Ábyrgð tóbaksverzlunar

Greinar

Tóbaksverzlun er ágreiningsefni í valdakerfinu um þessar mundir. Meðal annars er tekizt á um rétt einstakra vörumerkja til aðgangs að markaði, um einkarétt ríkisfyrirtækis og um skyldu stjórnkerfisins til samráðs við aðila, sem halda uppi vörnum gegn tóbaksneyzlu.

Þegar talað er um nauðsyn viðskiptafrelsis á þessu sviði, verður að hafa í huga, að staðfest er, að tóbak er vanabindandi eitur. Fólk ánetjast tóbaki og á erfitt með að hætta að reykja, þegar það vill eða þarf. Og þjóðfélagið hefur gífurlegan sjúkdómakostnað af tóbaksneyzlu.

Á hinn bóginn er óhagkvæmt og óréttlátt, að ríkið hafi skömmtunarstjóra til að ákveða, hvaða vörumerki megi selja og hvaða vörumerki megi ekki selja af sömu vörutegund. Ennfremur, að ríkið stundi verzlun, sem jafnan er betur komin í höndum einkaframtaksins.

Í þessari þverstæðu er eðlilegt, að spurt sé, af hverju sé verið að deila um verzlunarhætti skaðlegrar vöru, sem ætti að vera bönnuð með öllu. Því er til að svara, að tóbaki hefur á löngum tíma tekizt að skapa sér þegnrétt, sem nú er á hægfara undanhaldi, en er ekki horfinn enn.

Sums staðar í útlöndum er undanhaldið hraðara en hér. Í Bandaríkjunum eru reykingar bannaðar mun víðar, til dæmis á öllum veitingahúsum í New York. Þar sækja áhugasamtök, einstök ríki og hópar lögmanna með hörðum málaferlum gegn tóbaksframleiðendum.

Í málflutningi tóbaksandstæðinga er sagt, að framleiðendur og seljendur tóbaks viti vel, að vara þeirra sé vandabindandi og baneitruð. Þeir telja þá skaðabótaskylda gagnvart kostnaðaraðilum sjúkrahúsa, svo og fjölskyldum fárveikra og látinna tóbakssjúklinga.

Búast má við, að tóbaksstríðið í Bandaríkjunum muni fyrr eða síðar endurspeglast í okkar þjóðfélagi. Því er tímabært fyrir innflytjendur tóbaks að fara að kaupa sér tryggingar gegn hugsanlegum málaferlum af hálfu þeirra, sem bera kostnað af heilsuspjöllum tóbaks.

Sem umboðsmanni þjóðarinnar ber ríkinu að stuðla að heilsu hennar með aðgerðum, sem draga úr tóbaksneyzlu. Sölubann er freistandi takmark, en háð því, að hægt sé að takmarka ólöglegan innflutning og ýmsa neðanjarðarstarfsemi, sem jafnan þrífst kringum hann.

Meðan tóbak er enn leyft, er unnt að takmarka aðgang með aukinni skattheimtu, að svo miklu leyti, sem unnt er að hafa hemil á smygli, svo sem fyrr segir. Í núverandi stöðu virðist það vera vænlegur biðleikur, meðan þjóðfélagið er að átta sig á nauðsyn tóbaksbanns.

Einnig er unnt að takmarka aðgang að tóbaki með því að taka það úr nauðsynjaverzlunum og hafa eingöngu til sölu í fáum sérverzlunum á borð við áfengisútsölur ríkisins. Þegar aukin er fyrirhöfnin við að ná í vöruna, minnkar notkun hennar samkvæmt markaðslögmálum.

Þessi aðferð hefur þann galla, að hún leiðir til skömmtunar á rétti til smásölu tóbaks og stangast að því leyti á við stefnu frjálsrar verzlunar. Í reynd fer skömmtunin nánast óhjákvæmilega fram á þann hátt, að ríkið hefur sérstaka einkaleyfisstofnun til að annast söluna.

Meðan tóbak er hreinlega ekki bannað, lendum við í ágreiningi milli heilsufarssjónarmiða annars vegar og sjónarmiða viðskiptafrelsis hins vegar. Meðan tóbak er leyft, ber ríkinu að reyna að gæta jafnræðis meðal þeirra, sem vilja koma hinu vanabindandi eitri á framfæri.

Sem fyrst þarf þó að setja lög, sem varpa ábyrgð á heilsutjóni af völdum tóbaks á herðar seljenda, svo að í náinni framtíð sé unnt að sækja þá að réttum lögum.

Jónas Kristjánsson

DV