Ofbeldi: Frjálst val

Greinar

Á tveimur árum hefur morðum í New York fækkað um 40%. Það er mest þakkað lögreglustjóranum William Bratton, sem var rekinn úr starfi í vor fyrir að skyggja á borgarstjórann sjálfan. Bratton ferðast nú um heiminn og veitir ráðgjöf um aðgerðir gegn glæpum.

Þótt Reykjavík sé engin New York, eru ofbeldisglæpir þó of tíðir í borginni og hafa verið að harðna upp á síðkastið. Lögreglustjórinn í Reykjavík getur því lært mikið af vinnubrögðum Brattons, enda yrði hann tæpast rekinn, þótt hann skyggði á dómsmálaráðherrann.

Bratton lagði áherzlu á tvö meginatriði. Í fyrsta lagi rak hann lögregluna eins og nútíma fyrirtæki. Hann dreifði ábyrgð til hverfastöðva, setti þeim skilgreind markmið um fækkun glæpa og veitti lögreglumönnum frelsi til frumkvæðis án samráðs við yfirboðara.

Í öðru lagi tók hann upp svokallaða núllstefnu í umburðarlyndi. Lögreglumenn fóru að handtaka fólk fyrir minni háttar afbrot, svo sem að kasta af sér vatni eða drekka áfengi á almannafæri. Þetta kom þeim skilaboðum á framfæri, að alls engin afbrot væru leyfð.

Við það að litlu afbrotin hurfu af götunum, hurfu líka stóru afbrotin. Heilu göturnar og raunar heilu hverfin voru í stórum dráttum hreinsuð af glæpum með því einu að byrja á smámálum. Lögreglan varð meira sýnileg en áður og naut stuðnings venjulegra hverfisbúa.

Fíkniefnalögreglan í Reykjavík er að feta þessa sömu slóð með því að vera sífellt að ónáða fólk í fíkniefnabælum, taka það til yfirheyrslu og trufla þannig markað fíkniefnasala. Beinn árangur í töku efna er lítill, en skilaboðin eru hins vegar sterk: Minna umburðarlyndi.

Svipað mætti gera á nóttunni um helgar, þegar fólk kemur út af skemmtistöðum. Þá getur lögreglan handtekið fólk í stórum stíl fyrir að brjóta lögreglusamþykkt, svo sem með því að kasta af sér vatni, drekka áfengi úti á götu eða með því að abbast upp á annað fólk.

Auðvitað kostar þetta að koma verður upp geymslustöðvum fyrir hina handteknu. Í Vestmannaeyjum var á þjóðhátíð komið upp gámum, þar sem fólk var látið sofa úr sér vímuna. Slíkum gámum verður sennilega að koma fyrir í portum, sem óviðkomandi komast ekki inn í.

Ef lögreglan er mjög sýnileg og fjarlægir jafnóðum áberandi drykkjurúta og hasshausa, spillir hún jafnframt andrúmsloftinu, sem ofbeldisglæpir þrífast í. Engin ástæða er til að efast um, að slíkum glæpum hríðfækki eins og á tveggja ára ferli Brattons í New York.

Ýmsum finnst hart aðgöngu að skilja ekki eftir grátt svæði milli umburðarleysis og umburðarlyndis. En umfang gráa svæðisins hlýtur að fara eftir mati manna á umfangi vandamálanna. Á sviðum, þar sem vandamál eru fá, getur samfélagið verið umburðarlynt.

Almennt séð þarf þjóðfélagið að vera umburðarlynt og geta þolað, að fólk sé ekki steypt í sama mót. En það þarf líka að geta verið ósveigjanlegt, ef það þarf á því að halda, svo sem til að koma á lögum og reglum á afmörkuðum sviðum, sem varða lífsgæði þjóðarinnar.

Nætursukkið í Reykjavík og ofbeldið, sem því fylgir, er ekki lítið vandamál, heldur stórt vandamál, sem er í örum vexti. Það gefur ekki tilefni til hins hefðbundna umburðarlyndis í þjóðfélaginu, heldur kallar það á algert og áhrifaríkt umburðarleysi að hætti Brattons.

Harðnandi ofbeldi í Reykjavík er ekki náttúrulögmál, sem hefur sinn gang. Gæzlumenn laga og réttar geta ákveðið, hvort það fær að þrífast eða ekki.

Jónas Kristjánsson

DV