Könnuður á hálum ís

Greinar

Eitt fyrirtækið, sem stundar skoðanakannanir, spurði um daginn fyrir félagsmálaráðuneytið, hvort menn vildu auka völd almennra félagsmanna í stéttarfélögum á kostnað valdamanna í þeim félögum “eins og lagt er til í nýju frumvarpi um stéttarfélög og vinnudeilur”.

Vandinn við þessa villandi og leiðandi spurningu er sá, að ekki er samkomulag um, hvort nýja frumvarpið auki völd almennra félagsmanna eins og fullyrt er í síðari hluta spurningarinnar. Það fer eftir hugsanabrautum hvers fyrir sig, hvort hann telur svo vera eða ekki.

Í leiðurum þessa blaðs hefur frumvarpið fengið stuðning. Ráðamenn stéttarfélaga eru því hins vegar afar andvígir og fullyrða, að andstaðan stafi ekki af því, að þeir missi völd til almennra félagsmanna. Röksemdir þeirra eru ekki traustvekjandi, en þær eru samt til.

Stjórnendur Gallup halda því fram, að orðalag spurningarinnar komi því ekkert við, að það var félagsmálaráðuneytið, sem borgaði fyrir spurninguna og taldi niðurstöðu hennar henta sér vel. Þetta getur svo sem verið rétt, en breytir því ekki, að spurningin er leiðandi.

Könnunarfyrirtæki er á hálum ís, þegar það leggur fram spurningu, er felur í sér fullyrðingu, sem er umdeild á þann hátt, að hópur manna telur hana ranga, að vísu á veikum forsendum, og þegar það fær á þann hátt niðurstöðu, sem er í þágu umbjóðandans.

Með spurningunni gaf Gallup-fyrirtækið ekki aðeins höggstað á sér, heldur einnig á öðrum stofnunum og fyrirtækjum, sem fást við að kanna hugi og skoðanir fólks. Það skaðar þessa aðila, þegar unnt er að kasta almennt rýrð á skoðanakannanir vegna augljósra mistaka.

Traust fólks á skoðanakönnunum hefur byggzt upp á löngum tíma. Áratugum saman hafa niðurstöður síðustu kannana fyrir kosningar verið bornar saman við niðurstöður kosninganna sjálfra. Samanburðurinn hefur stuðlað að eflingu og viðhaldi þessa almenna trausts.

Raunar er ekki örgrannt um, að traust stjórnmálamanna á slíkum könnunum keyri um þverbak, þegar þeir eru farnir að velta fyrir sér tilfærslum, sem eru innan skekkjumarka, sem birt eru með niðurstöðutölunum. En þetta traust byggist á langri og góðri reynslu.

Auðvitað fer það í taugar þeirra, sem áratugum saman hafa staðið fyrir ábyrgum skoðanakönnunum, þegar til skjalanna koma viðskiptafíknir menn, sem höggva í þetta gróna traust með vinnubrögðum, er samræmast ekki góðum og gildum hefðum á þessu viðkvæma sviði.

Nauðsynlegt er að gera skarpan greinarmun á könnuðum, sem fara hefðbundnar leiðir, og hinum, sem spyrja spurninga, er fela í sér forsendur, sem kunna að vera umdeildar. Síðari hópurinn fær auðvitað í bili viðskipti þeirra aðila, sem vilja panta sér niðurstöður.

Þetta hefnir sín svo auðvitað, þegar allt dæmið er vefengt, svo sem gert hefur verið í þessu tilviki. Félagsmálaráðuneytið hefur ekki fengið þá útkomu, sem það sóttist eftir, því að það hefur verið sakað um aðild að óvísindalegum vinnubrögðum. Spurning þess ónýttist með öllu.

Til langs tíma litið er affarasælast fyrir alla, að gömlu hefðunum sé fylgt og menn hætti sér ekki út á þann hála ís, sem hér hefur verið gerður að umræðuefni. Heildarviðskipti þjóðfélagsins við skoðanakönnuði hljóta að fara eftir trúverðugleika greinarinnar í heild.

Eins og skoðanakannanir hafa hingað til verið, gera þær oftast gagn með því að auka þekkingu almennings á innviðum þjóðfélagsins og gangverki þjóðlífsins.

Jónas Kristjánsson

DV