Merkiskosningar

Greinar

Vottur af spennu komst í forsetakosningarnar í vikulokin, þegar skoðanakannanir sýndu hver á fætur annarri, að fylgi frambjóðenda var að jafnast. Lengst af baráttunnar vantaði þessa spennu vegna yfirburðafylgis eins frambjóðanda, Ólafs Ragnars Grímssonar.

Fylgi Ólafs hefur hægt og sígandi dalað í skoðanakönnunum DV. Í upphafi mánaðarins var hann með nærri 50% fylgi, en var í gær kominn niður í 40% fylgi. Þetta hefur þó ekki komið Pétri Hafstein til góða, því að hann hefur staðið í stað, en Guðrún Agnarsdóttir rokið upp.

Tölurnar úr könnunum DV 8., 20. og 27. júní tala sínu máli. Ólafur byrjaði mánuðinn í 49,4, lak í 46,8 og loks enn frekar í 40,4%. Pétur byrjaði í 25,1, reis í 30,8 og seig svo til baka í 29,6%. Guðrún var hástökkvarinn, byrjaði í 12,3, stökk í 19,4 og stökk svo aftur í 27,5%.

Þetta gerir það að verkum, að lítið verður um hentistefnu kjósenda í kjörklefanum. Þeir, sem eru svo mikið á móti Ólafi Ragnari, að þeir vilja kjósa hvern þann, sem mesta möguleika hefur gegn honum, vita ekki lengur, hvort sá frambjóðandi heitir Pétur eða Guðrún.

Reynsla fyrri kosninga bendir ekki til, að menn færi atkvæði sitt milli frambjóðenda til að stuðla að kosningu hins næstbezta, þegar sá bezti á samkvæmt skoðanakönnunum ekki möguleika. Þetta kom eindregið í ljós í forsetakosningunum 1980 og verður staðfest í dag.

Upp á síðkastið hefur kosningabaráttan einkum snúizt um Ólaf Ragnar, sumpart vegna þess að hann hefur lengst af verið langefstur í skoðanakönnunum, en ekki síður af því að margir eru afar ósáttir við hann. Ýmsir telja sig raunar eiga honum grátt að gjalda.

Þannig er meiri hiti og undiralda í kosningabaráttunni en áður hefur þekkzt í forsetakosningum. Myndazt hafa andstæðar fylkingar Ólafs Ragnars og Péturs, sem geta ekki hugsað sér hinn frambjóðandann sem forseta. Guðrún hefur á síðustu dögum hagnazt á þessari spennu.

Þegar upp er staðið, fæst niðurstaða, sem allir verða að sætta sig við. Hún fæst með lýðræðislegum hætti og verður ekki vefengd. Sennilega mun taka lengri tíma en áður að slíðra sverðin og sameinast um þann, sem nær kjöri. Nauðsynlegt er, að það gerist sem fyrst.

Kosningabaráttan hefur sumpart rambað út á yztu nöf velsæmis og auk þess verið of dýr. Það er umhugsunarefni, að áhugamenn um framboð ákveðinna einstaklinga og gegn framboðum annarra skuli samanlagt verja 155 milljónum króna til að reyna að hafa sitt fram.

Einnig er umhugsunarvert, hversu mikið er fjallað um pólitísk atriði í kosningaumræðu og -áróðri, rétt eins og verið sé að kjósa til pólitískra valda. Sigurvegari kosninganna mun þó hafa litla möguleika á að skilja eftir sig spor á þessum umtöluðu framfarasviðum.

Athyglisvert er, að úr lestinni hefur helzt sá frambjóðandi, sem einn lagði áherzlu á, að forseti ætti bara að vera forseti, en ekki hugmyndafræðingur. Svo virðist því, sem frambjóðendur og kjósendur séu hamingjusamlega sammála um að misskilja forsetaembættið.

Kjósendur virðast vilja auka völd forsetans og þar með auka völd einstaklings, sem kjósendur telja vera yfir stjórnmál og flokka hafinn. Sá böggull fylgir þessu skammrifi, að það eykur áhuga stjórnmálamanna og flokka á yfirtöku þessa embættis sem annarra.

En hver sem niðurstaðan verður í nótt, þegar talið er upp úr kössunum, þá mun hún áreiðanlega verða óspámannlegum stjórnmálaskýrendum ærið umfjöllunarefni.

Jónas Kristjánsson

DV