Grænn kostur

Veitingar

Ódýrasti og skemmtilegasti sprotinn á tízkumeiði grænmetismatstofa er lítil sjálfsafgreiðsluhola að húsabaki við Skólavörðustíg og kallar sig réttilega heilsubitastað. Grænn kostur heitir hann, þrauthannaður að fransk-ítölskum hætti nútímans og svo ljótur að innréttingum, að hann getur næstum talizt smart.

Svipur staðarins er napur, glansandi málmur, og groddalegur krossviður, fjólublá málning og stælleg næfurljós, háir barstólar við hringlaga smáborð, steinflísar í gólfi og stórir gluggar út að bílageymslunni að Bergsstöðum.

Samt er andrúmsloftið gott, starfslið glaðlegt og viðskiptavinir greinilega með lífsstíl. Með óviðurkvæmilegri alhæfingu mætti segja, að á Grænum kosti borði ungt og glatt fólk; á Næstu grösum borði magaveikt fólk og þekktir sérvitringar; og á Grænu og góðu borði sorgbitið fólk á miðjum og meðvituðum aldri.

Allir grænmetisstaðir borgarinnar hafa að markhópi fólk, sem vill ekki eða má ekki borða óþverrann í mötuneytunum, sem eru alfa og ómega íslenzkrar matargerðar. Fólk snæðir hér hversdagslega, en ekki til spari. Verðlag Græns kosts endurspeglar það betur en hinna staðanna, enda er þetta sá staðurinn, sem slegið hefur í gegn.

Hér fást tveir heitir réttir dagsins á 495 krónur hálfur skammtur og 650 krónur heill. Ýmsar minna áhugaverðar bökur og svokallaðar samósur fást á 300 krónur, upphitaðar í örbylgjuofni. Tertusneiðar kosta 200 krónur, en ekki eru á boðstólum ferskir ávextir, sem þó ættu að vera aðalsmerki eftirrétta á slíkum stað.

Matreiðslan er hér lítillega fjölbreyttari en á hinum stöðunum, sem yfirleitt bjóða aðeins einn rétt dagsins. Hún er líka hressilegri og frjálslyndari í meðferð á kryddi, undir áhrifum matreiðslu úr þriðja heiminum. Grænn kostur sannar, að grænmetisfæði þarf alls ekki að vera bragðdauf þjáning.

Matreiðslan er í kórréttu samræmi við sjónarmið náttúrulækningamanna, notar til dæmis ekki póleruð hrísgrjón eins og gert er á Næstu grösum. Hér er einnig daðrað við hugmyndafræði þeirra, sem ekki vilja sykur eða hveiti. Sykur er raunar alls ekki notaður á staðnum og jafnan er annar aðalrétturinn hveitilaus. Hér rúmast í senn mest sérvizka og mest tilbreyting.

Meðal þess, sem hér hefur sézt á boðstólum, er mildur karrípottur með sojabaunum, steiktu grænmeti og lífrænum hýðishrísgrjónum; sterkur karrípottur með kjúklingabaunum, kartöflum og aprikósusósu; norður-afrískt húmmus með karrígrænmeti; linsubaunabuff, kjúklingabaunabollur og gulrótaborgarar. Allt voru þetta bragðgóðir og bragðríkir réttir.

Hrásalat er sæmilegt, en getur tæpast keppt við það, sem kemur úr eldhúsi ýmissa veitingahúsa, sem ekki kenna sig við grænmetisfæði. Þetta er stílbrot í kerfinu eins og skorturinn á ferskum ávöxtum. Tvennt bætir úr skák, að hrásalötin eru tvö og að gestir geta sjálfir lagað sér olífuedikslög.

Líklega er það heiftarleg óvild ríkisstjórnarinnar í garð innflutts grænmetis, sem veldur því, að ódýr veitingahús hafa ekki ráð á fallegu hrásalati. Í sérhagsmunagæzlu sinni spillir hún þannig heilsu þjóðarinnar eins og öðru.

Jónas Kristjánsson

DV