Guðmundur góði

Greinar

Guðmundur Árni Stefánsson fékk mikið fylgi í formannskjöri Alþýðuflokksins um helgina og er af mörgum talinn munu verða formaður flokksins í náinni framtíð. Formaður Alþýðubandalagsins telur slíkt mundu verða vænlegan kost í samstarfi vinstri flokkanna.

Jafnframt er ítrekað, sem Guðmundur hefur alltaf haldið fram, að hann sé saklaus af þungum áburði, er hann varð fyrir sem ráðherra. Hann sagði ekki af sér ráðherradómi, af því að hann hefði gert neitt rangt, heldur af því að hann var að fórna sér fyrir flokkinn.

Margvísleg góðvild Guðmundar í garð bágstaddra einstaklinga olli erfiðleikum í samskiptum í ríkisstjórninni og í almannatengslum flokksins. Guðmundur leyfði þá af góðsemi sinni, að sér yrði kastað fyrir blóðgrimma fjölmiðlunga til að létta á stöðu flokksins.

Söguskýring þessi er víðtækari. Guðmundur hefur einnig upplýst, að herferðin gegn sér hafi átt rætur sínar í valdakerfi Alþýðuflokksins sjálfs. Hún hafi verið runnin undan rifjum Sighvats Björgvinssonar, sem núna passar sjoppuna, unz Guðmundur tekur við henni.

Endurreisn Guðmundar í flokknum byggist ekki á, að hann hafi gengið til Rómar og tekið skriftir. Hún byggist á hans eigin forsendum. Hann var fórnardýrið, sem saklaust tók eldskírnina og bíður þess nú sem forkláraður dýrlingur að verða sameiningartákn jafnaðarmanna.

Góðvild Guðmundar í garð bágstaddra beindist að völdum einstaklingum. Sumir fengu ódýrt húsnæði. Aðrir voru gerðir að verktökum í ráðuneytinu. Það, sem Guðmundur gerði fyrir Steen, gerði hann ekki fyrir Jón. Það er munurinn á sértækri góðvild og almennri.

Það hefur alltaf verið skoðun Guðmundar og er enn, að þessi sértæka góðvild hafi verið réttmæt. Alþýðuflokkurinn hefur nú staðfest með tæplega 50% atkvæða, að þar er sú skoðun útbreidd, að sértæk góðvild Guðmundar í garð útvalinna hafi í raun verið eðlileg.

Ekki er nóg með, að þetta sé viðurkennd skoðun í flokknum, heldur er hún unga skoðunin á uppleið. Hún verður framlag Alþýðuflokksins til samstarfsins á vinstri vængnum, þegar flokkurinn hefur fórnað sérvizku sinni í málum Evrópu, sjávarútvegs og landbúnaðar.

Sighvatur Björgvinsson er talinn maður gamla tímans, stuðningsmaður sjónarmiða Jóns Baldvins Hannibalssonar í málum Evrópu, sjávarútvegs og landbúnaðar. Þessum málum verður flokkurinn að fórna í væntanlegu vinstra samstarfi, því að þau eru sérmál flokksins.

Enn hafa þessi sérmál meirihlutafylgi í flokknum. En einnig er upplýst, þar á meðal af Sighvati sjálfum, að í væntanlegu samstarfi verða allir aðilar að kasta sérvizku sinni fyrir róða. Það þýðir, að lítið hald er í stuðningi flokksins við þessa arfleifð frá Jóni Baldvin.

Tvenns konar eðli blundar í Alþýðuflokknum. Annars vegar er þar hagfræði- og alþjóðahyggjan, sem einkenndi Jón Baldvin í miklum mæli og Sighvat í nokkrum. Hins vegar er þar fyrirgreiðsluhyggjan, sértæk góðvild í garð útvalinna einstaklinga að hætti Guðmundar Árna.

Þannig rúmar flokkurinn allt frá víðförlum rithöfundum til hagvanra sveitarstjórnarmanna. Þar horfa sumir á umheiminn og aðrir á sértækan lítilmagna. Til bráðabirgða er hagfræði- og alþjóðahyggjan enn ofan á, en undir niðri er fyrirgreiðsluhyggjan að rísa.

Geislabaugur Guðmundar mun svo skína enn bjartar, er flokkurinn stendur andspænis þörfinni á þjálli formanni en Sighvati í væntanlegu kosningabandalagi.

Jónas Kristjánsson

DV