Bandalag um hvað?

Greinar

Þótt vel hafi tekizt að koma á og framfylgja samstarfi kosningabandalags Reykjavíkurlistans, er ekkert sem bendir til, að unnt sé við núverandi aðstæður að koma á svipuðu samstarfi á landsvísu, með eða án Framsóknarflokksins, sem nú situr í stjórn með sjálfum óvininum.

Flest mál, sem sameina flokka væntanlegs kosningabandalags, eru á verksviði sveitarstjórna. Flest mál, sem sundra þessum sömu flokkum, eru á verksviði Alþingis og ríkisstjórnar. Og ekkert bendir til, að skoðanaágreiningur þessara flokka fari minnkandi á landsvísu.

Þótt tilhugalíf miðist sjaldan við kaldan veruleika hjónabandsins, er engin leið að sjá fyrir sér, að kosningabandalag á landsvísu komizt hjá að taka þegar í upphafi á ýmsum grundvallarmálum. Meðal þeirra má nefna Evrópu, fiskveiðistjórn, landbúnað og neytendamál.

Í öllum þessum málum hefur Alþýðuflokkurinn sérstaka stefnu, sem skilur hann frá Sjálfstæðisflokknum, en aðrir flokkar hugsanlegs kosningabandalags hafa hins vegar stefnu, sem fellur mjög saman við stefnu höfuðóvinarins. Af hverju er hann þá höfuðóvinurinn?

Ef litið er eingöngu á Evrópu, fiskveiðistjórn, landbúnað og neytendamál, er miklu nær, að allir stjórnmálaflokkar landsins, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, myndi kosningabandalag gegn Alþýðuflokknum. Svo undarlegur er veruleikinn í málefnamynztrinu.

Ef Alþýðuflokkurinn gefur eftir sérstöðu sína í framangreindum málum til að koma á málefnalegri samstöðu í kosningabandalaginu, getur Sjálfstæðisflokkurinn væntanlega líka fengið inngöngu í bandalagið, sem verður þá bandalag allra flokka gegn engum flokki.

Hversdagsleiki stjórnmálanna sýnir, að Sjálfstæðisflokkurinn er sem ríkisstjórnarflokkur ekki aðeins mjög líkur Framsóknarflokknum sem ríkisstjórnarflokki, heldur einnig líkur Alþýðubandalaginu eins og það hefur verið sem ríkisstjórnarflokkur á síðari árum.

Ef eitthvað greinir Sjálfstæðisflokkinn frá þeim flokkum, sem nú gæla við hugmyndir um kosningabandalag, er það eindreginn stuðningur hans við stórfyrirtæki og samtök stórfyrirtækja, sem njóta einokunar eða fáokunar í skjóli pólitískra aðgerða frá fyrri tímum.

Framsóknarflokkurinn er sáttur við þessa einokun og fáokun samtaka stórfyrirtækja, af því að fyrirtæki, sem eru honum velviljuð, eiga minnihlutaaðild að þessari aðstöðu. Smokkfiskurinn nýtur molanna af borði kolkrabbans. Þar slær hjarta Framsóknarflokksins.

Ofan á þessa sérstöðu Framsóknarflokksins bætist svo sérstaða hans sem ríkisstjórnarflokks líðandi stundar. Engin leið er að sjá fyrir sér, að hann gangi til næstu alþingiskosninga sem aðili að kosningabandalagi gegn þeim flokki, sem hann er hamingjusamlega giftur.

Í engum málum, sem hér hafa verið rakin, í málum Evrópu, fiskveiðistjórnar, landbúnaðar, neytenda og kolkrabbans, er unnt að sjá, að vatnaskil í stjórnmálum landsins séu fremur milli Sjálfstæðisflokksins og hinna flokkanna heldur en milli og innan hinna flokkanna.

Kvennalistinn hefur miklar efasemdir um, að hinir flokkar væntanlegs bandalags séu samstarfshæfir í málefnum kvenna. Ef svo er ekki, þá stendur ekkert eftir af sameiginlegum málum á landsvísu annað en stuðningur við íhaldssama yfirstétt í félögum launafólks.

Atkvæðarýrt yrði bandalag um hagsmuni yfirstéttar félaga launafólks í þeim gamla stíl Verkamannaflokksins brezka, sem var fyrir langvinna hundahreinsun hans.

Jónas Kristjánsson

DV