Pólitísk örorka

Greinar

Pólitískt skipað tryggingaráð hefur verið staðið að misnotkun almannafjár með því að úrskurða svikahrappi örorku, þvert ofan í umsögn trúnaðarlæknis Tryggingastofnunar, sem hafði komizt að raun um, að meint örorka mannsins væri tilbúningur frá rótum.

Ríkissaksóknari er um þessar mundir að gefa út ákæru á hendur skjólstæðingnum og nokkrum félögum hans, sem eru sakaðir um að hafa sviðsett slys á Grindavíkurvegi og Hvalfjarðarvegi og haft milljónir króna út úr tryggingafélögunum og Tryggingastofnun ríkisins.

Skjólstæðingurinn var fluttur með þyrlu úr Hvalfirði í bæinn, lagður inn á sjúkrahús og fór síðan í endurhæfingu. Á þessari leið aflaði hann sér margvíslegra læknisvottorða, sem voru marklaus með öllu, enda er kunnugt, að læknar gefa út slík vottorð á færibandi.

Trúnaðarlæknir Tryggingastofnunar var um þessar mundir í fríi. Þegar hann kom til vinnu, rannsakaði hann skjólstæðinginn og komst að raun um, að allt málið var hreinn leikaraskapur. Niðurstaðan var sú, að hann mælti ekki með, að maðurinn fengi dagpeninga.

Maðurinn kærði þetta til tryggingaráðs, sem er skipað pólitískum kvígildum, er alls enga þekkingu hafa á tryggingalæknisfræði. Ráðið hafði að engu umsögn hins sérmenntaða trúnaðarlæknis og úrskurðaði manninum örorku á kostnað skattgreiðenda í landinu.

Síðan hafa kvígildi úr tryggingaráði og forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, sem líka er pólitískt kvígildi, reynt að taka trúnaðarlækninn á teppið og hvetja hann til að hafa samráð um niðurstöður af þessu tagi, það er að segja taka tillit til pólitískrar örorku.

Tryggingalæknirinn lætur sér það í léttu rúmi liggja, þótt kvígildin tuði. Hann segist hvort sem er vera að fara á eftirlaun, svo að þau geti ekki gert sér neitt, þótt hann segi sannleikann um sóðaleg og raunar glæpsamleg vinnubrögð tryggingaráðs og Tryggingastofnunar.

Spurningin er svo, hvað gerist, þegar hinn árvökuli trúnaðarlæknir hættir störfum. Munu þá ekki forstjóri Tryggingastofnunarinnar og tryggingaráð finna sér lækni, sem hefur langa reynslu af sjálfvirkri útgáfu vottorða, og tekur tillit til pólitískrar örorku?

Trúnaðarlæknir Tryggingastofnunarinnar telur raunar, að útgjöld stofnunarinnar hafi verið að aukast óeðlilega mikið á síðustu árum, enda sé stofnunin að breytast úr hreinni tryggingastofnun í eins komar félagsmálastofnun, sem skilgreini örorku á félagslegan hátt.

Mál þetta varpar ljósi á frumstætt og séríslenzkt ástand í stjórnkerfi landsins. Þar eru atvinnulitlir aumingjar á framfæri stjórnmálaflokka enn í stórum stíl skipaðir í ráð og stjórnir til að ráðskast með almannafé og misnota það eins og dæmi Tryggingastofnunarinnar sýnir.

Ef mál þetta kæmi upp í alvöruríki á borð við Bandaríkin, sæti tryggingaráð í heild og forstjóri stofnunarinnar á bak við lás og slá. En við lifum því miður í eins konar Kardimommubæ, þar sem stjórnmálaflokkar komast upp með nánast hvað sem er vegna eymdar kjósenda.

Meðan kjósendur sætta sig við, að stjórnmálaflokkarnir líti á ríkissjóð sem herfang, er sé til skiptanna, og noti hvert tækifæri til að búa til lög og reglugerðir, sem kalla á miðstýringu af hálfu pólitískra kvígilda, verður ekkert vestrænt nútímaþjóðfélag hér á landi.

Þegar grannt er skoðað, er þetta ekki ráðum og stofnunum að kenna eða stjórnmálaflokkunum að baki þeirra. Eymd Íslands er einfaldlega kjósendum að kenna.

Jónas Kristjánsson

DV