Kínamúrinn

Veitingar

Enginn talaði íslenzku á Kínamúrnum og þjónninn litla ensku, eigandinn heldur meiri. Ofan á tungumálaerfiðleika bætist stjórnsemi eigandans, sem heldur stíft fram einhverju öðru en því, sem valið er af seðli, hugsanlega því, sem hentugast er að elda hverju sinni.

Þjónustan var laus við fagmennsku, ruglaði réttum milli borða og kom til skila tveimur réttum af fjórum, bar fram kökudiska í stað matardiska og teskeiðar í stað mataráhalda, skildi ekki beiðni um löglegan reikning og bætti við hann teverði, sem var innifalið.

Erfitt er að finna tilgang með svona sérstæðu veitingahúsi ofan á allar kínversku matstofurnar, sem fyrir eru. Staðurinn er samkvæmt reynslunni frekar vonlítill, þótt hann sé við Hlemmtorg, því að hér hefur hvert veitingahúsið á fætur öðru lagt upp laupana.

Gömlu og þægilegu innréttingarnar hafa að mestu verið látnar halda sér. Nokkru hefur verið aukið af skreytingum til að gefa kínverska stemmningu, en í engu ofgert. Rauðir litir eru áberandi, lýsing notaleg og stemmningin róleg, enda fátt um gesti.

Matseðillinn er langur að kínverskum hætti og réttirnir heita mismunandi nöfnun, en eru eigi að síður hver öðrum líkir. Svo virðist sem til séu ótal kínverk orð yfir djúpsteikingu, sem er mesta dálæti matsveinsins.

Við biðjum um Yu Siang, Wu Siang, Hoi Sin, Chen Pee, Gu Lao, Gao Pao og svo framvegis og fáum næstum alltaf eitthvað djúpsteikt og sætt, yfirleitt með miklum steikarhjúp og einhverri útgáfu af súrsætri sósu, afar sætri. Notað er ótæpilegt magn af MSG-kryddi á pinnaréttum.

Súpurnar eru áberandi beztar á Kínamúrnum. Svonefnd West Lake Soup var eggjadropasúpa úr nautasoði með gúrku og rækjum. Á öðrum stað hét eins súpa einfaldlega eggjadropasúpa og var jafngóð fyrir það. Svonefnd sterksúr súpa var bæði sterk og góð.

Djúpsteiktur Wu Siang fiskur var kominn með ellilykt, en olli þó engum meltingartruflunum, enda hefur sögumaður fengið góða þjálfun vítt um lönd. Djúpsteikt lambakjöt var aðallega hjúpur og framkallaði samkeppni borðfélaga í leit að innihaldi.

Annað sérkenni staðarins er, að það, sem heitir kjúklingur á seðli, verður að nautakjöti á diski, nautakjöt á seðli verður að kálfakjöti á diski, kálfakjöt á seðli verður að svínakjöti á diski og svínakjöt á seðli verður að kjúklingi á diski. Þetta getur leitt til skemmtilegrar eftirvæntingar við borðið og kemur að gagni, ef umræðuefni skortir.

Ef þessi staður væri í skáldsögu, væri hann ekki í rauninni matstofa, heldur framhlið fyrir eitthvað rosalega spennandi að tjaldabaki, til dæmis atburði úr James Bond bíómynd.

Í boði eru tíu raðir af þremur, fjórum eða fimm réttum, fyrir utan súpu. Þeir kosta frá 980 krónum, en miðjuverðið er 1.590 krónur. Ég held, að innihald þeirra sé að mestu hið sama, þótt textinn sé mismunandi. Í hádeginu fæst réttur dagsins á 550 krónur.

Eiginlega er ekki rétt að kalla þetta kínverskan matstað. Nær er að ætla, að staðurinn sé ættaður frá tunglinu.

Jónas Kristjánsson

DV