Björgun Mývatns

Greinar

Gerð hefur verið framkvæmdaáætlun um friðun 3000- 4000 ferkílómetra lands á öræfum og afréttum Mývatnssveitar fyrir ágangi sauðfjár. Markmiðið er að stöðva gróðureyðingu á einu mesta landrofssvæði jarðarinnar og koma í veg fyrir, að Mývatnssveit verði að auðn.

Til þess að fá sauðfjárbændur Mývatnssveitar til að samþykkja áætlunina og taka þátt í henni er gert ráð fyrir, að þeir verði hafðir með í ráðum, fái landgræðsluvinnu og verði studdir til að bæta gróður í heimahögum til að bæta sauðfénu upp missi úthaganna.

Þetta er gömul og viðurkennd aðferð, sem notuð er á óknyttaunglinga, þegar þeir eru teknir í lögregluna og verða að nýjum og betri mönnum. Brátt munu þeir verða gerðir að landvörðum, sem áður fluttu fé sitt í vornóttinni á sandinn, “af því að nálin er svo holl”.

Ofbeit Mývetninga hefur stuðlað að sandfoki og magnað vítahring gróðureyðingar, sem um þessar mundir ógnar Dimmuborgum og mun fyrr eða síðar breyta í sandauðn mestum hluta svæðisins milli Vatnajökuls og Öxarfjarðar, Laxár í Aðaldal og Jökulsár á Fjöllum.

Auðvitað er það mest Mývetningum sjálfum í hag, að vítahringurinn verði stöðvaður. Miklir hagsmunir eru í húfi í ferðaþjónustu, auk þess sem umsvifin í landgræðslu tryggja atvinnu fyrir fjölda manns. Því má fastlega búast við, að þeir fallist á ráðagerðina.

Mývatnssvæðið hefur verið tilnefnt á heimsminjaskrá Mennta- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem ein af helztu náttúruperlum heims. Það er óbærileg tilhugsun, að hinar ríku kynslóðir, sem nú byggja Ísland, glutri perlunni úr höndum sér í andvaraleysi.

Raunar er ekki seinna vænna að fara að taka til höndum. Árum saman hefur í leiðurum þessa blaðs verið hvatt til þeirrar friðunar, sem nú er orðin að áætlun í ríkiskerfinu. Á meðan hefur landauðnin aukizt hröðum skrefum í skjóli forgangsréttar sauðfjárræktar.

Undanfarin ár hefur Landgræðsla ríksins haft lagaheimild til að setja tímamörk á upprekstur sauðfjár á afréttir Mývetninga. Sauðfjárbændur hafa jafnan virt þessar reglur að vettugi án þess að Landgræðslan hafi reynt að fylgja rétti sínum eftir á viðeigandi hátt.

Nú er svo komið, að afréttir Mývetninga eru versta rofsvæði landsins og sennilega allrar Evrópu. Leita verður suður til Sahara til að finna sambærilega framsókn eyðimerkurinnar. Gróðurtapið á afréttum og öræfum Mývetninga er upp undir 500 hektarar á hverju ári.

Landeyðingin hefur hingað til verið studd af héraðsráðunauti Búnaðarfélagsins, gróðurverndarnefnd Suður- Þingeyjarsýslu, landbúnaðarnefnd og hreppsnefnd Skútustaðahrepps. Þessir aðilar hafa opinberlega sagt, að unnt sé að reka 5000-6000 fjár á sandinn!

Tímabært er orðið að taka ráðin af þessum mönnum, sem gefa skít í náttúruna, þjóðina og umheiminn. Á þetta reynir enn einu sinni í vor, þegar sauðfjárbændur vilja sturta fé sínu í sandrokið í trássi við lög og reglur. Vonandi næst áður samkomulag um landgræðsluáætlunina.

Um leið er nauðsynlegt að minna á, að fagrar ráðagerðir stjórnvalda á pappír draga ekki úr þeirri skyldu þeirra að sjá um, að lögum og rétti sé fylgt á afréttum Mývetninga fram að tíma hinnar algeru friðunar fyrir sauðfé, sem gert er ráð fyrir í landgræðsluáætluninni.

Fróðlegt verður að fylgjast með, hvort sauðfé Mývetninga verður að þessu sinni hleypt á nálina í sandinum og hvort það verður á sama tíma og undanfarin ár.

Jónas Kristjánsson

DV