Mælt með auðmannafæði

Greinar

Holur hljómur er í góðviljaðri herferð nokkurra samtaka og stofnana fyrir aukinni neyzlu grænmetis. Fyrirstaðan er nefnilega ekki lengur óbeit almennings á grænmeti, heldur ofurtollar stjórnmálaflokkanna, sem halda fólki frá neyzlu þessa nauðsynlega fæðuflokks.

Tollaheimildum landbúnaðarráðuneytisins hefur verið beitt til hins ýtrasta af ráðherrunum Halldóri Blöndal og Guðmundi Bjarnasyni, sem telja sig vera í vinnu hjá þröngum sérhagsmunum og víla ekki fyrir sér að ráðast gegn heilsufari allrar þjóðarinnar í því skyni.

Tollarnir koma harðast niður á vandaðri grænmetisframleiðslu, sem er tiltölulega dýr í innkaupi, þótt hún sé á því stigi ódýrari en ýmsir aðrir fæðuflokkar, sem við notum of mikið af. Verðtollurinn leggst á innkaupsverðið og hækkar vöruna út fyrir allan þjófabálk.

Lífrænt ræktað grænmeti er sá hluti þessa mikilvæga fæðuflokks, sem líklegast er, að sé laus við ýmis aukefni, sem allt of mikið eru notuð sums staðar í erlendum landbúnaði. Í verzlunum hér á landi er kílóverð lífræns grænmetis á bilinu frá 500 í 1000 krónur.

Almenningur telur sig ekki hafa ráð á að kaupa hollustuvöru á þessu verði. Því má vinsamlega benda hinum góðviljuðu samtökum og stofnunum á að snúa sér til stjórnmálaflokka þjóðarinnar, hinna raunverulegu ábyrgðaraðila rangs mataræðis þjóðarinnar.

Afleiðing verðstefnunnar, sem áður var rekin af Halldóri Blöndal og nú af Guðmundi Bjarnasyni, er sú, að nærri eingöngu er flutt inn allra ódýrasta grænmetið, það sem ræktað er með mestri notkun vaxtaraukandi aukefna. Þetta óholla grænmeti fyllir búðirnar.

Það er ábyrðgarhluti góðviljaðra samtaka og stofnana að hvetja til neyzlu á vöru, sem verður til með gífurlegri notkun eiturefna af ýmsu tagi. Miklu nær væri fyrir þessa aðila að beita áhrifamætti sínum til lækkunar verðs á hollu grænmeti úr eðlilegri ræktun, helzt lífrænni.

Góðviljaða fólkið, sem skrifað hefur greinar í blöð um nauðsyn þess, að við aukum grænmetisneyzlu okkar upp í svonefnda fimm skammta á dag, virðist búa við veruleika, sem peningalítill almenningur þekkir ekki, eða þá að það lítur framhjá misjafnri hollustu grænmetis.

Þegar verð venjulegrar papriku fer yfir 1000 krónur á kílóið og eðlilega ræktaðrar papriku enn hærra, er miklu nær fyrir þetta góðviljaða fólk að fara í mótmælagöngur, mótmælasetur og mótmælaskrif gegn glæpaiðju landbúnaðarráðuneytisins og stjórnmálaflokkanna allra.

Með því að stýra neyzlu almennings annars vegar frá vönduðu grænmeti til óvandaðs grænmetis og hins vegar frá grænmeti til ofnotaðra fæðutegunda eru ráðuneytið og flokkarnir að skaða heilsu þjóðarinnar. Verðstýring yfirvalda er ekkert annað en glæpur gegn þjóðinni.

Afleiðing skelfilegrar verðstefnu er, að við borðum lakara grænmeti og minna af grænmeti en nokkur önnur þjóð á Vesturlöndum og erum lengst þessara þjóða frá því að ná þeirri hlutdeild grænmetis, sem mælt er með af hálfu fjölþjóðlegra heilbrigðisstofnana.

Í þessari stöðu væri skynsamlegast, að áhugasamtök um heilsufar tækju saman höndum við áhugasamtök um efnahag fólks, svo sem neytendasamtök, um að beina þrýstingi sínum að þjóðhættulegum stjórnmálaflokkum, þingmönnum þeirra, ráðherrum og embættismönnum.

Herferð áhugasamtakanna er ekki raunhæf, meðan hún lætur í friði hina raunverulegu orsakavalda, sem hafa gert hollustuvöru að auðmannafæði.

Jónas Kristjánsson

DV