Hinn ósvífnasti allra

Greinar

Paolo Berlusconi, bróðir Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, afplánar nú hálfs þriðja árs dóm fyrir spillingu í þágu fyrirtækja bróður síns. Sjálfur er Silvio Berlusconi oft í yfirheyrslum hjá rannsóknardómurum og á yfir höfði sér ótal ákærur af slíku tagi.

Berlusconi eignaðist fyrst peninga í verktakabransanum, sem á Ítalíu hefur löngum byggzt á mútum. Síðan lenti hann í vinfengi við Bettino Craxi, leiðtoga ítalskra jafnaðarmanna og löngum forsætisráðherra. Af honum þáði Berlusconi fyrsta sjónvarpsleyfið í landinu.

Craxi er nú í útlegð í Norður-Afríku á flótta undan réttvísinni og getur ekki snúið til Ítalíu aftur, því að þar bíður hans að afplána dóma fyrir margvíslega og geigvænlega spillingu, sem hann stóð fyrir sem forsætisráðherra á sínum tíma. Hann er orðinn ærulaus maður.

Pilsfaldakapítalistinn Berlusconi blómstraði hins vegar. Hann notaði sjónvarpsleyfið frá Craxi til að byggja upp fjármálaveldi, sem hefur haft greiðan aðgang að fjármagni hjá sumum bönkum og lánastofnunum og skuldar nú sem svarar 170 milljörðum íslenzkra króna.

Á uppstigningardag handtók lögreglan fimm helztu stjórnendur fjármálaveldis Berlusconis og gaf út handtökuskipanir á tvo aðra, sem ekki fundust. Þeir eru sakaðir um skjalafalsanir og mútur. Þar með eru taldar greiðslur til Craxis og til skattalögreglunnar á Ítalíu.

Rannsóknin á umsvifum Berlusconis nær til annarra landa. Í apríl gerði svonefnd stórsvikadeild brezku lögreglunnar húsleit í London og gerði upptæka fimmtán skjalapakka á vegum fjármálaveldis Berlusconis. Á Spáni er verið að rannsaka kaup á sjónvarpsstöð.

Berlusconi fór út í stjórnmál á sínum tíma til að vernda umsvif sín. Hann beitti fyrir sig öflugu fjölmiðlaveldi sínu, fékk um fjórðung þingsæta í kosningunum fyrir rúmlega tveimur árum og varð forsætisráðherra. Hann notaði völd sín til að hreiðra betur um fyrirtæki sín.

Meðal annars gaf hann út ólöglega tilskipun um, að 2000 fjárglæframönnum yrði sleppt úr gæzluvarðhaldi. Ennfremur þrýsti hann sínum mönnum inn í helztu áhrifastöður samkeppnisaðilans, ríkissjónvarpsins á Ítalíu. Hann reyndi líka að skrúfa fyrir rannsóknardómara.

Sem betur fer varð Berlusconi skammlífur í embætti. Við tóku hlutlausar embættismannastjórnir, sem létu hann ekki vaða yfir sig. Síðan var kosið aftur í vor og þá náðu aðrir samkomulagi um myndun ríkisstjórnar án þátttöku Berlusconis og flokks hans, Áfram Ítalía.

Eigi að síður tókst Berlusconi að ná næstum því sama fylgi í kosningunum og hann hafði náð tveimur árum áður. Í millitíðinni hafði þó það gerzt, að öllum Ítölum átti að vera orðið ljóst, að hann hefur allan tímann verið að reyna af alefli að skara eld að eigin köku.

Hér í blaðinu var fyrir tveimur árum lýst furðu á, að Ítalir skyldu styðja þennan gerspillta mann í stjórnmálum. Sú furða er enn meiri núna, þegar miklu meira er vitað um feril hans, en hann endurnýjar samt fylgi sitt. Sú staðreynd er áfellisdómur yfir ítölskum kjósendum.

Stundum er kvartað um, að Íslendingar séu tæpast með réttu ráði, þegar þeir velja sér stjórnmálaleiðtoga. Fávísi okkar í stjórnmálum er þó hreinn barnaleikur við dálæti Ítala á pilsfaldakapítalista, sem hefur öðlast allt sitt peningavald með söfnun skulda, mútum og fölsunum.

Þótt forstjórar hans og bróðir sitji inni og höfuðpaurinn sitji sjálfur á tímasprengju, heldur hinn ósvífni tækifærissinni áfram að faðma þjóðarhjartað í sjónvarpi sínu.

Jónas Kristjánsson

DV