Í farsælum farvegi

Greinar

Forseti Íslands er sameiningartákn þjóðarinnar og kemur fram fyrir hönd hennar inn á við og út á við. Þar sem hann tekur ekki þátt í pólitísku dægurþrasi, ber þjóðin virðingu fyrir honum sem heiðurstákni. Hún rís úr sæti, þegar forsetinn gengur í salinn.

Stjórnarskráin gerir ráð fyrir, að forsetinn sé um leið öryggisventill, ef Alþingi og ríkisstjórn villast af spori lýðræðis. Þar sem Ísland er rótgróið lýðræðisríki, hefur forseti hingað til ekki haft ástæðu til að beina viðkvæmum deilumálum í farveg þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ekkert bendir til, að forsetinn muni í náinni framtíð telja sig knúinn til að beita hemlunarvaldi sínu. Þjóðfélagið mun áfram haldast um sinn í föstum lýðræðisskorðum, svo að forsetinn mun ekki þurfa að beita þessu valdi. En það er eigi að síður hans vald.

Sem sameiningartákn ferðast forsetinn um þjóðfélagið og talar við háa og lága. Hann ferðast um landið og gerir vart við sig hjá öllum þjóðfélagshópum. Hann gefur þjóðinni þannig tækifæri til að muna eftir sjálfri sér sem slíkri. Hvar sem hann kemur, er hátíð í bæ.

Forsetinn kemur einnig fram fyrir hönd þjóðarinnar út á við. Hann kemur þannig fram, að athygli vekur og að á hann er hlustað. Hann kemur á framfæri hagsmunum þjóðarinnar, hvort sem þeir eru menningarlegir eða viðskiptalegir og eflir þannig gengi þjóðfélagsins.

Forsetinn forðast að taka afstöðu í dægurþrasi og bilar ekki í þeim hlutverkum, sem hér hafa verið rakin. Þannig gefur hann ekki tilefni til gagnrýni. Um leið hugsa gagnrýnendur sig um tvisvar, áður en þeir taka afstöðu gegn gerðum eða orðum eða háttum forsetans.

Forsetinn er ekki hafinn yfir gagnrýni, en hún er spöruð eins og kostur er. Hingað til hafa verið lítil tilefni til slíkrar gagnrýni og lítið verið um hana. Ekkert bendir til, að fleiri tilefni verði á næstu árum, og ekkert bendir heldur til, að meira verði um gagnrýni.

Forsetar eru ekki steyptir í sama mót. Hver þeirra fyllir embættið með sínum hætti. Þróunin hefur þó verið sú, að þjóðin gerir æ meiri kröfur til hans. Hún hefur til dæmis gert hann sýnilegri en áður var. Hún vill gjarna, að hann sé meira á ferðinni en áður tíðkaðist.

Fólk býður sig ekki fram sem forseta, nema það telji sig þeim kostum búið, er henta embættinu. Fólk getur verið afar vel gert að flestu leyti án þess að vera heppilegt forsetaefni. Til dæmis hentar embættið aðeins þeim, sem hafa ómælda ánægju af að umgangast annað fólk.

Forsetinn er óhjákvæmilega hófsmaður, af því að hátíðahöld eru allt í kringum hann. Hann er óhjákvæmilega alþýðlegur og lítillátur, af því að fyrirmenn safnast kringum hann og byrgja sýn hans til annarra. Hann losar sig úr böndum hrokans og nær til fólksins sjálfs.

Hingað til hefur þjóðin talið sér takast vel að kjósa sér forseta. Hún hefur jafnan viljað, að hinn kjörni sitji sem lengst. Hún metur mikils frelsi sitt að velja sér forseta beint og milliliðalaust, en hún hefur ekki áhuga á að gegna því hlutverki á fjögurra ára fresti.

Þótt lýðveldið sé ungt og þar með forsetaembættið einnig, hefur þegar mótazt hefð, sem þjóðin er sátt við. Þessi hefð lagar sig eftir aðstæðum hvers tíma og persónu hvers forseta á þann hátt, að þjóðin lætur sér vel líka. Embættið er rótgróið, en ekki staðnað.

Þótt margt hafi aflaga farið á skammri sjálfstæðisbraut þjóðarinnar, hefur henni þó jafnan tekizt að veita embætti forseta Íslands í farsælan farveg.

Jónas Kristjánsson

DV