Hann skaðar sína kjósendur

Greinar

Guðmundur Bjarnason landbúnaðar- og umhverfisráðherra eykur samgönguerfiðleika landsbyggðarinnar með því að flytja Landmælingar Íslands úr Reykjavík til Akraness. Landsbyggðarfólk getur síður rekið erindi sín í einni borg í nágrenni Reykjavíkurflugvallar.

Sérþjónusta Landmælinganna er einkum veitt kaupstöðum og hreppsfélögum, bændum og upprekstrarfélögum, það er að segja landeigendum. Þessa þjónustu verður að sækja til Akraness eftir breytinguna, þótt sölubúð venjulegra ferðakorta verði áfram í Reykjavík.Almennt er til þæginda fyrir landsbyggðina að hafa alla opinbera þjónustu á einum stað. Flutningur ríkisstofnana úr Reykjavík hefur að vísu farið fram undir merkjum byggðastefnu, en raunverulegu áhrifin felast í auknum kostnaði og tímahraki aðila á landsbyggðinni.

Sum þjónusta er þó meira en önnur miðuð við þarfir landsbyggðarinnar. Flutningur innanlandsflugs frá Reykjavík til Keflavíkur væri til dæmis alvarlegt áfall fyrir landsbyggðarfólk, miklu frekar en fyrir Reykvíkinga. Landmælingarnar eru dæmi um slíka þjónustu.

Viðurkennt er, að engar efnahagslegar eða fjárhagslegar forsendur eru fyrir flutningi Landmælinganna til Akraness. Það er ekkert annað en pólitísk ákvörðun landbúnaðar- og umhverfisráðherra, sem telur sig munu fá klapp á bakið frá kjósendum sínum á landsbyggðinni.

Athyglisvert er, að ráðherra telur sig geta slegið pólitískar keilur á norðausturhorni landsins fyrir flutning stofnana milli sveitarfélaga á suðvesturhorninu. Það sýnir, að hann telur umbjóðendur sína ekki skilja tjónið, sem hann veldur þeim með þessari tegund dreifbýlisstefnu.

Umhugsunarvert er, að ráðherra kærir sig kollóttan um, þótt hann raski högum starfsmanna Landmælinganna, sem verða að segja upp störfum eða flytja búferlum. Röskun á högum fólks er ómerk í hans augum, ef hún varðar ekki sjálfvirka byggðaröskun í landinu.

Ráðherrann getur annað veifið haft grátstafinn í kverkunum út af mannlegri röskun, sem fylgir tilfærslu byggðar í landinu af völdum breyttra atvinnuhátta, og lagt milljarðaálögur á neytendur og skattgreiðendur til að hamla gegn eðlilegri búsetuþróun í landinu.

Hitt veifið er honum hjartanlega sama um, þótt annað fólk verði fyrir röskun, sem ekki fylgir neinni atvinnuþróun, heldur stafar af hreinu handafli stjórnmálaafla, sem fara offari í að búa til vonlausa varnargarða gegn því að Reykjavík eflist sem þjónustumiðstöð.

Vel er við hæfi ráðherrans, að hann hefur á undanförnum árum fengið Alþingi til að samþykkja viðamikla sérhönnun og endurbætur á húsnæði Landmælinganna í Reykjavík fyrir rúmlega fimm milljónir króna, sem ekki koma til baka, þegar ríkið þarf að selja húsnæðið.

Daginn, sem lokið var við þessar dýru og sérhæfðu innréttingar, ákvað ráðherrann að hafa þær að engu og flytja stofnunina á brott. Honum er greinilega hjartanlega sama um peninga hins opinbera, alveg eins og honum er sama um starfsmenn þess á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrir tveimur árum mælti Hagsýsla ríkisins gegn flutningi Landmælinganna frá Reykjavík. Árið áður hafði sjálf Byggðastofnun, merkisberi byggðastefnunnar, varað við slíkum flutningi, einmitt vegna mikilla samskipta landsbyggðarfólks við stofnanir af þessu tagi.

Þessi aðgerð landbúnaðar- og umhverfisráðherra er fyrsta flokks dæmi um sukk og svínarí, rugl og ráðleysi, sem kjósendur umbera ónýtum stjórnmálamönnum.

Jónas Kristjánsson

DV