Valfrelsið er marklaust

Greinar

Kosningaþáttaka í Bandaríkjunum hefur á þremur áratugum fallið úr rúmlega 60% niður í tæplega 50%. Þetta sýnir aukið áhugaleysi bandarískra kjósenda og gefur tilefni til að hugleiða, hvort svipaðar breytingar geti ekki líka orðið í öðrum þjóðfélögum Vesturlanda.

Reynslan sýnir, að bandarískt þjóðfélag gefur tóninn á mörgum sviðum og önnur vestræn þjóðfélög fylgja í humátt á eftir. Breytingar byrja þar og síast síðan inn annars staðar í kjölfarið. Aukið áhugaleysi kjósenda fyrir vestan gæti því hæglega smitazt yfir til okkar.

Að þessu sinni völdu Bandaríkjamenn milli tveggja óhæfra forsetaefna. Niðurstaðan varð, að þeir kusu siðferðilega vanþroskaðan mann, sem reynslan sýnir, að snýst eins og vindhani eftir aðstæðum hverju sinni, en hafði að þessu sinni mun betur smurða kosningavél.

Hinn frambjóðandinn er gamalmenni, sem kastaði fyrir róða þeirri rökfræði, er hann hafði notað sem þingmaður, og tók upp þveröfug slagorð af ódýrustu tegund, svo sem loforð um miklu lægri skatta. Hann reyndist sami vindhaninn og hinn, þegar á hólminn var komið.

Í kosningabaráttunni hefur komið betur en áður í ljós, að sérhagsmunir af ýmsu tagi ráða miklu um val stjórnmálamanna og afstöðu þeirra. Þannig hafa ameríska byssufélagið, samtök tóbaksframleiðenda og stuðningshópar Ísraels umtalsverð áhrif á bandarísk stjórnmál.

Svo langt gengur þetta, að erlendir aðilar eru farnir að taka þátt í fjármögnun kosningabaráttunnar og ná eyrum valdamikilla manna. Það kann ekki góðri lukku að stýra, þegar peningar úr þriðja heiminum eru farnir að lita stefnu heimsveldis í þeim heimshluta.

Peningamenn kaupa bandarísk stjórnmál í vaxandi mæli. Þeir kosta framagirni stjórnmálamanna og stjórna gerðum þeirra á sínum hagsmunasviðum. Þannig tekst minnihlutahópum eins og byssufélaginu, tóbaksframleiðendum og Ísraelsvinum að stjórna sínum sviðum.

Að baki þessari þróun eru bandarískir kjósendur, sem eru að afsala sér frumburðarrétti borgarans og láta hafa sig að fífli. Möguleikar kjósenda til að greina kjarnann frá hisminu hafa minnkað í réttu hlutfalli við getu áróðursmeistara til að koma hisminu á framfæri.

Við sjáum þetta gerast á mörgum sviðum í senn. Til dæmis eykst geta neytenda til að sjá við brögðum markaðsmana mun hægar en geta markaðsmanna til að finna nýjar leiðir til að villa um fyrir neytendum. Stjórnmálin eru bara einn þáttur af þessu almenna ferli.

Sjónvarpið hefur haft afar slæm áhrif. Þar koma stjórnmálamenn og sýna af sér ímynd, sem kjósendur telja sér trú um, að sé persónuleiki þeirra. Í stað þess að veita kjósendum innsýn í innri mann frambjóðandans lokar sjónvarpið beinlínis fyrir þessa innsýn.

Rannsóknir sýna til dæmis, að frambjóðandi getur sýnzt meira trausts verður en andstæðingurinn með því að depla sjaldnar augunum en hann. Clinton afrekaði að læra að depla augunum nærri helmingi sjaldnar en Dole og var því kjörinn forseti Bandaríkjanna.

Eðlilegur fylgifiskur valdaafsals kjósenda er, að kosningaþátttaka minnkar. Í Bandaríkjunum er hún komin niður fyrir 50% í forsetakosningum. Fólk sér ekki tilgang í að velja milli strengbrúða, sem hagsmunahópar stjórna, og telur sig ekki eiga kost á öðrum leiðum til áhrifa.

Hliðstæða strauma má sjá á Íslandi. Þeirri skoðun vex fylgi hér, að sami rassinn sé undir pólitíkusunum, að sérhagsmunir ráði ferð og að því verði ekki breytt.

Jónas Kristjánsson

DV