Milljón króna dagsverk

Greinar

Ríkisstjórnin hefur með sameinuðu átaki þriggja ráðherra ákveðið að tryggja fimm milljóna króna árlega fjárveitingu skattborgaranna til að leysa eitt af innri vandamálum þjóðkirkjunnar, einkastyrjöld nokkurra félagslega vanþroskaðra einstaklinga í Langholtssókn.

Íslendingar í Lúxemborg og nágrenni hafa ekki beðið um þjónustuna, sem nú á að rétta þeim á silfurfati, né hafa þeir verið með í ráðum. Þeir láta sér fátt um finnast og segja prestsverk þar vera þriggja daga vinnu ári. Þeir vilja áfram snúa sér til íslenzka prestsins í London.

Ríkisstjórnin getur yfirleitt fundið peninga, þegar leysa þarf sérhagsmuni af ýmsu tagi. Stundum eru þetta bara litlir sérhagsmunir í minni háttar stofnunum og samtökum. Oftar eru það því miður stórir og dýrir sérhagsmunir í voldugum stofnunum, samtökum og fyrirtækjum.

Lög eru sett til að gæta hagsmuna tryggingafélaganna gegn hagsmunum almennings. Sérleyfi eru gefin út til að gæta hagsmuna flugfélaga gegn hagsmunum almennings. Einkaréttur er notaður til að gæta hagsmuna síma- og póststofnunar gegn hagsmunum almennings.

Pólitík á Íslandi snýst í ríkum mæli um hagsmuni og fyrirgreiðslur. Þingmenn eru að meirihluta fulltrúar hagsmuna á borð við staðbundna kjördæmahagsmuni, sem kalla á fyrirgreiðslur af hálfu skattgreiðenda. Það er kölluð byggðastefna og þykir vænleg til endurkjörs.

Ef Alþingi og ríkisstjórn víkja af þessari braut, er það ekki lengur vegna umbótavilja að innan, heldur vegna þrýstings að utan. Flestar pólitískar ákvarðanir, sem koma almenningi að gagni, eru teknar samkvæmt skuldbindingum ríkisins í útlendum fjölþjóðastofnunum.

Þannig neyðast stjórnvöld til að láta þýða mýgrút af evrópskum lögum og reglum til notkunar hér á landi. Annars eru stjórnvöld dregin fyrir evrópska dómstóla og látin svara til saka fyrir brot á mannréttindum, brot á heiðarlegum viðskiptaháttum og annað af því tagi.

Nú er svo komið, að íslenzkra almannahagsmuna er fremur gætt úti í Genf og Brussel heldur en í Reykjavík. Að utan koma réttarbætur almennings og þaðan kemur opnun viðskiptahátta, sem nú hefur til dæmis leitt til mikillar lækkunar á kostnaði fólks af bílatryggingum.

Nú er svo komið, að íslenzkur almenningur getur áttað sig á, að fjandmenn hans sitja á Alþingi og í ríkisstjórn, en stuðningsmenn hans sitja á skrifstofum í erlendum stórborgum. Slík er orðin niðurlæging íslenzkra stjórnmála í hagsmunapoti og fyrirgreiðslum.

Umtalsverður hluti af tíma og fyrirhöfn íslenzkra stjórnvalda fer í að snúast kringum framfarirnar frá útlöndum, tefja framgang þeirra og reyna að túlka þær almenningi í óhag. Það sýnir bezt dæmið af ofurtollunum, sem hlaðið er á ýmis innflutt matvæli almennings.

Nýjar sagnfræðitúlkanir benda til, að þetta sé ekki ný bóla. Fyrr á öldum reyndu kóngsins menn í Kaupmannahöfn með misjöfnum árangri að gæta hagsmuna íslenzkrar alþýðu gegn innlenda embættis- og stórbændavaldinu, sem var oft illskeytt í garð almannahagsmuna.

Þannig er hefð fyrir því, að íslenzk stjórnvöld hafi ekki aflögu fimm milljónir króna hér og þar til að setja í ákveðna þætti skólamála eða heilsugæzlu, en eigi jafnan slíka peninga aflögu, þegar leysa þarf sérhagsmuni, sem að alls engu leyti þjóna hagsmunum almennings.

Fimm milljónir króna á ári til prests í Lúxemborg er angi af eymd íslenzkra þjóðmála, linnulausri þjónustu stjórnkerfisins við kostnaðarsama sérhagsmuni.

Jónas Kristjánsson

DV