Lyfjanotkun hefnir sín

Greinar

Eyðni var uppgötvuð snemma á níunda áratugnum og hefur farið sem logi yfir akur. Tæplega fimmtán árum síðar eru 20 milljónir manna þjáðar af sjúkdómnum og ein milljón lézt úr honum árið 1995, samkvæmt nýjum upplýsingum frá Alþjóðlegu heilbrigðisstofnuninni.

Það er fyrst á þessu ári, að vonir eru að vakna um, að fundizt hafi lyf, sem haldi eyðni niðri eða fresti framgangi hennar. Hinn langi tími, sem leið í þessu tilviki frá tilkomu nýs sjúkdóms til fyrstu skrefanna í lyfjameðferð gegn honum er þó engan veginn neitt einsdæmi.

Smitandi blæðingarhiti, sem nefndur er ebola, uppgötvaðist árið 1977 og hefur farið hægar yfir. 245 manns í Saír dóu úr þeim sjúkdómi í fyrra. Engin ráð hafa enn fundizt gegn honum. Ekki heldur gegn krabbameinsvaldandi C-lifrarveiru, sem kom í ljós árið 1989.

Einnig hafa gamlir sjúkdómar verið að birtast í nýjum og hættulegri myndum en áður. Til dæmis eru tvær lungnabólguveirur, ennfremur malaríuveirur og berklaveirur farnar að birtast í útgáfum, sem þola lyf. Harðgerðar veirur uppgötvast hraðar en ný lyf eru fundin upp.

Kólera og gula eru farin að stinga upp kollinum á svæðum, sem áður voru talin hrein af þessum sjúkdómum. Að öllu samanlögðu eru sjúkdómar farnir að snúa vörn í sókn að mati Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar, sem varar í skýrslunni við ótæpilegri lyfjagjöf.

“Við stöndum á brún hengiflugs í smitsjúkdómum,” segir Hiroshi Nakajima, forstjóri stofnunarinnar í heilbrigðisskýrslu ársins 1996. Hann segir þrjátíu banvæna sjúkdóma hafa litið dagsins ljós á síðustu tveimur áratugum og býst við að enn aðrir eigi eftir að koma í ljós.

Athuglisverðast við skýrsluna er áherzlan, sem þar er lögð á, að ofnotuð lyf eigi mikinn þátt í vandræðunum. Fúkalyf, sem rjúfa ónæmiskerfi líkamans, eru að mati stofnunarinnar notuð “af of mörgum, gegn röngum sjúkdómum, í röngu magni og í rangan tíma”.

Mikil notkun fúkalyfja til framleiðsluaukningar í landbúnaði hefur magnað vandann. Hún framkallar lyfjaþolna gerla, sem enda á borðum neytenda og brjóta niður ónæmiskerfi þeirra. Þannig hefnist okkur fyrir misnotkun náttúrunnar alveg eins og misnotkun lyfjanna.

Við þekkjum mörg dæmi um, að lyf og eiturlyf eru oft sami hluturinn, bara í mismunandi magni. Þannig má flokka alkóhól, nikótín, koffín og sykur. Og hér á landi er alþekkt, að margir fíklar sækjast meira eftir lyfseðlum en öðrum leiðum til að komast í vímu.

Hversdagsleg lyf eru ekki síður hættuleg en alkóhól, nikótín, koffín eða sykur. Þeir, sem hafa vald til að dreifa lyfjum = eiturlyfjum, þurfa að fara miklu varlegar í sakirnar en nú er gert. Lyfjagjöf á að vera algert neyðarúrræði, en ekki það fyrsta, sem mönnum dettur í hug.

Ekki er nóg með, að læknar og aðrir dreifingaraðilar lyfja raski efnafræðilegu jafnvægi sjúklinganna, heldur stuðla þeir að stökkbreytingum sýkla yfir í hættulegri útgáfur, sem valda einnig vandræðum öllum hinum, er forðast bæði lyf og eiturlyf sem framast er kostur.

Þegar Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin hefur kveðið fast að orði í skýrslu ársins 1996, má vænta þess, að landlæknir og yfirmenn heilbrigðismála taki fastar á lyfjanotkuninni en hingað til hefur verið gert og hafi að leiðarljósi, að öll lyfjanotkun er í rauninni misnotkun.

Einnig þarf að stöðva fjárhagslegan vítahring, er felst í, að á hverju ári koma fram ný og ofsadýr lyf, sem sjálfvirkt hækka sjúkdómakostnað þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV