Ruddalegur skuldakóngur

Greinar

Bandaríkjastjórn hefur tilkynnt, að hún muni beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir endurkjör Boutros Ghali til annars fimm ára tímabils sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Hún hefur gert honum tilboð um, að hann fái til málamynda eins árs framlengingu.

Fulltrúar Evrópu eru hvumsa yfir þessum yfirgangi Bandaríkjanna. Þeir eru flestir ánægðir með störf framkvæmdastjórans eins og raunar fulltrúar ríkja úr öðrum heimshlutum. Þeir telja, að Boutros Ghali hafi staðið sig með bezta móti og eigi að fá fimm ár í viðbót.

Flest bendir til, að hann fái eindreginn stuðning flestra ríkja heims, en verði samt að víkja vegna neitunarvalds Bandaríkjanna. Evrópuríkin, sem borga skilvíslega gjöld sín, telja brýnna, að Bandaríkin fari að greiða niður sjötíu milljarða króna skuld sína við samtökin.

Fulltrúar Bandaríkjanna segja hins vegar, að þetta sé einmitt aðferðin við að greiða niður skuldina. Boutros Ghali er af ómálefnalegum ástæðum orðinn blóraböggull meirihluta repúblikana í bandaríska þinginu, sem kennir honum um ýmislegt, sem aflaga fer í heiminum.

Þingið hefur árum saman sett í fjárlög ríkisins mun lægri upphæðir en Bandaríkin hafa skuldbundið sig til að greiða og þannig safnað gífurlegri skuld. Ríkisstjórnin telur, að fyrirstaðan gegn fjárveitingunum muni dofna, ef hinn óvinsæli Boutros Ghali verði rekinn.

Merkilegast í öllu þessu er, að Bandaríkjastjórn er sífellt að hlaða verkefnum á Sameinuðu þjóðirnar, sumpart gegn ráðum annarra ríkja, en neitar síðan að taka þátt í að greiða verkefnin, sem hún stofnar sjálf til. Engin rökfræði eða málefni eru í siðleysi hennar.

Ruddalegar aðgerðir Bandaríkjastjórnar væru skiljanlegri, ef hún hefði á takteinum annan frambjóðanda, sem líklegur væri til að taka til hendinni í ofvöxnu og gagnslitlu skrifræði Sameinuðu þjóðanna og nyti víðtæks trausts. En hún hefur alls engan frambjóðanda.

Boutros Ghali hefur metið stöðuna og komizt að raun um stuðning alls þorra ríkja heimsins. Hann telur sig ekki hafa neinu að tapa og ætlar því að bjóða sig fram til annars kjörtímabils. Þá reynir óþægilega á neitunarvald ósvífna skuldakóngsins í Sameinuðu þjóðunum.

Komið hefur í ljós í ýmsum málum, að Clinton Bandaríkjaforseti er nánast alveg stefnulaus í utanríkismálum og skiptir um skoðun á ýmsa vegu eftir því, hvernig vindurinn blæs í innanríkismálum. Hann rambar fram og til baka eftir gagnrýni repúblikana hverju sinni.

Af því að kalda stríðinu er lokið, telja ríkisstjórnir heimsins sig ekki þurfa eins mikið á bandarískri forustu að halda og áður. Þess vegna er vingulsháttur forsetans ekki eins skaðlegur og hann hefði verið fyrr á árum. Samt veldur hann óþægindum í samstarfi ríkja heims.

Með neðanbeltisárás sinni á Boutros Ghali hefur Bandaríkjastjórn aukið einangrun sína á alþjóðlegum vettvangi og dregið úr líkum á, að tekið verði mark á henni, þegar hún þarf á því að halda. Hún hefur hagað sér eins og óknyttaunglingur með neitunarvaldi.

Boutros Ghali er engan veginn gallalaus. Hann hefur ekki tekið skrifræðið nógu föstum tökum og hefur verið tregur til aðgerða, til dæmis í Bosníu, sumpart vegna peningaleysis af völdum skuldseigju Bandaríkjanna. En auðvelt er að hugsa sér mun lakari framkvæmdastjóra.

Hann er líka áhrifamesti og virtasti framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ef til vill að Dag Hammarskjöld frátöldum, og ætti því að sitja áfram.

Jónas Kristjánsson

DV