Spillt umburðarlyndi

Greinar

Í frjálsum ríkjum á borð við Bandaríkin og Norðurlönd þætti fróðlegt að ræða umtalsverðan stuðning stórfyrirtækis við forsetaframboð og hvort það sé siðferðilega í lagi, að frambjóðandinn sitji síðan í Hæstarétti og úrskurði í málum, sem varða þetta sama stórfyrirtæki.

Hér á landi eru viðhorfin umburðarlyndari. Í fyrsta lagi er slík umræða talinn dónaskapur við umræddan hæstaréttardómara. Í öðru lagi er fullyrt, að annarlegar hvatir liggi að baki umræðunni, annaðhvort þess, sem fréttina sagði eða einhverra aðila á bak við hann.

Í nágrannalöndunum er spurt, um hvað verið sé að fjalla. Hér er hins vegar spurt, hver talaði um hvern og af hvaða hvötum. Þar er fjallað málefnalega um málin, en hér er fjallað persónulega um þau. Þar leiðast menn stundum út í ofstæki, en hér út í spillingu.

Þeir, sem starfa við fréttir, verða áþreifanlega varir við, að hugsunarháttur fólks er að meðaltali annar hér á landi en í löndum á borð við Bandaríkin og Norðurlönd. Fréttir, sem taldar væru málefnalegar þar, eru taldar persónulegar og jafnvel ofstækisfullar hér.

Stundum ganga menn, sérstaklega í Bandaríkjunum, svo langt í stefnufestu við ópersónuleg grundvallaratriði, að úr verður sértrúarstefna eða jafnvel hreint ofstæki. Viðhorfin hér á landi eru umburðarlyndari, en um leið hentugri jarðvegur fyrir spillingu.

Ef ekki má fjalla hér á landi um grundvallarforsendur í opinberu siðferði, af því að í því felist móðgun við “valinkunna heiðursmenn”, sennilega af “annarlegum hvötum” fréttamanns, gengur umburðarlyndið svo langt, að góður jarðvegur hefur myndazt fyrir spillingu.

Við sjáum annars vegar samhengið milli ópersónulegrar umræðu, málefnahyggju og ofstækis og hins vegar milli persónulegrar umræðu, umburðarlyndis og spillingar. Rannsóknablaðamennska hentar við fyrri aðstæðurnar, en á erfitt uppdráttar við hinar síðari.

Við þennan mismun bætist hagkvæmnishugsun margra Íslendinga, sem eru frábitnir skoðunum, er styggt gætu einhvern, sem þeir gætu haft gott af. Hér eru margir hneigðari til að bugta sig fyrir valdinu en frjálsborið fólk telur sér sæma í sumum nágrannalöndunum.

Aðstaða til einokunar eða fáokunar er ríkari þáttur í efnahagslífinu hér en í nálægum löndum. Einnig eru fólk og fyrirtæki háðari fyrirgreiðslum, sem sumpart byggjast á geðþótta valdamanna, svo sem ráðherra. Við þær aðstæður teljast viðkvæmar spurningar óviðeigandi.

Erfitt er að rjúfa vítahring fyrirgreiðslna og fáokunar, umburðarlyndis og spillingar. Hver þessara þátta styður hina. Umburðarlyndi og virðing fyrir valdi leiða til, að ekki er spurt spurninga, sem sjálfsagt þykir að spyrja í öðrum löndum. Frelsisboltinn fer því ekki af stað.

Íslenzk fjölmiðlun er brennd þessu vandamáli. Mikið af fréttum er lítið annað en endurómur af frásögnum valdamanna í stjórnmálum eða efnahagslífi. Tilraunum til að spyrja viðkvæmra spurninga er oft svarað með því að segja, að nú sé sorpfréttamennskan farin af stað.

Í alvörulandi lýðræðiskerfis þætti það merkilegt umræðuefni, hvort frambjóðandi til embættis forseta geti síðan verið hæstaréttardómari í málum, sem beint eða óbeint varða fyrirtæki eða stofnanir, er veittu honum umtalsverðan stuðning í kosningabaráttunni.

Hér á landi veldur tilraun til slíkrar umræðu hins vegar titringi. Málið er talið óviðeigandi, of persónulegt, of ofstækisfullt, of sorpfréttalegt, of óíslenzkt.

Jónas Kristjánsson

DV