Blómatími dagblaða á Íslandi var á tveimur áratugum síðustu aldar, þegar tvö dagblöð höfðu dágóðan hagnað. Vetur sótti svo að þeim í byrjun þessarar aldar, þegar internetið þandist út og byrjaði að skafa til sín auglýsingar. Á sama tíma komu hingað gapuxar úr amerískum háskólum og hugðust nútímavæða bisnissinn upp í 20% gróða. Komið var upp eitruðu samstarfi ritstjórna og auglýsingadeilda, sálin hvarf úr dagblöðunum. Þeim fækkaði, sum lögðu niður útgáfudaga og urðu jafnvel vikublöð eða hurfu. Ný blöð supu dauðann úr skel og veraldargengi blaðamanna fór versnandi. Á slíkum ólgutíma er Ríkisútvarpið kjölfesta góðrar blaðamennsku.