Ný tegund ferðaþjónustu

Greinar

Sumir ferðamenn vilja helzt flatmaga í sólskini í sumarleyfum og fara til sólarstranda. Aðrir ferðamenn vilja helzt kynnast sögufrægum minjum og fara til fornborga Evrópu. Enn aðrir vilja helzt sjá stórbrotna náttúru og fara vítt um álfur, meðal annars til Íslands.

Þannig eru áhugaefni ferðamanna margvísleg. Þeir, sem leggja land undir fót, eru misjafnir eins og mannfólkið í heild. Það, sem höfðar til eins, snertir ekki annan. En það eru ekki bara áhugaefnin, sem eru misjöfn, heldur einnig lífsstíllinn og þar með talinn ferðastíll.

Flestir ferðamenn, sem hingað koma, fara í skoðunarferðir, einkum í hópferðabílum, undir leiðsögn fróðra manna, sem útlista náttúrna og segja ef til vill lítillega frá sögunni, ef einhver hefur líka áhuga á henni. Þetta hafa hingað til reynzt okkur ágætir ferðamenn.

Takmörk eru þó fyrir útþenslu þessarar tegundar ferðamennsku. Margir ferðamenn hafa önnur áhugamál og annan lífsstíl. Og sumir áfangastaðir hefðbundinna ferðamanna sæta afar miklu álagi á þeim skamma tíma ársins, sem hin hefðbundna ferðavertíð stendur.

Til eru ferðamenn, sem ekki kæra sig um að sitja lengi í hópferðabílum eða láta leiðsögumenn teyma sig milli skoðunarstaða. Til dæmis er til margt af mjög vel stæðu fólki á fremur ungum aldri, sem kýs athafnir í sumarleyfum. Það vill gera eitthvað sjálft í fríinu.

Dæmigert er fólk á framabraut, sem skokkar eða fer í líkamsræktarstöð í hádeginu. Það flýgur til Sviss um lengda helgi til að bregða sér á skíði. Eða til Egyptalands til að bregða sér í tveggja daga ferð á arabískum hestum milli píramídanna við Gíza og Sakkara.

Auðvitað er þetta kraftmikla fólk í miklum minnihluta meðal ferðamanna, en eigi að síður áhugavert. Það hefur miklu meira fé milli handanna en annað ferðafólk og lætur sér ekki bregða, þótt hlutirnir kosti peninga. Það aflar þeirra hratt og eyðir þeim hratt.

Við höfum lengi séð sumt af þessu fólki í vikulöngum hestaferðum yfir hálendi Íslands. Við erum að byrja að sjá það í vélsleðaferðum á jöklum landsins. Við erum að byrja að sjá það í göngu á Laugaveginum á Fjallabaksleið og bráðum einnig á gönguleið Reykjanesvegar.

Unnt er að höfða til slíks fólks á fleiri sviðum. Kennsla í meðferð tryllitækja í sandgryfjum er einn möguleikinn af mörgum og nyti þeirrar frægðar, sem sandgryfjukeppni á Íslandi hefur öðlazt í útlöndum. Slík tegund ferðamennsku á að geta gefið mikið í aðra hönd.

Bezt væri, ef ferðaþjónusta fyrir athafnasama ferðamenn styddi hver aðra með sameinaðri aðstöðu og markaðssetningu. Á Nesjvöllum mætti til dæmis koma upp heilsuböðum með útsýnissundlaug í Hengli og hafa miðstöð hestaferða, vélsleðaferða og gönguferða.

Enn frekar en Bláa lónið bjóða Nesjavellir frábæra náttúru að sviðsmynd, án þess að álag aukist á hefðbundna skoðunarstaði. Þeir eru í nágrenni Reykjavíkur og geta nýtt innviði borgarinnar, svo sem lúxushótel, hágæða veitingahús og merkjavöruverzlanir.

Til þess að standa skynsamlega að nýtingu svæðis á borð við Nesjavelli til ferðaþjónustu þurfa aðilar frá borginni og áhugasamir einkaaðilar að stofna þróunarfélag til að tryggja skynsamlega hönnun mannvirkja, fjölbreytta þjónustu og samstarf um markaðssetningu.

Þetta er dæmi um, að ferðaþjónustan á ekki að einblína á talningu og fjölgun hausa og gistinátta, heldur velta fyrir sér auknum tekjum á hvern ferðamann á dag.

Jónas Kristjánsson

DV