Tölvunefnd er enn á ferð

Greinar

Almennur aðgangur að bifreiðaskrá hefur gert viðskipti með notaða bíla traustari en þau voru áður. Á flestum bílasölum fá væntanlegir kaupendur útskrift úr bifreiðaskrá ríkisins, þar sem fram kemur, hverjir hafi átt bílinn frá upphafi og í hvaða tjóni hann hafi lent.

Um nokkurt skeið hefur af þessari ástæðu verið mun erfiðara en var áður fyrr að svindla bílum með vafasama fortíð inn á kaupendur. Þessu þægilega ástandi hefur nú verið raskað, því að Tölvunefnd hefur gert ráðstafanir til að reyna að takmarka aðgang að bifreiðaskrá.

Þessi nefnd er valdamikil stofnun, sem komið hefur verið á fót að norrænni fyrirmynd. Þar sitja vandamálafræðingar að norrænni fyrirmynd og velta fyrir sér margvíslegri skaðsemi nýjunga í tölvumálum, þar á meðal óheftum aðgangi almennings að bifreiðaskrá ríkisins.

Frægust varð þessi nefnd vandamálafræðinga fyrir að reyna að banna útreikninga á tölum í skattskrá, sem tíðkast hafa á hverju sumri í tilefni af útkomu nýrrar skattskrár. Málið komst svo langt, að fjármálaráðuneytið gaf út reglugerð um þetta einstæða bann nefndarinnar.

Fjármálaráðuneytið dró síðan reglugerðina til baka, þegar það og ráðherra þess höfðu orðið fyrir hæfilegum flimtingum fyrir að reyna að banna samlagningu og frádrátt, margföldun og deilingu. Auðvitað stóðst reglugerðin hvorki stjórnarskrá né fjölþjóðasamninga.

Útreið fjármálaráðherra og -ráðneytis af völdum Tölvunefndar verður vonandi til þess, að mál hennar fái ekki eins greiða leið um kerfið og áður var. Menn eru að byrja að átta sig á, að úrskurðir nefndarinnar eru ekki í samræmi við væntingar manna um opið þjóðfélag.

Um þetta leyti er nefndin að fjalla um, hvort ekki sé rétt að banna birtingu nafna nokkurra manna í ættfræðiriti, sem er í undirbúningi. Þannig ræðst hún að nánast heilagri þjóðaríþrótt Íslendinga og um leið að vísindalegum vinnubrögðum í einni helztu grein sagnfræðinnar.

Fyrst varð Tölvunefnd fræg fyrir að koma í veg fyrir, að sundurliðun símreikninga kæmi að fyrirhuguðum notum með því að láta krossa yfir suma tölustafi í númerum. Þá þegar hefði verið eðlilegt, að stjórnvöld færu að gæta sín á nefndinni og setja hana á hliðarspor.

Nefndin er ekki í takt við þjóðfélagið á Íslandi. Hún veltir fyrir sér breytingum, sem fylgja aukinni tölvunotkun og aukinni samtengingu á tölvum, og sér hvarvetna skrattann á ferð. Hún ofkeyrir áherzlu sína á leyndarhelgi á kostnað upplýsingafrelsisins í landinu.

Bezt væri að leggja niður nefndina, sem hefur þegar reynt að leggja steina í götuna í átt til upplýsingaþjóðfélags framtíðarinnar á Íslandi og er líkleg til að halda áfram að reyna að hamla gegn þróuninni. Að öðrum kosti er rétt að skipta um fólk í nefndinni.

Við þurfum sem þjóð að vera framarlega í þróun opinna, greiðra og pappírslausra viðskipta með samtengingu tölva. Það gengur allt of hægt, meðal annars vegna forns hugsunarháttar í mörgum opinberum stofnunum. Þá múra fortíðar þarf að brjóta sem fyrst.

Tölvunefnd verður einn þröskuldurinn á efnahagslegri framfarabraut þjóðarinnar inn í opna upplýsingaheima. Nefndin hefur lengi sýnt það í verkum sínum, að hún leggur hvarvetna lóð sitt á vogarskál leyndar. Við þurfum því að gefa henni strangar gætur.

Friðhelgi einkalífs er ágætt, en hlaðið hugtak, sem kallar á misnotkun. Gullinn meðalvegur leyndar og opnunar er á öðrum slóðum en þeim, sem Tölvunefnd fetar.

Jónas Kristjánsson

DV