Þreyttir á þjóðkirkjunni

Greinar

Sóknarprestur Langholtssóknar upplýsti nýlega á fundi Prestafélags Íslands, að hann væri ekki hommi, hórdómsmaður, þjófur eða fyllibytta og ætti því skilið stuðning starfsbræðranna og -systranna. Hann fékk stuðninginn, ef til vill á ofangreindum forsendum.

Óneitanlega er það sérkennilegt siðferðismat að slengja saman í einn pakka ólíkum og óskyldum atriðum, sem sum hver eru að mestu líkamleg, samkynhneigð og ofdrykkju; og atriðum, sem varða brot á siðferðilegum eða lögskráðum reglum, hórdómi og þjófnaði.

Áður hefur komið fram, að sóknarpresturinn hefur á fleiri sviðum sérkennilegar skoðanir og framgöngu, sem veldur því, að leiðir hans og safnaðarins fara ekki að öllu leyti saman. Ágreiningurinn hefur orðið efniviður langdreginnar framhaldssögu í fjölmiðlunum.

Fleiri prestar eiga í útistöðum við söfnuði sína eða hluta þeirra. Skemmst er að minnast hjónavígslu, sem fór fram fyrir utan Möðruvallakirkju í Eyjafirði, af því að sóknarpresturinn vill ekki, að neinn annar prestur en hann sjálfur fái að vinna prestsverk í kirkjunni.

Sóknarpresturinn á Möðruvöllum hefur á prestastefnun flutt tillögur um, að prestar séu ekki að troða hver öðrum um tær með því að vilja vinna prestverk í kirkjum hver annars. Þær hafa ekki náð fram að ganga, en sýna samt, hvað er til umræðu hjá prestastéttinni.

Ekki eru til hreinar línur um samband prests og safnaðar, enda er um flókið mál að ræða, þegar sumir telja, að presturinn eigi að stýra söfnuðinum, og aðrir telja, að presturinn eigi að þjóna söfnuðinum. Ekkert samkomulag er um, hver eigi að stjórna hverjum.

Í veruleikanum er oftast farið bil beggja og ræðst það oftast af hefðum, sem skapast í hverri sókn fyrir sig. Sums staðar eru prestar mjög virkir og annars staðar sóknarnefndir. Yfirleitt er samkomulagið þolanlegt, ef málsaðilar kunna eitthvað í mannlegum samskiptum.

Ef prestur og sóknarnefnd hafa harðar skoðanir á því, hver eigi að ráða í samskiptunum, er augljóst, að allt fer í bál og brand, svo sem dæmin sanna. Þess vegna væri gott, ef línur yrðu dregnar og úr því skorið, hvort þjóðkirkjan sé safnaðarkirkja eða kennimannakirkja.

Þessi augljósi vandi tengist stöðu þjóðkirkjunnar sem ríkiskirkju og embættismannakirkju. Ef sú skoðun verður ofan á, að í þjóðkirkjunni skuli prestar stjórna, er eðlilegt, að ríkið þvoi hendur sínar, skilið verði milli ríkis og kirkju og hvor aðili fari sína leið.

Á síðari árum hefur vaxið umræða um aðskilnað ríkis og kirkju. Sífelldar uppákomur innan kirkjunnar, einkum þær er varða samskipti kennimanna við annað fólk, hafa magnað umræðuna. Raunsætt er þó að gera ráð fyrir, að svona róttæk breyting gerist á löngum tíma.

Á meðan er nauðsynlegt að löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið líti gagnrýnum augum á tillögur, sem koma frá stofnunum kirkju og prestastéttar, svo að ekki leki inn reglur, sem annað hvort magna ófrið stéttarinnar við leikmenn eða þrengja möguleika á aðskilnaði.

Sem stofnun verður þjóðkirkjan meira eða minna lömuð í hálft annað ár vegna sérkennilegrar stöðu biskups. Fulltrúar þjóðarinnar geta notað þennan tíma til að sporna gegn tilraunum presta til valdatöku og til að haga málum á þann veg, að skilja megi sundur ríki og kirkju.

Raunar hafa uppákomur innnan þjóðkirkjunnar verið slíkar á undanförnum misserum, að margir eru orðnir nokkuð þreyttir á henni sem ríkisstofnun.

Jónas Kristjánsson

DV