Forsetalínur skýrast

Greinar

Fátt virðist geta komið í veg fyrir, að Ólafur Ragnar Grímsson verði kosinn næsti forseti Íslands. Í skoðanakönnun DV í gær var hann kominn með hreinan meirihluta svarenda og nærri helming alls úrtaksins. Þetta er fjórfalt fylgi þess frambjóðanda, sem næst kom.

Með þessu hrynur kenningin um, að þjóðin vilji ekki virkan stjórnmálamann í embætti forseta. Hún getur ekki aðeins hugsað sér stjórnmálamann í embætti landsföður, heldur getur hún meira að segja hugsað sér óvæginn pólitískan slagsmálamann í þetta embætti.

Skoðanir þjóðarinnar á frambjóðendum skipta miklu, því að þeir hafa misjafna afstöðu til embættisins. Ólafur Ragnar hefur til dæmis lagt áherzlu á mikil samskipti forsetans við útlönd, þar með á vægi hans í utanríkismálum og enn frekar í málefnum utanríkisviðskipta.

Meðal forustumanna í stjórnmálum er andstaða við víkkaða túlkun á verksviði forsetans. Forsætisráðherra tók af skarið í löngu nöldurviðtali um helgina, þar sem hann fordæmdi almennt þá frambjóðendur, sem þá voru komnir fram, og kallaði þá “farandsendiherra”.

Hjá honum eins og sumum pólitískum valdamönnum koma fram áhyggjur af, að næsti forseti hafi tilhneigingu til að neita að skrifa undir lög á umdeildum sviðum og þvingi þannig fram þjóðaratkvæðagreiðslur, sem mundu trufla hefðbundið valdakerfi í landinu.

Kominn er forsetaframbjóðandi, sem fellur að þessum sjónarmiðum. Pétur Kr. Hafstein vill túlka embættið þrengra en aðrir frambjóðendur. Hann vill ekki, að forseti skyggi á þingræðið í landinu. Og hann vill ekki, að forsetinn sé eins konar farandsendiherra í útlöndum.

Skoðanakönnunin sýnir, að skoðanir Davíðs og Péturs eiga erfitt uppdráttar hjá kjósendum. Það staðfestir kenningu í leiðara DV fyrir réttri viku um, að þjóðin muni sjálf finna sér forseta hjálparlaust og muni ekki láta valdakerfið í landinu segja sér fyrir verkum.

Íslendingar eru yfirleitt þýlyndir og láta flest yfir sig ganga möglunarlítið. Þeir endurkjósa stjórnmálamenn og -flokka, sem hafa ítrekað valtað yfir fólkið í landinu og valdið því stórtjóni, t.d. með ríkisrekstri landbúnaðar. En þrælaþjóðin tekur sér frí í forsetakosningum.

Þetta tengist þeirri staðreynd, að ráðherrar og ráðuneytisstjórar, með forsætisráðherra í broddi fylkingar, hafa ekki fengið umboð sitt beint frá þjóðinni, sem hins vegar fær að kjósa sér forseta beint og tekur greinilega sjálfstæða og jafnvel róttæka afstöðu til þess.

Enda sagði forsætisráðherra í áðurnefndu viðtali, að það væri álitamál, hvort hér ætti yfirleitt að vera forseti og hvort hann ætti að öðrum kosti ekki fremur að vera kosinn af Alþingi heldur en í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Orð hans endurspegla vanda valdakerfisins.

Hin eindregna afstaða forsætisráðherra til forsetaembættisins, sem kom þá fyrst í ljós, þegar hann var sjálfur hættur við að bjóða sig fram til þess, hefur án efa farið þversum í fólk og eflt þau sjónarmið, sem hann var að gagnrýna í áðurnefndu nöldurviðtali í málgagninu.

Þar sem þrír fjórðu hlutar kjósenda hafa nú þegar gert upp hug sinn til frambjóðenda og fjórir efstu skipta með sér öllum þorra fylgisins, má búast við, að nýir frambjóðendur hafi ekki erindi sem erfiði. Hin eiginlega kosningabarátta er því að hefjast óvenjulega snemma.

Ef ekki verður mikil breyting á fylgishlutföllum efstu frambjóðenda á næstu tveimur vikum, siglir Ólafur Ragnar við góðan byr og beina leið til Bessastaða.

Jónas Kristjánsson

DV