Líkt við fótboltabullu

Greinar

Undir fyrirsögninni: “Geðveikt, slæmt og hættulegt” segir brezka tímaritið Economist í síðasta forsíðuleiðara, að framganga Johns Major forsætisráðherra í kúariðumálinu kunni að verða áliti Bretlands í útlöndum jafn skaðleg og framferði brezkra fótboltabullna.

Economist hefur lengst af verið hallt undir Major, en hefur nú snúið við blaðinu. Það segir, að jákvæðasta túlkunin á stríðsyfirlýsingum forsætisráðherrans gegn Evrópusambandinu sé sú, að hún sé örvæntingarfullt áhættuspil ríkisstjórnar, sem sé að dofna og hverfa.

John Major hefur ákveðið að Bretland taki ekki þátt í samstarfi innan Evrópusambandsins fyrr en lönd þess leyfi á nýjan leik innflutning á brezku nautakjöti. Hefur hann skipað sérstakt “stríðsrekstrarráðuneyti” í hefndarskyni til að vinna hermdarverk á samstarfinu.

Raunar getur brezka ríkisstjórnin sjálfri sér kennt um innflutningsbann nágrannaríkjanna. Hún reyndi lengi að halda leyndum upplýsingum um útbreiðslu kúariðunnar og vanrækti að gera sannfærandi ráðstafanir til að tryggja heilsu og hagsmuni neytenda.

Skoðanakannanir í Bretlandi benda til, að meirihluti kjósenda átti sig á, að það er brezka ríkisstjórnin, en ekki Evrópusambandið, sem hefur klúðrað kúariðumálinu. En þær sýna líka, að meirihluti kjósenda styður stríðsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í málinu.

Hugsanlegt er, að gersamlega ábyrgðarlaust framferði Majors og ríkisstjórnar hans geti vakið upp dvínandi fylgi kjósenda með stuðningi gulu pressunnar, sem virðist vera að endurlifa upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar. Þar með kæmist bjálfasvipur á þjóðina í heild.

Það skaðar alla aðila og mest Breta sjálfa, ef Bretland einangrast vegna þröngsýns stuðnings þjóðernissinnaðs almennings við forsætisráðherra, sem er orðinn innikróaður og pólitískt hættulegur umhverfi sínu, af því að hann fer hamförum við að reyna að halda embættinu.

John Major hefur áður sýnt, að hann er ábyrgðarlaus tækifærissinni. Það kom fram í viðbrögðum hans við tillögu Mitchell-nefndarinnar um lausn deilnanna í Norður- Írlandi. Þessi nefnd, sem hann átti þátt í að skipa, lagði til samhliða afvopnun og viðræður í áföngum.

Tillögurnar birtust í janúar og vöktu almenna velþóknun. John Major taldi sig hins vegar þurfa á að halda atkvæðum róttækra sambandssinna í Norður-Írlandi til að verja ríkisstjórnina falli. Hann hafnaði tillögunum og kastaði sjálfur fram umdeildum sprengjuhugmyndum.

Um þetta leyti voru ábyrgir fjölmiðlar í Bretlandi farnir að átta sig á, hversu ómerkilegur forsætisráðherrann var. Þeir hefðu þó átt að vera búnir að sjá það fyrir fjórum árum af japli hans, jamli og fuðri í Bosníudeilunni, að hann var ekki bógur til að ráða fyrir ríkjum.

Máttvana, tækifærissinnuð og örvæntingarfull vinnubrögð hans eru gerólík stjórnarháttum forverans, Margaret Thatcher, sem hafði heilsteypta heimsmynd og bein í nefinu til að framfylgja henni. Nýju vinnubrögðin hafa komið illu af stað og hafa skaðað Bretland.

Fjölmiðlar á meginlandi Evrópu hafa lýst furðu sinni á framferði brezka forsætisráðherrans . Æruverðug blöð tala sum um “klikkun” og önnur um “vitfirringu”. Þessi viðbrögð rýra auðvitað vilja ráðamanna á meginlandinu til að hliðra til fyrir brezkum sjónarmiðum.

Illa er komið fyrir gömlu heimsveldi að vera smám saman að breytast í einangrunarsinnað, illa lynt og fyrirlitið gamalmenni, sem fær hvergi vilja sínum framgengt.

Jónas Kristjánsson

DV