Vestræn sneypuferð

Greinar

Atlantshafsbandalagið er búið að missa tökin á Bosníudeilunni eins og spáð var hér í blaðinu fyrir tæpum mánuði. Bandalagið hefur endurtekið mistök forverans í friðarhlutverkinu, Sameinuðu þjóðanna, enda missa liðsmenn þess í buxurnar, ef þeir sjá Serba.

Sænski stjórnmálamaðurinn Carl Bildt leikur sama sorgarhlutverkið á vegum Vesturlanda í vitleysunni í Bosníu og Bandaríkjamaðurinn Cyrus Vance, Bretinn David Owen og Norðmaðurinn Thorvald Stoltenberg höfðu áður leikið á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Undarlegast er við þá sneypuferð, sem nú stendur yfir, að hún felur eingöngu í sér endurtekið efni. Reynt er að þvæla Serbum til að skrifa undir hitt og þetta og síðan lýst yfir árangri. Samt er gömul 100% reynsla fyrir því, að ekki er neitt að marka undirskriftirnar.

Þótt Carl Bildt sé aumkunarverður í Bosníu, er þó hlutur Bills Clintons Bandaríkjaforseta hálfu aumari. Hann barði saman svokallað Dayton samkomulag, sem núna er svo gersamlega hrunið, að ekki stendur steinn yfir steini, þrátt fyrir hernámið á Bosníu.

Atlantshafsbandalagið er með fjölmennan her í Bosníu og gæti haft þar tögl og hagldir. Serbar eru búnir að átta sig á, að þetta er sami puntudúkkuherinn og áður var þar á vegum Sameinuðu þjóðanna, og eru löngu hættir að taka nokkurt mark á Dayton-samkomulaginu.

Carl Bildt og erindrekar Bandaríkjastjórnar eru af og til með marklausar hótanir, til dæmis um að endurnýja viðskiptabann á Serbíu. Allir vita, og bezt þessir auðnuleysingjar Vesturlanda, að Serbar taka ekkert mark á þessum hótunum, af því að þær eru kunnuglegar.

Þessa dagana eru Serbar og Bosníu-Serbar að grínast með Bildt út af formsatriðum í kringum völd stríðsglæpamannsins Radovans Karadzic í Bosníu. Bildt greyið reynir að teygja og toga túlkanir sínar í þá átt, að einhvern veginn sé Karadzic við minni völd en áður var.

Um svipað leyti eru eigendur herja Atlantshafsbandalagsins búnir að ákveða, að kosningar verði í Bosníu, eins og ekkert hafi í skorizt, þótt Öryggisstofnun Evrópu hafi formlega komizt að raun um, að ekkert skilyrðanna fyrir frjálsum kosningum hafi verið uppfyllt.

Á sama tíma eru að koma fram upplýsingar hjá Stríðsglæpadómstólnum í Haag, sem sýna, að stríðsglæpir Serba í Bosníu eru miklu meiri og hrikalegri, en áður hefur komið fram í fjölmiðlum. Þessir glæpir eru svo voðalegir, að ekki er lengur prenthæft að fjalla um þá.

Einnig hefur komið fram, að sumir glæpanna voru beinlínis framdir á verndarsvæðum Sameinuðu þjóðanna og með vitund fulltrúa samtakanna. Liggur nú beinast við að ætla, að Sameinuðu þjóðirnar verði kærðar fyrir samábyrgð á sumum stríðsglæpum vitfirrtra Serba.

Flest bendir nú til þess, að sveitir Atlantshafsbandalagsins leggi á flótta frá Bosníu öðrum hvorum megin við áramótin, þegar Serbar hafa náð þeim árangri, sem þeir stefndu að, og ekkert stendur eftir af þeim markmiðum, sem Vesturlönd settu sér með afskiptum sínum.

Síðan munu stjórnmálaleiðtogar og herforingjar Vesturlanda reyna að gleyma, hvernig þeir endurtóku nákvæmlega sömu mistökin á vegum Atlantshafsbandalagsins og starfsbræður þeirra höfðu áður framið á vegum Sameinuðu þjóðanna nokkrum mánuðum áður.

Bosnía er orðin að minnisvarða um siðferðilegt, atgervislegt og hernaðarlegt hrun þeirra stofnana, sem hafa talizt hornsteinar vestrænnar menningar.

Jónas Kristjánsson

DV