Líf þitt er opin bók

Greinar

Alls óþekktum tölvuáhugamanni með sjaldgæfu nafni í Bandaríkjunum, nýkomnum á Internetið, datt nýlega í hug að nota eitt öflugasta leitarforritið á netinu til að finna nafnið sitt. Það tók forritið fimm sekúndur að finna nafn hans 32svar sinnum í óravíddum netsins.

Hann fékk skrá yfir margt af því, sem hann hafði verið að gera á netinu, t.d. lesendabréf, sem hafði birzt í nettímariti, og athugasemdir, sem hann hafði sent inn í lokaða umræðuhópa á netinu. Allar þessar upplýsingar um sjálfan hann komu eins og hendi væri veifað.

Þetta segir margar sögur í senn. Annars vegar er greinilegt, að netið er nú þegar í stakk búið til að útvega fólki leifturskjótar upplýsingar um hvaðeina, sem það vill vita. Hins vegar er líka greinilegt, að óhjákvæmilega þrengir netið töluvert einkalífshjúp notenda þess.

Þeir, sem af ungæðishætti ramba um netið og leggja orð í belg í vafasömum umræðuhópum, t.d. um afbrigðileg kynferðismál, geta sem hægast átt það á hættu, að leitarforrit séu notuð til að rifja fortíðina upp, ef þeir fara löngu síðar í framboð sem meintir góðborgarar.

Sömuleiðis geta menn komið á fót njósnastofum, er nota leitarforrit til að búa til mynd af fortíð þeirra, sem hafa slysazt inn í vafasama umræðu á netinu; og hótað að senda upplýsingarnar til makans, nema hæfileg fjárupphæð sé notuð til að liðka fyrir málinu.

Að þessu leyti heggur netið nær einkalífi fólks heldur en síminn, því að altækar hleranir alls símakerfisins mundu ekki nýtast á sama hátt, þótt einhver vildi og gæti stundað þær. Það er til dæmis mun erfiðara að flokka hleruð símtöl eftir ákveðnum lykilorðum.

Tölvutækni nútímans er að breyta einkalífi fólks á fleiri sviðum. Greiðslukort eru orðin að helzta gjaldmiðli fjölda fólks og gefa því mánaðarlega upplýsingar um reksturinn. Allar þessar upplýsingar liggja áfram í tölvukerfum og sýna neyzlumynztur einstakra borgara.

Fólk verður að átta sig á þessu og læra á þetta, ef það vill vernda það, sem það telur vera einkalíf sitt. Það getur forðast greiðslukort og notað heldur peningaseðla eða væntanleg myntkort. Það getur forðast internet og síma og notað heldur samskipti á staðnum í gamla stílnum.

Að öðrum kosti þarf viðkvæmt fólk að venjast því að haga sér á neti, í kortum og í síma eins og það mundi gera á opinberum vettvangi, svo að ekki sé hægt að hafa neitt eftir því, sem vansæmd sé að. Raunar hafa margir vanið sig á að umgangast þessi tól af varfærni.

Tölvutæknin þvingar fólk til að skilgreina einkalíf sitt á nýjan leik og setja sér umgengnisreglur á fleiri sviðum en áður. Fyrri tilraunir til að vernda hefðbundnar skilgreiningar á einkalífi fólks verða hjákátlegar í samanburði við þau verkefni, sem nú steðja að.

Við slíkar aðstæður er úrelt að hafa sérstaka Tölvunefnd til að koma í veg fyrir, að fólk geti séð á símareikningum, hvert það hafi verið að hringja; að fólk geti séð í bifreiðaskrá, hvort bíll í sölu hafi lent í tjóni; að fólk geti lagt saman tvo og tvo við lestur skattskrár.

Við slíkar aðstæður er úrelt að hafa sérstaka Tölvunefnd til að koma í veg fyrir, að fólk geti séð, hver er skyldur hverjum, með því að fletta upp í prentuðum ættfræðiritum. Allt puð Tölvunefndar er hlægilegt í ljósi upplýsingasprengingarinnar á alþjóðavettvangi.

Leyndarstjórar tölvunefnda heims munu aldrei geta hamlað gegn þessari opnun, enda væri þeim nær að viðurkenna aðstæður og kenna fólki að umgangast þær.

Jónas Kristjánsson

DV