Skottið sveiflar hundinum

Greinar

Stjórnmála- og hugarfarsbreyting Ísraela hefur leitt til hinnar rökréttu niðurstöðu, að gestapó-ríki hernámsins hefur fengið sinn Hitler. Benjamin Netanyahu er orðinn forsætisráðherra hryðjuverkaríkisins og grípur hvert tækifæri til að spilla friðarferli fyrirrennaranna.

Kosning Netanyahus segir allt, sem segja þarf um viðhorf Ísraela. Hrokafull og yfirgangssöm viðhorf hafa þar verið í mikilli sókn, undir pólitískum og hernaðarlegum verndarvæng Bandaríkjanna, sem hafa áratugum saman séð ríkinu fyrir fjármagni og stríðstólum.

Fyrir um það bil 30 árum var þetta landnemaríki, sem olli jákvæðum straumum í umheiminum. Á þremur áratugum hefur það verið að breytast í krumpað ofbeldisríki, sem fer sínu fram í trássi við siði og lög samfélags þjóðanna. Það er orðið að fleini í holdi Vesturlanda.

Ísrael þverbrýtur alþjóðlega samninga um meðferð fólks á hernumdum svæðum. Þannig var það einnig í tíð Rabins og Peresar, fyrirrennara Netanyahus, en hefur versnað um allan helming, síðan kjósendur í Ísrael ákváðu í sumar að finna sinn rökrétta Hitler.

Óeirðirnar í síðustu viku og um helgina stafa af eðlilegum viðbrögðum hernuminnar og kúgaðrar þjóðar. Þær gefa Vesturlöndum enn eitt tækifærið til að snúa við blaðinu og þvo hendur sínar af ofbeldisríki, sem á eftir að valda Vesturlöndum enn meiri vandræðum.

Því miður virðist skottið sveifla hundinum. Bandaríkin halda ótrauð áfram að styðja Ísrael, þótt þetta fylgiríki hafi breytzt í óskapnað, sem lætur ekki að stjórn að vestan. Þetta hefur stórversnað í tíð Bills Clintons forseta, sem virðist munu ná endurkjöri í vetur.

Smám saman hefur utanríkisstefna Bandaríkjanna verið að breytast til hins verra, einkum fyrir áhrif einangrunarstefnu heima fyrir. Bandaríkin koma í vaxandi mæli fram sem ábyrgðarlaus þrýstihópur, er sér fyrst og fremst hættulega keppinauta í fyrrum bandamönnum.

Annars vegar skrifa Bandaríkin undir samninga um aukið viðskiptafrelsi á borð við nýju Heimsverzlunastofnunina, en brjóta sjálfir jafnharðan hinar nýju reglur með því að hóta að beita einhliða viðskiptarefsingum í utanríkispólitískum tilgangi gegn bandamönnum sínum.

Ábyrgðarleysi og einangrunarstefna Bandaríkjanna sker í augu í tilraunum þeirra til að losna við Boutros Ghali, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, gegn sameinuðum vilja langflestra annarra ríkja heims, þar á meðal þeirra, sem skuldlaus eru við stofnunina.

Dæmigert fyrir vaxandi ábyrgðarleysi Bandaríkjanna er, að þau gera hvort tveggja á sama tíma að safna skuldum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og að segja samtökunum fyrir verkum í viðkvæmum fjölþjóðadeilum. Menn geta ekki lengur litið upp til Bandaríkjanna.

Ef Clinton verður forseti Bandaríkjanna í fjögur ár í viðbót, hlýtur ástand vestræns samstarfs að versna enn næstu fjögur árin. Hann hefur engan áhuga á utanríkismálum, annan en þann að haga sér þar í samræmi við síðustu vindana, sem blása í innanríkismálum.

Á sama tíma og Clinton skiptir reglulega um skoðun í flestum utanríkismálum hefur hann þó verið ósveigjanlegur í eindregnum stuðningi sínum við lítið ríkisskrímsli, sem stendur í vegi fyrir eðlilegri þróun friðsamlegra samskipta íslamskra og kristinna þjóða.

Milli Washington og Tel Aviv hefur smám saman verið að myndast möndull, sem er fjandsamlegur umhverfi sínu og veldur vaxandi spennu í samfélagi þjóðanna.

Jónas Kristjánsson

DV