri og landeyðingu. Hún er því ekki sams konar vandamál.

Ofbeit hrossa er eigi að síður vandamál og þar að auki gersamlega ástæðulaust vandamál. Markaðurinn þarf ekki öll þessi hross og engir opinberir sjóðir koma þeim bændum til bjargar, sem sitja uppi með ofbeitta haga og hundruð hrossa, er enginn vill kaupa.

Af þessari ástæðu er nauðsynlegt að herða opinbert eftirlit með hrossahaldi og burðargetu bújarða, ef til vill á svipaðan hátt og löngum hefur verið með skepnuhaldi og vetrarfóðri. Unnt þarf að vera að grípa fyrr í taumana hjá þeim, sem ekki finna fótum sínum forráð.

Samtök á borð við Félag hrossabænda og hrossaræktarsambönd héraðanna þurfa að taka miklu öflugra frumkvæði í þessum efnum. Með því gættu þau almennra markaðshagsmuna félagsmanna og um leið hagsmuna ruglukollanna, sem ofbeita sér til tjóns.

Almenn samtök hestamanna þurfa líka að taka til hendinni vegna almennra hagsmuna í greininni. Nauðbeit nokkurra jarða og fjölmargra hrossahólfa kemur óorði á hestahald og stuðlar að ýktum hugmyndum hjá fólki um meinta skaðsemi hrossa í náttúrunni.

Margir telja til dæmis, að hross haldi til á afréttum og stuðli að uppblæstri og landeyðingu. Þeir telja, að ferðalög með hross um óbyggðir séu óeðlilegt álag á landkosti þessara staða. Hvort tveggja er misskilningur, sem stafar af sýnilegri ofbeit hrossa í heimahögum.

Ekki er hægt að sjá, að sumarumferð manna með hrossahópa um merkilega gróðurstaði á borð við Marardal við Hengil og Þjófadali á Kili hafi nokkur skaðleg áhrif á gróðurfar. Auðvitað eru hrossagötur alls staðar í landslaginu eins og þær hafa verið í þúsund ár.

Nú er svo komið, að þúsund ára gamlar hrossagötur hafa verið merktar sem gönguslóðir og reynt að banna umferð hesta um þær. Þetta gerist í skjóli óorðs, sem fer af hestamennsku vegna ástæðulausrar ofbeitar á allt öðrum stöðum í landinu, í heimahögum við þjóðvegi.

Hagsmuna sinna vegna þurfa því samtök ræktenda, seljenda, leigjenda og notenda hrossa að taka upp hvassari stefnu gegn staðbundinni ofbeit hrossa.

Jónas Kristjánsson

DV