Nýjasta aðferðin við að brenna fjármuni okkar á samgöngubáli er ráðagerð ríkisstjórnarinnar um að grafa upp Vatnsmýrina og malbika hana að nýju fyrir að minnsta kosti hálfan annan milljarð króna, svo að unnt sé að reisa þar flugvallarmannvirki fyrir annað eins.
Verjandi er að nota Reykjavíkurflugvöll áfram til bráðabirgða til að fresta útgjöldum við innanlandsflugstöð á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar er varhugavert að eyða miklum peningum í hann, því að hann á enga framtíð fyrir sér inni í sjálfum miðbæ borgarinnar.
Á Keflavíkurflugvelli þarf ekki að reisa mikið annað en flugstöð innanlandsflugs í nágrenni Leifsstöðvar og helzt samtengda henni. Á Reykjavíkurflugvelli þarf í rauninni að leggja alveg nýjan flugvöll til viðbótar öllum mannvirkjum og tækjum, sem fylgja slíkum flugvelli.
Munurinn á þessum tveimur kostum er að minnsta kosti hálfur annar milljarður króna. Það er hálfum öðrum milljarði króna of mikið fyrir þjóðfélag, sem ekki hefur efni á upplýsingahraðbraut nútímans og getur ekki haldið uppi sómasamlegu heilbrigðis- og skólakerfi.
Engin sérstök hrifning er í Reykjavík út af þessum ráðagerðum ríkisstjórnarinnar, sem eru runnar undan rifjum samgönguráðherra, helzta sérfræðings þjóðarinnar í brennslu verðmæta í þágu sérhagsmuna á landsbyggðinni. Vafalaust verður andstaðan öflug.
Ekki verður séð, að ríkisstjórninni takist að brenna þessum peningum án þess að gera borgarstjórn Reykjavíkur meðseka í sukkinu. Þess vegna verður þrýst á borgina að neita Halldóri Blöndal og félögum hans um tilskilin leyfi til að grafa upp Vatnsmýrina.
Reykvíkingar hafa töluverð óþægindi af lendingum í Vatnsmýrinni. Að nokkru hefur verið tekið tillit til þessara óþæginda með því að banna lendingar og flugtök að næturlagi. En slysahættan af fluginu hverfur ekki við það. Hún færist bara af nóttinni yfir á daginn.
Þegar allt hefur verið sett á vogarskálarnar, slysahættan, þægindin af stuttri leið frá flugstöð til miðbæjar og sú staðreynd, að flugvöllurinn er þarna, hefur niðurstaðan hallazt að því, að hann fái að vera. Vogardæmið gerbreytist, ef leggja þarf nýjan flugvöll í mýrina.
Ef umboðsmenn þjóðarinnar telja brýnt að skipta út ónýtum Reykjavíkurflugvelli, er Keflavíkurflugvöllur augljós arftaki. Það stafar af sömu ástæðu og þeirri, að Reykjavíkurflugvöllur er núna notaður. Það stafar einfalega af, að hann er til. Ekki þarf að leggja hann.
Frá flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli er tæplega 30 mínútna lengri akstur til Lækjartorgs en frá fyrirhugaðri flugstöð Reykjavíkurflugvallar í Nauthólsvík. Tímamunurinn er styttri á leið frá flugstöðvunum til ýmissa mikilvægra áfangastaða á höfuðborgarsvæðinu.
Þessi litli tímamunur er það eina, sem er óhagstætt í dæmi Keflavíkurflugvallar. Á móti koma betri og fleiri flugbrautir, meiri og betri tæki til lendingar og flugtaks, margvísleg og verðmæt atriði, sem fylgja innri gerð alþjóðlegs flugvallar, svo og mun minni slyshætta.
Við skulum heldur nota Reykjavíkurflugvöll enn um sinn eða meðan það er talið verjandi að beztu manna yfirsýn. Við skulum jafnframt nota tímann vel til að hanna hagkvæma flugstöð og flugvélastæði við hlið Leifsstöðvar, með samgangi undir þaki milli stöðvanna.
Sízt af öllu eigum við að fara nú að grafa hálfan annan milljarð af skattfé í Vatnsmýrinni til þess að geta síðan lagt annað eins til viðbótar í Reykjavíkurflugvöll.
Jónas Kristjánsson
DV