Fréttir
Einkenni fréttamanns
David Kranz fór til Sioux Falls eftir Spencerfellibylinn. Bærinn hafði verið girtur af. Hann notaði gemsann, hringdi í alla, sem hann þekkti, einnig í lögreglu og björgunarstjóra. Hann fékk númer björgunarstjórans og lögreglustjórans.
Tíu mínútur voru til lokunar blaðsins. Kranz spurði lögreglustjórann, hvort hann vissi um ríkisstjórann. Sá stóð þá við hlið lögreglustjórans, sem rétti honum símann. Kranz kom í tæka tíð í Argus Leader viðtali við ríkisstjórann.
Sagan af foreldrunum, sem höfðu safnað fyrir húsi, tólf ára syninum, sem sló lóðir til að hjálpa við fjárhaginn, og var að hella bensíni á vélina, þegar kviknaði í húsinu og það brann. Dæmigerð saga um venjulegt fólk í Bandaríkjunum.
Sagan af því, er Jere Downs var að tala við verktaka, sem sagði honum, að borgin hefði sett 300 milljónir króna í stóra holu, sem myndaðist í vegi. Holan reyndist vera hellir og samtals var hellt í hann steypu fyrir 600 milljónir króna.
Cailin Brown hætti að tala við félagsráðgjafa og félagsmálastjóra og fór að tala við gamla fólkið sjálft, sem sagði sögur af einsemd sinni og örvæntingu. Mikið af þessu fólki hafði misst samband við ættingja sína. Þetta urðu forsíðufréttir.
Ted Koppel notaði heilan þátt af Nightline til að lesa upp nöfn Bandaríkjamanna, sem höfðu dáið í Írak. Allt varð brjálað út af þættinum. Markmiðið var að sýna fram á þátt stríðsins, sem ríkisstjórnin hafði reynt að halda frá almenningi.
Cammy Wilson fylgist heilan dag með konu í hjólastól til að lýsa erfiðleikum hennar. Í dagslok sagði konan, að kerfið tæki 4050 dollara fyrir að koma sér til læknis. Wilson komst að raun um, að starfsmenn kerfisins voru að mjólka fatlaða.
Wilson var að leita að húsi og sá, að allt innbúið var til sölu. Hún komst að raun um, að kerfið var að selja ofan af gamalli konu. Það tók hús með valdi af elliheimilafólki, og seldi þau gæludýrum sínum fyrir helminginn af markaðsverði.
Rödd í símsvaranum gaf upp síma og sagðist hafa frétt. Heidi Evans fylgdi því eftir og komst að raun um, að kerfið skilaði ekki niðurstöðu sýna vegna legkrabba fyrr en eftir tæpt ár. Evans talaði við konu sem fékk krabbamein í millitíðinni.
Loretta Tofani sá kæru um nauðgun í fangelsinu í Prince George’s County, komst að raun um, að föngum var kerfisbundið raðnauðgað þar. Tveir stjórar Washington Post höfnuðu fréttinni, en aðalritstjórinn samþykkti. Hún fékk Pulitzerverðlaun.
Blaðamenn The Denver Post sáu tilkynningu um andlát tveggja ára barns í fóstri. Eftir sjö mánaða rannsókn á 1,8 milljón tölvuskýrslum komust þeir að raun um, að í hópi fósturforeldra voru dæmdar gleðikonur, eiturlyfjasalar og ofbeldismenn.
Hér hefur verið sagt frá ýmsum blaðamönnum og fjölbreyttum verkefnum þeirra. Þeir eiga sumt sameiginlegt og sumt er líkt með verklagi þeirra. Við tökum strax eftir, að þeir eru forvitnir. Þeir vilja sjálfir vita, hvað er að gerast.
Blaðamenn átta sig snemma á, að best að sjá sjálfir og heyra atburðina, heldur en að verða að spyrja vitni. Sá, sem hefur séð og heyrt getur talað af meiri ábyrgð og meiri sannfæringu, en hinn, sem verður að hafa allt eftir sjónarvottum. Sími er gallaður.
Blaðamenn eru líka þrautseigir. Lisa Newman gafst ekki upp fyrr en hún gat sannað, að lögreglustjóri í Chicago færði lögreglumann í lægra sett starf fyrir að láta dóttur lögreglustjórans hafa sektarmiða fyrir umferðarlagabrot.
Þrautseigja felst í að spyrja hverrar spurningarinnar á fætur annarri, uns málið er orðið skýrt. Dave Barry dálkahöfundur segir: “Blaðamennska felst ekki í að skrifa. Þú lærir, að hún snýst um að spyrja erfiðra spurninga, vera þrautseigur.”
David Willman skrifaði í 14 mánuði fréttir í Los Angeles Times um dauðsföll af völdum lyfsins Rezulin, sem hafði verið bannað í Bretlandi. Bandaríska lyfjaeftirlitið tók ekki við sér í 14 mánuði, en þá var lyfið loksins bannað.
Stundum verða blaðamenn að vera meira en þrautseigir. Þeir verða að gera eins og Loretta Tofani, sem fór framhjá tveimur yfirmönnum sínum við Washington Post til að fá yfirmann þeirra til að samþykkja grein hennar. Það gaf henni Pulitzer.
Liðinn er sá tími, er sagt var: “Ekki reyna að staðfesta góða sögu.” Nú gildir reglan um, að tvær forsendur séu mikilvægastar í fréttaöflun.
1) að ná réttum staðreyndum.
2) að fá báðar/allar hliðar málsins.
Stanley Walker: “Hvað gerir blaðamann góðan? Svarið er einfalt. Hann veit allt. Hann veit ekki aðeins, hvað gerist í dag í heiminum. Heili hans er safn allrar þeirrar visku, sem safnast hefur upp hjá mannkyninu um aldir alda.” Nú er komið Google.
Walker áfram: “Hann hatar lygar og nísku og gervi, en temprar skap sitt. Hann er trúr blaði sínu og því, sem hann lítur á sem sitt fag.” Walker var einn þeira, sem gerði New York Herald Tribune frægt fyrir fréttaskrif.
Blaðamaður í Chicago var hindraður í að fara inn á vettvang glæps. Hann hljóp inn í næstu búð, keypti sér tösku, svo að hann liti út eins og sérfræðingur, og gekk framhjá vörðunum án þess að vera stöðvaður.
Er yfirvöld í Kína neituðu, að nokkur hefði dáið í óeirðum á Torgi hins himneska friðar, reyndi Jan Wong að afla frétta á sjúkrahúsum. Verðir voru við framdyrnar, en hann fór bakdyramegin, sá og birti fréttir af rotnandi líkum andófsmanna.
Boðaður var blaðamannafundur til að kynna nýjan þjálfara Rice University. UPI hringdi heim til allra þjálfara, sem komu til greina. Á síðasta staðnum voru hjónin ekki heima. “Fór hún með honum á fundinn?”. “Já, auðvitað” var svar barnapíunnar.
Á USA Today voru sett upp boðorð fyrir blaðamenn. Þau voru aðeins þrjú:
1) Vertu fyrstur með fréttina.
2) Rannsakaðu málin.
3) Komdu auga á ferli, sem er í gangi.
Ian Stewart og Myles Tierney fóru til Freetown til að kanna orðróm um stríðsglæpi hryðjuverkamanna. Aðeins Stewart kom til baka. Hann var með kúlu í höfði og aðra hendina lamaða. “Ekki fara? Það var ekki þess vegna að ég fór í blaðamennsku.”
Todd Carrel fór fyrir ABC að taka viðtal við einmana andspyrnumann í Kína, sem var með áróðursborða. Óeinkennisklæddir lögreglumenn réðust á þá og börðu Carrel svo illa, að hann er fatlaður síðan. Andspyrnumaðurinn var settur á geðsjúkrahús.
James Fallows hjá Atlantic Monthly segir: “Mesta afrek blaðamennsku er að fá fólk til að kæra sig um og skilja atburði og málefni, sem það hafði ekki áður áhuga á.” Blaðamenn snúa sér að hinum varnarlausu og fátæku; þeim, sem enga rödd hafa.
George Esper hjá AP var ekki fyrir að gefast upp. “Ég þrýsti ekki á hana. Aftur á móti sneri ég ekki við og fór. Ég bara stóð þarna, blautur af snjó, bleytan lak af mér og ég held hún hafi aumkast yfir mig.” Svipað og hjá Bernstein í Watergate.
Ted Anthony hjá AP: “Þegar ég fer til miðvesturríkjanna tek ég eyrnalokkinn af mér. Ég vil að fötin séu ópersónuleg, svo að ég geti talað við alla, óháð stöðu þeirra eða viðhorfum.” Íslenskur blaðamaður með barmmerki trotskista.
Þú átt ekki að nota sjálfsaga í að velja, hversu miklu efni eigi að safna. En þú skalt nota sjálfsaga í að velja, hversu mikið á að skrifa. Þú hefur aldrei nógu mikið af smáatriðum til að vinna úr og þú veist ekki, hvaða smáatriði þú notar að lokum.
Jules Loh hjá AP lýsir því sem hann sér. Því fleiri svör, sem hann fær, því meira spyr hann. Hann segir, að öflun upplýsinga sé grundvöllur góðs fréttastíls. Ef hann veit mikið um málið, þarf hann ekki að skýla sér bak við sérfræðinga.
Bill Baskervill hjá AP skrifaði grein um geðsjúka konu, sem dó eftir að hafa verið í spennitreyju dögum saman á geðsjúkrahúsi. Hann sagði:
Þegar ég tók eftir að ráðamenn höfðu samsæri um þögnina, fékk ég blóðbragð í munninn. Ég fór að vinna hálfu meira. Hann sagði þeim: “Ég ætla að skrifa þessa sögu, annað hvort byggða á gögnunum, eða um neitun ykkar að afhenda mér þau.”
Jerry Schwartz hjá AP skrifaði grein um uppgjafahermann úr Víetnamstríðinu. Hann fann allt fólkið með því að leita á Google. Hann fann uppgjafahermenn, ekkjur, afkomendur, sagnfræðinga. Öll greinin er unnin upp úr heimildum, sem liggja á vefnum.
Þegar CBS fréttaþátturinn 60 Minutes birti frétt um, að meint árás á bandarískt herskip á Tonkinflóa við Víetnam hafi verið fölsuð til að afsaka árás bandaríska hersins, hringdi Johnson forseti og sagði: “Þið skituð á bandaríska fánann.”
Blaðamenn lifa í heimi ringulreiðar og flækja. Samt geta þeir með framtaki, orku og greind nálgast sannleikann í málum og búið skilningi sínum form tungumáls, sem skilið er af öllum. Þeir halda ró sinni, en þeir kæra sig um málefnin.
Blaðamenn gera mistök. Þeir verða að læra af mistökum sínum og ekki gefast upp. Mistök geta verið niðurlægjandi, en hjá því verður ekki komist. Jafnvel New York Times birtir á blaðsíðu 2 á hverjum degi ramma með 25 leiðréttingum dagsins.
Slík vinnubrögð við leiðréttingar hafa ekki verið tekin upp hér á landi, þótt ótrúlegt sé, að hér séu færri villur en í NYT. Kannanir vestra sýna þó, að leiðréttingar auka traust manna á fjölmiðlinum. Það gera líka umbar og símenntun.
Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10. útgáfa 2006
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé