Ríki voru upphaflega stofnuð til að vernda íbúa svæðis fyrir áreiti að utan eða innan, með samþykki íbúanna eða án þess. Okkar ríki veitir litla vernd og vísar vandamálinu til Nató og Bandaríkjanna. Annað viðfangsefni ríkja eru samgöngur og aðrir innviðir svæðisins. Undir það falla götur, hafnir, flugvellir og lagnir af öllum toga, meðal annars háhraðalagnir síma. Þriðja viðfangsefni ríkja er ýmis velferð, skólar, spítalar, heilsuvernd, lækningar, ellilaun, örorka, slys og húsnæði. Illa hefur gefizt að reyna að vísa innviðum og velferð til einkaaðila. Í stað þess að fylgja evrópskri reynslu er hér sífellt reynt að hygla einkaaðilum.