Jákvæð helgi

Greinar

Reykjavíkurhelgin var frábær og raunar ólík sjálfri sér. Borgin hafði allt annan og betri svip um þessa helgi en hún hefur venjulega. Nærri tveir tugir þúsunda sóttu menningarnóttina og um þrjú þúsund manns tóku þátt í ýmsum greinum maraþonhlaupsins daginn eftir.

Síðasta helgi sýnir, hvernig Reykjavík getur verið, þegar hún vill. Hún er öðrum þræði borg menningar og borg heilsuræktar, þótt hinum þræðinum sé hún borg drykkjuláta og ofbeldis. Miklu máli skiptir, hvað gefur tóninn, og það gerðu jákvæðu atriðin um helgina.

Ef vel er að gáð, sjáum við fjölda manns skokka í borginni um helgar og eftir vinnu á virkum dögum. Vaxandi fjöldi fólks hugsar um heilsuna á þennan eða annan hátt. Menningarviðburðir njóta líka mikillar aðsóknar, miklu meiri en búast mætti við eftir íbúafjölda.

Þessar jákvæðu hliðar eru oft í skugga hinna neikvæðu, sem hafa gert borgina fræga utan landsteina. Hinar neikvæðu eru til dæmis þær, sem margir ferðamenn sjá, svo sem rónalíf á Austurvelli á daginn og ólýsanlegt volæði með ívafi ofbeldis um helgarnætur.

Spurningin er, hvað gefur tóninn hverju sinni. Venjulega er það drukkið og vímað fólk, sem tekur völdin í miðbænum. Um helgina var það hins vegar venjulegt fólk, sem átti miðbæinn. Það kom, sá og sigraði. Það gaf rugli og eymd ekki tækifæri til að komast að.

Það er ekki rétt, að drykkjan og ofbeldið þurfi að hafa sinn gang og muni birtast annars staðar, ef það verður gert útlægt frá miðbæ Reykjavíkur. Summa lastanna er ekki jöfn, heldur fer hún eftir því, hvað er látið viðgangast. Íslendingar hafa ekki náð áttum á því sviði.

Lögreglan hefur tekið upp þann góða sið að láta fíkniefnasölu ekki í friði. Hún ræðst sífellt til inngöngu í sölubælin. Þetta truflar markaðinn hastarlega, þótt lítið finnist af fíkniefnum. Lögreglan getur líka náð aftur völdum af drykkjurútum í miðbænum að næturlagi um helgar.

Með því að trufla sífellt það neikvæða er það neytt til að halda sig meira til hlés. Það fær minni tækifæri en ella til að gefa tóninn og heildarmagn þess minnkar. Þetta lærði lögreglan í New York fyrir nokkrum árum og hefur náð frábærum árangri á stuttum tíma.

Við þurfum raunar að breyta sjálfsmynd þjóðarinnar. Við þurfum að koma inn hjá fullorðnum og unglingum, að það sé ekki flott, heldur niðurlægjandi að vera greinilega undir áhrifum áfengis eða annarra fíkniefna. Við þurfum að koma á nýjum og harðari siðareglum.

Við neyðumst auðvitað líka til að stórauka varanlegt geymslupláss fyrir síbrotamenn á sviði ofbeldis, svo að venjulegt fólk geti aftur farið að ganga um miðbæinn á hvaða tíma sólarhringsins sem er, svo sem þykir sjálfsagt í miðbæjum höfuðborga um öll Vesturlönd.

Við þurfum að gera það sjálfsagt og hversdagslegt, að fjölskyldur geti farið að næturlagi um miðbæinn og átt þar aðgang að öðru en volæði og barsmíðum. Við þurfum að efla næturmenningu og nætursiði, sem gefa nýjan tón í stað hins ömurlega, sem hingað til hefur ríkt.

Öll samfélög manna hafa jákvæðar og neikvæðar hliðar. Við þurfum að gefa hinum jákvæðu þáttum betra tækifæri til að gefa tóninn, meðal annars í borgarlífinu. Það tókst með ágætum um helgina. Menningarnóttin og maraþondagurinn efldu jákvæða sjálfsmynd okkar.

Þrýstingur samfélagsins er mikilvægur. Þjóðin er sinnar gæfu smiður á þessu sviði sem mörgum öðrum. Þjóðarsátt um vilja er raunar allt, sem þarf.

Jónas Kristjánsson

DV