Sinnuleysi um þjóðminjar

Greinar

Dularfullir hringir uppgötvuðust fyrir tilviljun vestur og norður af Nesstofu á Seltjarnarnesi fyrir nokkrum árum, þegar þekktur ljósmyndari var í flugvél yfir svæðinu. Hann tók loftmynd af hringjunum, sem vöktu mikla athygli, þegar myndin birtist í fjölmiðlum.

Síðan hefur verið grafið í hringina í tilraunaskyni. Í ljós kom, að þeir eru hlaðnir úr torfi af mannavöldum, misjafnir að ummáli, en allir afar nákvæmir að hringmáli. Einnig kom í ljós, að þeir eru mjög gamlir og hnignir, en ekki er þó enn vitað, hversu gamlir þeir eru.

Enginn hefur getað skýrt, hvers vegna hringirnir voru hlaðnir, hvenær og hvers vegna þeirra er ekki getið í heimildum. Hugsanlega er um að ræða einhverja tilviljun, sem varpar engu ljósi á sögu lands og þjóðar, en einnig getur verið, að þeir lúri á markverðum minningum.

Hringirnir eru að því leyti merkari fornleifar en kumlin, sem sífellt eru að finnast, að þeir eru einstæðir í sinni röð, en ekki enn ein útgáfan af því, sem alltaf er verið að grafa upp. Fornleifafræðingar og sagnfræðingar ættu að vera á kafi í rannsóknum á hringjunum.

Því miður eru ráðamenn fornleifarannsókna svo lokaðir inni í gömlum mynztrum, að áður óþekkt fyrirbæri vekja ekki sama áhuga þeirra og hundraðasti fundur áður þekktra fyrirbæra. Þeir hafa sagt hringina áhugaverða, en síðan þurrkað þá að mestu úr vitund sinni.

Þjóðminjavörður og fornleifafræðingurinn, sem rannsakaði hringina, hafa að vísu reynt að koma á framfæri óskum um, að bæjarstjórn Seltjarnarness raski ekki hluta af hringjasvæðinu með því að byggja hverfi einbýlishúsa ofan á þeim. Enginn þungi hefur fylgt óskunum.

Fínimannsfélagið, sem fyrir nokkrum árum var stofnað til að efla þjóðminjar og Þjóðminjasafnið, hefur ekkert látið í sér heyra um málið, en hélt um daginn ráðstefnu, sem var sérstök að því leyti, að þar var alls ekkert fundarefni, nema röð ávarpa ýmissa fínimanna.

Þegar þeir, sem helzt ættu að ganga fram fyrir skjöldu til verndar menningarsögunni, eru svona deigir í baráttunni, er ekki við að búast, að menningarleg peð í bæjarstjórn sýni sögu lands og þjóðar meiri virðingu en sést af dæmi hringjanna dularfullu á Seltjarnarnesi.

Öll er saga þessa máls sýnishorn af því, hvernig þjóðin er að glata samhengi sínu við eigin sögu. Menn yppta öxlum yfir fornleifafundi, sem getur varpað nýju og óvæntu ljósi á Íslandssöguna og láta yfir sig ganga, að hluti fornminjanna sé eyðilagður með einbýlishúsum.

Fornsögurnar höfða ekki lengur til unga fólksins. Afburðafólk úr fortíðinni er ekki lengur fordæmi unglinga. Menn tala í hálfkæringi um, að svokölluð gullöld þjóðarinnar hafi verið tímabil, þegar skapþungir bændur fóru af baki til að kasta grjóti hver í annan.

Sagan er þó einn af þremur helztu hornsteinum þess, að þjóð er þjóð út af fyrir sig, en ekki hluti af stærri þjóð. Þegar bregzt sambúðin við sameiginlega sögu, er hruninn einn af þremur hornsteinum þess, að sjálfstætt ríki eigi sér framtíð sem þjóðríki. Það er upphaf endalokanna.

Margir munu vafalaust komast vel af um miðja næstu öld, talandi ensku sem daglegt tungumál og slitnir úr samhengi við Íslandssöguna. En þeir verða ekki Íslendingar, heldur örlítil rykmý í risastórum menningarheimi engilsaxa. Í þá átt stefnir þróunin um þessar mundir.

Sinnuleysið um merkasta fornleifafund síðari ára markar vatnaskil á vegferð okkar út í þjóðahafið, sem valtar yfir sérvizkuminningar frá fánýtu eylandi.

Jónas Kristjánsson

DV