Óhollir ofurtollar

Greinar

Íslendingar borða mun minna grænmeti en aðrar þjóðir. Við erum lengst allra þjóða Vestur-Evrópu frá því að ná þeirri hlutdeild grænmetis í fæðinu, sem mælt er með af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni og í hliðstæðum ráðleggingum heilbrigðisráðuneyta á Vesturlöndum.

Við erum hins vegar nær vestrænum stöðlum í ávaxtaneyzlu og skerum okkur að því leyti ekki úr hópnum. Mismunurinn á neyzlu okkar á grænmeti og ávöxtum sýnir, að við erum ekki á móti hollustufæði, heldur eru það önnur atriði, sem fæla frá grænmetisnotkun.

Munurinn stafar af, að grænmeti er ræktað í landinu, en ávextir ekki. Það þýðir, að ríkið setur verndartolla á innflutt grænmeti til að vernda það innlenda, en setur ekki slíka tolla á innflutta ávexti. Verndartollarnir valda því, að grænmeti verður of dýrt fyrir neytendur.

Þegar ríki heimsins ákváðu fyrir rúmu ári að lækka tolla og koma á fót Alþjóða viðskiptastofnuninni, voru íslenzk stjórnvöld svo forstokkuð í verndarstefnu sinni, að þau notuðu tækifærið til að setja meiri ofurtolla á innflutt grænmeti en nokkru sinni fyrr.

Þetta getur fólk sannreynt í útlöndum. Við samanburð fínustu grænmetisborða í verzlunum á Íslandi og venjulegra borða af því tagi í erlendum verzlunum leynir sér ekki, að grænmeti er þar margfalt fjölbreyttara en hér og kostar ekki nema brot af því, sem það kostar hér.

Áhrif verndarstefnunnar leiða einnig til þess, að inn er flutt grænmeti af ódýrasta tagi. Gæðavara er ekki flutt inn, af því að hún yrði stjarnfræðilega dýr í tollareikningi landbúnaðarráðuneytisins. Innflutt grænmeti á Íslandi er raunar mestmegnis stórvaxið skepnufóður.

Þverpólitísk samstaða er um, að landbúnaðarráðuneytið sé hagsmunagæzlustofnun landbúnaðar gegn almannahagsmunum og að það fái alltaf að ráða ferðinni, þegar hagsmunir landbúnaðar eru í húfi. Þannig var það í síðustu ríkisstjórn og þannig er það í þessari.

Allir stjórnmálaflokkar bera jafna ábyrgð á þessum glæp. Það gildir einnig um Alþýðuflokkinn, sem sat í síðustu ríkisstjórn, er kom á fót ofurtollakerfi grænmetis, sem við búum nú við. Allir stjórnmálaflokkar taka hagsmuni landbúnaðar fram yfir hagsmuni neytenda.

Ein afleiðingin af þessu er minni grænmetisnotkun Íslendinga en ella væri og verra heilsufar. Það er ekki að ástæðulausu, að Alþjóða heilbrigðisstofnunin mælir með stóraukinni grænmetisnotkun. Það stafar af, að hún bætir heilsu og dregur úr menningarsjúkdómum.

Herkostnaður þjóðarinnar af verndun innlendrar garðyrkju er mikill. Hann lýsir sér í auknum kostnaði við hjartasjúkdóma og krabbamein. Hluti af kostnaði þjóðarinnar af sjúkrahúsakerfinu stafar beinlínis af ofurtollum stjórnvalda á innfluttu grænmeti.

Ef þjóðin hefði nógu mikinn áhuga á heilsu sinni, mundi hún ekki þola stjórnmála- og embættismönnum að skaða heilsu fólks á þennan hátt, valda því hjartasjúkdómum og krabbameini til að halda uppi háu verði á grænmeti. En þjóðina skortir áhuga á þessu.

Þetta breytist vonandi smám saman, þegar fleiri Íslendingar kynnast útlöndum og komast að raun um, að við erum þriðja flokks þjóð á þessu sviði. En það á langt í land, því að enn eru mál hér í þeim farvegi, að ríkið er að efla verndartolla á innfluttu grænmeti.

Þekkingin á þessu sviði er þó orðin svo mikil, að ljóst er, að stjórnmála- og embættismenn eru í þröngri hagsmunagæzlu vísvitandi að skaða heilsu þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV