Glæpalýður fer sínu fram

Greinar

Tollvörður, sem er sérfróður í fíkniefnaleit, var barinn til óbóta af fjórum þekktum fíkniefnamönnum á fimmtudagskvöldið, svo sem sagt var frá í DV í gær. Tollgæzlan kærði málið ekki og lætur eins og ekkert hafi gerzt. Yfirmenn hennar hafa ekki viljað tjá sig um málið.

DV hefur að undanförnu einnig greint frá skemmdarverkum á persónulegum eigum tollvarða. Einnig hafa fíkniefnamenn að undanförnu haft í hótunum við tollverði og fíkniefnalögreglumenn, svo og fjölskyldur þeirra. Embættiskerfið hefur ekkert gert í málunum.

Tollstjóraembættið í Reykjavík varð hins vegar við kröfu fjármálaráðherra um að kalla á teppið nokkra tollverði, sem höfðu skýrt fjölmiðlum frá áhugaleysi embættisins í fíkniefnavörnum. Þannig er sótt að vörðum laganna úr báðum áttum, neðan frá og ofan.

Ekki er von að vel gangi í viðureigninni við fíkniefni, þegar við völd eru embættismenn á borð við tollstjórann í Reykjavík og fjármálaráðherrann, sem óbeint vinna með fíkniefnamönnum að því að hræða tollverði til að hætta að trufla nærri óheftan innflutning fíkniefna.

Svo áhugalaust er kerfið um fíkniefnavarnir, að ekki er lögð nein áherzla á að þefa uppi fíkniefni í tollpósti, þótt vitað sé að umtalsverður hluti fíkniefna komi þá leið inn í landið. Ennfremur hefur ekki tekizt að taka fíkniefni á Keflavíkurflugvelli síðan í febrúar.

Svo áhugalaust er kerfið um fíkniefnavarnir, að nýlega var erlendu burðardýri fíkniefna sleppt lausu og það rekið úr landi. Burðardýrið var vinsamlega beðið um að gefa sig fram í heimalandinu. Þar með voru þau skilaboð send, að áhættulítið sé að flytja hingað fíkniefni.

Allir, sem til þekkja, segja, að óbreytt framboð sé á flestum tegundum fíkniefna, svo sem hassi, amfetamíni og harðari efnum. Lítill afrakstur fíkniefnaleitar er því ekki merki þess, að markaðurinn sé að dragast saman, heldur merki slakrar frammistöðu ríkisvaldsins.

Ísland ætti að vera óskaland fíkniefnaleitar. Landið á engin landamæri með öðru ríki. Innflutningsleiðir fíkniefna eru því tiltölulega fáar og varnir tiltölulega auðveldar. Samt fljóta fíkniefni um landið í nokkurn veginn eins miklum mæli og markaðurinn framast þolir.

Þjóðfélagið breytist hratt við þetta og líkist meira undirheimahverfum stórborga í Ameríku og þriðja heiminum. Þetta lýsir sér meðal annars í auknum líkamsárásum. Sölumenn lemja tollverði og fíkniefnaneytendur ráðast tilefnislaust á þá, sem verða á vegi þeirra.

Fyrir skömmu réðist hópur manna inn í óviðkomandi heimahús og misþyrmdi tveimur mönnum þar að tilefnislausu. Um svipað leyti réðist hópur manna tilefnislaust á mann á götu og skildi eftir meðvitundarlausan. Einnig var ráðizt á pizzusendil, sem vildi fá pizzuna borgaða.

Sameiginlegt einkenni allra þessara mála, hvort sem fórnardýrin eru óviðkomandi fólk eða leitarfólk, er, að ríkið sinnir ekki þeirri frumskyldu sinni og helztu afsökun tilveru sinnar að gæta öryggis borgaranna. Samt er ríkið að öðru leyti með nefið í hvers manns koppi.

Árásin á tollvörðinn á fimmtudagskvöldið markar þau tímabót, að spírallinn er kominn niður í gólf. Hér eftir munu fíkniefnamenn hafa sína hentisemi og haga sér eins og þeim þóknast, með óbeinum stuðningi æðstu embættismanna, sem vilja ekki heyra staðreyndir.

Ástandið er fáránlegt og ástæðulaust í senn. Það er út í hött, að þjóðfélag á menningarstigi Íslands þurfi að þola stjórnmála- og embættismönnum þessa eymd.

Jónas Kristjánsson

DV