Pappírsfrek viðskipti

Greinar

Þegar tvö fagtímarit eru keypt með greiðslukorti í bókabúð, eru gefin út þrjú skjöl. Sérstakur innsláttur fer fram á hverju þessara skjala og tvö þeirra eru heft saman á handvirkan hátt. Þannig kynnist íslenzkur neytandi handvirku pappírsfargani kerfisins á upplýsingaöld.

Eitt skjalanna kemur úr posavél og varðar greiðsluþátt viðskiptanna. Annað kemur úr kassavél og varðar staðfestingu þeirra gagnvart skattakerfinu. Hið þriðja kemur úr samlagningarvél og sundurliðar verð tímaritanna, af því að sundurliðun vantar á hin skjölin.

Til þess að allt fari fram eftir settum reglum, er viðskiptavinurinn spurður, hvaða kennitölu eigi að setja á staðgreiðslunótuna. Samt liggur rétt kennitala þegar að baki kortanótunnar, en þessi handvirka kennitala úr búðinni er sú eina, sem skattakerfið tekur gilda.

Þessi handafls- og pappírsfreki bjálfaháttur er framkvæmdur þúsundum saman á degi hverjum í þjóðfélagi, sem á hinn bóginn hamast við að skipa opinberar nefndir til að gera ályktanir um að koma landinu í pappírslaus viðskipti og aðra undraheima upplýsingaaldar.

Nettenging stofnana og pappírslaus viðskipti voru hornsteinn í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í apríl 1995. Allt er það endurtekið og nánar útfært í stefnuyfirlýsingu fjármálaráðuneytisins í desember 1995. Þriðja nefndin og sú fjölmennasta er nú í sama knérunni.

Á sama tíma og nefndasérfræðingar ríkisins endurtaka sama sannleikann tvisvar á ári og fá hann viðurkenndan sem stefnu ríkis og þjóðar, gerist ekki nokkur skapaður hlutur í málinu. Hver opinber stofnun húkir í sínum ranni og vill sín sérstöku gögn í hendurnar.

Tollurinn og skatturinn eru verstu stofnanirnar. Ef þær yrðu kvaldar með handafli til að viðurkenna upplýsingabyltinguna, væri þjóðin þegar komin hálfa leið út í upplýsingaöld. En það gerist ekki nema þar séu settir inn stjórar, sem afnema gamla ruglið með pennastriki.

Vinnan við pappírsfrek viðskipti dregur úr framleiðni okkar og stuðlar að lakari lífskjörum, verri samþjónustu og lengri vinnudegi en í nágrannalöndunum. Við erum þúsundum saman upptekin við að slá sömu upplýsingarnar aftur og aftur inn á vél og prenta þær út.

Samt er þjóðin svo opin fyrir viðskiptum nútímans, að 70% allra viðskipta í smásölu fara fram með greiðslukortum og 95% þessara viðskipta fara fram á stafrænan hátt. Hér eru bæði krítarkort og bankakort. Myntkort, sem minna á símakort, verða prófuð á þessu ári.

Myntkortin koma í staðinn fyrir peningaseðla. Þau henta þeim, sem ekki vilja nota neina tegund greiðslukorta. Og þau henta líka, þegar greiðsluupphæðir eru lágar. Að þeim innleiddum er í rauninni ekki lengur nein þörf á að gefa út peningaseðla í landinu.

Fulltrúar ríkisins þurfa að setjast niður með fulltrúum bankanna, skattsins og tollsins og annarra aðila, sem málið varðar, og finna á tilgreindum fjölda mánaða einfalda leið, sem samræmir hinar ýmsu bókhaldsþarfir stofnana og fyrirtækja án innsláttar og pappírs.

Ef viðskipti kalla á kennitölu, á undantekningarlaust að lesa hana stafrænt af korti, en ekki slá hana inn í samræmi við sjón eða heyrn. Ef upphæð er slegin inn í einum tilgangi, á ekki að slá hana aftur inn í öðrum tilgangi og í þriðja sinn í þriðja tilganginum.

Samræming er einföld og fljótleg. Hana má framkvæma fyrir áramót og hætta skipun nýrra blaðurnefnda um pappírslaus og stafræn framtíðarviðskipti.

Jónas Kristjánsson

DV