Endaspretturinn brást

Greinar

Hvorki getur það talizt eðlilegt né forsvaranlegt, að samband Íslands við umheiminn á netinu rofni tíu sinnum á tveimur mánuðum, svo sem nú hefur gerzt. Enn síður er frambærilegt, að það skuli taka fjórtán tíma að fá sambandið leitt framhjá bilun í Danmörku.

Meðan ástandið er svona er tómt mál að tala um þátttöku Íslands í upplýsingasamfélagi nútímans. Útilokað er að stofna fyrirtæki á Íslandi á þessu sviði með fjarvinnslu í huga, af því að sjálf umferðaræðin er í ólagi og getur hæglega komið rekstrinum á kaldan klaka.

Netsamband á Íslandi einkennist af miklum þrengslum og tíðum bilunum. Ef ástand netsins sjálfs væri ekki svona, hefðum við alla burði til að vera virkir aðilar að hátekjugreinum upplýsingatækninnar. Íslendingar eru nefnilega komnir þjóða lengst í að nota tölvur.

Fyrir mörgum árum urðum við fyrir því láni að komast hjá óhóflegum opinberum gjöldum á tölvur. Þær streymdu inn í landið, bæði í fyrirtæki og skóla. Við urðum skyndilega læs á tölvur og sáum fyrir okkur mikla nýsköpun í spánnýjum greinum atvinnulífsins.

Netið gat orðið punkturinn yfir i-ið í þessari hagstæðu þróun. Með því fékkst ódýrt samband, sem eyddi herkostnaðinum af að standa í alþjóðlegri samkeppni frá fjarlægri strönd norður í hafi. Við gátum keppt á jafnréttisgrundvelli við aðila í nöflum alheimsins.

Því miður hefur þetta ekki gerzt. Endasprettinn vantaði. Þröng og ótraust samgönguæð tölvuheimsins hefur stórskaðað íslenzk fyrirtæki í samkeppni við erlend og dregið hastarlega úr trú manna á, að það þýði að keppa við útlenda aðila á sviðum upplýsingatækni.

Póstur og sími hefur aldrei haft áhuga á netinu og raunar látið það fara í taugarnar á sér, enda hefur það rutt til hliðar stafrænum samgöngutækjum af miklu dýrara tagi, sem stofnunin taldi henta betur. Frá Pósti og síma er því ekki að vænta jákvæðra strauma.

Reynslan sýnir líka, að Póstur og sími sinnir með hangandi hendi öðru mesta nauðsynjamáli netsins, það er rekstrarörygginu. Og í verðlagningu segir stofnunin réttilega, að það sé ekki í hennar valdi að greiða niður ákveðna þætti símaþjónustunnar í landinu.

Ísnet er fyrirtækið, sem leigir bandbreidd á sæstreng af Pósti og síma til notkunar fyrir netið og leigir síðan notendum aðgang að bandbreiddinni. Til þess að halda verðlagningu á aðgangi að netinu í svipuðum farvegi og í útlöndum, hefur Ísnet ekki ráð á neinni vannýtingu.

Segja má, að jafnan sé fullnýtt sú bandbreidd, sem til ráðstöfunar er hverju sinni á netinu. Sí og æ er verið að auka bandbreiddina, en hún fyllist jafnóðum af notendum. Nokkrum sinnum á dag eru þrengsli og hægagangur áberandi á netinu vegna of mikils álags.

Pósti og síma má segja það til hróss, að hann hefur tryggt sér aðild að sæstrengjum með mikla flutningsgetu. Þess vegna getur hann fyrirvaralaust útvegað aukna bandbreidd, þegar á þarf að halda. En hann vill auðvitað fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Ríkisvaldið getur komið að þessu máli með því að ábyrgjast leigu fyrir ákveðinn slaka á netinu, það er bandbreidd, sem enn nýtist ekki, en mun nýtast á næstu vikum eða mánuðum. Það er eins og að leggja umferðaræðar með tilliti til væntanlegrar framtíðarumferðar.

Ríkisvaldinu ber að líta á þetta verkefni eins og vegakerfið og leggja fram fé til að tryggja fullkomna afkastagetu og rekstraröryggi netsins innan lands og utan.

Jónas Kristjánsson

DV