Fjárreiður framboða

Greinar

Tveir af fimm frambjóðendum til embættis forseta hafa nú birt endurskoðaða reikninga framboða sinna. Reiknað er með, að hinir þrír geri það fljótlega. Fyrstu tölur benda til, að kostnaður á hvern frambjóðanda hafi verið frá 15 milljónum króna upp í 40 milljónir króna.

Þetta var miklu dýrari kosningabarátta en áður hafði þekkzt í forsetakosningum. Kosningasagan sýnir eins konar vítahring, þar sem hver ný barátta slær fyrri kostnaðarmet. Sífellt koma til sögunnar nýjar og dýrari baráttuaðferðir, sem menn þykjast verða að taka upp.

Búast má við, að næstu forsetakosningar verði enn dýrari. Ekki er fráleitt að spá því, að kostnaður á hvern frambjóðanda tvöfaldist í hvert sinn sem raunverulegar forsetakosningar eru háðar, ef það gerist á tíu ára fresti eða sjaldnar. Breytt kosningatækni kallar á þetta.

Til þess að fleiri en milljónamæringar geti í framtíðinni boðið sig fram til forseta og til þess að fjársterkir aðilar ráði ekki mestu um val forsetaefna, er nauðsynlegt, að þjóðfélagið í heild styðji framboðin með einhverjum hætti, helzt með skattfrelsi framlaga til þeirra.

Nú gildir slíkt skattfrelsi um framlög til stjórnmálaflokka og trúarlegra samtaka. Það er innan rammans að láta þessar reglur gilda einnig um framlög til forsetaframbjóðenda. Miklu minni hætta er á, að reglurnar verði misnotaðar á því sviði en hinum tveimur fyrri.

Skattfrelsi framlaga af þessu tagi á að vera háð því, að bókhald viðkomandi aðila sé opið og að jafnframt sé gerð skrá yfir gjafmildustu stuðningsaðilana, svo að sjá megi, hvaða og hvers konar aðilar eru fjárhagslega áhugasamastir um gengi hvers frambjóðanda.

Hér er ekki eingöngu verið að tala um bein framlög í peningum. Framlög geta líka verið í formi kaupa á miklu magni happdrættismiða, í formi fyrirgreiðslu og afsláttarkjara í auglýsingum, í formi lágrar leigu fyrir aðstöðu. Hugtakið framlög þarf að ná yfir óbeinu þættina.

Nánast alls staðar í lýðræðisríkjum er opin bókhaldsskylda í stjórnmálunum. Í Bandaríkjunum eru þar að auki reglur um hámarksgreiðslur. Hér á landi hafa flokkarnir hins vegar vikizt undan slíku, þótt þeir njóti opinberrar fyrirgreiðslu í formi skattfrelsis framlaga.

Frambjóðendur til embættis forseta Íslands standa flokkunum framar á þessu sviði. Opnu bókhaldi þeirra fylgir þó ekki skrá yfir gjafmildustu stuðningsaðilana og samanlagðan stuðning hvers þeirra. Slík skrá mundi þó skipta enn meiru máli í fjárreiðum flokkanna.

Dularfullt er, hversu eindregið flokkarnir og eindregnast stærstu flokkarnir verja hagsmuni hinna stóru og sterku gegn almannahagsmunum. Það sýna meðal annars samskipti pólitíska valdsins við fáokunarhring tryggingafélaga, svo sem fyrirgreiðsla í setningu laga.

Í okkar þjóðfélagi, þar sem stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar gera meira af því að leika hlutverk skömmtunarstjóra en hliðstæðir aðilar í nágrannalöndunum, er afar brýnt, að fjármál þeirra séu öllum opin og að ljós séu tengsl þeirra við fjársterka hagsmunaaðila.

Þannig er breytinga þörf á fleiri sviðum málsins en að fella forsetaframboð undir sömu reglur og önnur framboð. Ekki er nóg að koma á skattfrelsi í framlögum til allra þessara aðila. Jafnframt þarf að setja reglur um opnar og endurskoðaðar fjármálaupplýsingar þeirra.

Endurvakin umræða um þessi mál er góðs viti. Hvort tveggja er eðlilegt, skattfrelsi framboða og birtingarskylda á bókhaldi, þar með taldar viðskiptamannaskrár.

Jónas Kristjánsson

DV