Bannað að reikna

Greinar

Fjármálaráðuneytið hefur reynt að banna fólki að reikna. Þessi misheppnaða tilraun er í nýrri reglugerð, sem bannar fólki að vinna úr álagningar- og skattskýrslum, svo sem að áætla tekjur út frá gjöldum og að framreikna upphæðir til líðandi stundar.

Ekki mun neinn taka mark á reglugerðinni. Mun hver sem er reikna eins og honum sýnist, enda mun ráðuneytinu ekki takast að koma reglugerðinni til framkvæmda. Það getur alveg eins bannað mönnum að lesa og skrifa eins og að reikna eða reynt að banna jólin.

Fjármálaráðuneytið neyðist til að draga reglugerðina til baka eftir að hafa orðið fyrir hæfilegu athlægi, enda stenzt hún hvorki lög né stjórnarskrá, fjölþjóðlega dómstóla né almennt siðferði. Hún verður ekkert annað en minnisvarði um bjálfa í fjármálaráðuneytinu.

Reglugerðin var samin að beiðni hagsmunaaðila úti í bæ, Verzlunarráðs Íslands, að fenginni jákvæðri umsögn Tölvunefndar, annarrar ríkisstofnunar, sem oft kemur af fjöllum. Reglugerðin er tilraun til að hindra umræðu fjölmiðla um skatta fyrirtækja og áhrifafólks.

Reglugerðin er eins konar harmsaga um ástandið í fjármálaráðuneytinu, sem hefur leitt til þess, að ráðuneytið hefur orðið afturreka með ýmis mál, til dæmis eftir áminningar og háðsyrði forsætisráðherra, sem auðvitað hafa beinzt að fjármálaráðherranum sjálfum.

Hina misheppnuðu reglugerð var ekki hægt að framleiða nema saman færi heimska og hroki í nægilega miklum hlutföllum. Hrokinn er landlægur í ráðuneytunum, en hefur einkum fengið að geisa í fjármálaráðuneytinu í tíð núverandi ráðherra, sem er liðtækur á því sviði.

Heimskan á rætur í þeirri staðreynd, að 265.000 manna þjóð getur ekki mannað alla þjóðfélagspósta á frambærilegan hátt. Við slíkar aðstæður er óhjákvæmilegt að ýmsir þeir, sem ekki eru færir um að vinna fyrir sér, lendi á ríkisjötunni og dundi sér þar á lágu kaupi.

Ýmsir bjálfar lenda í stöðum í ráðuneytum út á lágt kaup eða pólitík og komast þar smám saman í áhrifastöður vegna aldursreglna um framaferil manna. Ýmsar reglugerðir og lagafrumvörp stjórnvalda draga dám af þessu ástandi, sem byggist á fámenni þjóðarinnar.

Ráðherrar og ráðuneytisstjórar bera auðvitað ábyrgð á því, sem kemur úr ráðuneytunum. Þeim bera að haga mannahaldi þannig, að sem minnstur skaði verði af óhæfum millistjórnendum. En þeir geta það ekki, nema þeir skilji vandann og viðurkenni tilvist hans.

Bezta leiðin til að koma í veg fyrir tjón af völdum vanhæfra embættismanna og ráðherra er að draga úr þörf á nýjum lögum og reglugerðum. Annars vegar má gera það með því að nota hliðstæða erlenda vinnu, til dæmis frá Norðurlöndunum og Evrópusambandinu.

Hins vegar má gera það með því að draga úr notkun reglugerða sem innviða í þjóðfélaginu, til dæmis með því að auka vægi sjálfvirkra lögmála á borð við markaðslögmálin. Því fleira sem verður sjálfvirkt í þjóðfélaginu, þeim mun minni hætta er á mannlegum mistökum.

Við erum svo fámenn þjóð, að við getum ekki mannað alla pósta á sama hátt og milljónaþjóðirnar geta. Þess vegna þurfum við að gera þjóðfélagsgerðina eins einfalda og framast er unnt og beita sjálfvirkni sem allra mest, en leggja niður sem flestar geðþóttaákvarðanir.

Tilraun bjálfa fjármálaráðuneytisins til að banna fólki að reikna er góð ábending um, að þjóðfélagið ber að reka á annan hátt en með reglugerðum úr ráðuneytum.

Jónas Kristjánsson

DV