Yfirgangur ómagans

Greinar

Boutros Ghali er bezti framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna frá upphafi, enda nýtur hann meira og víðtækara trausts en dæmi eru um. Hann hefur þar að auki skorið kostnað niður meira en allir fyrirrennarar hans til samans. Þess vegna ber að endurkjósa hann.

Stuðningurinn við Boutros Ghali er almennur í öllum heimshornum, enda spannar hann sjálfur ýmsa menningarheima. Hann er frá íslamska Afríkuríkinu Egyptalandi, er sjálfur kristinn og er kvæntur konu af gyðingaættum. Auk þess er hann menntamaður á vestræna vísu.

Samkvæmt venju sækir Boutros Ghali um endurráðningu í annað kjörtímabil, sem hefst um áramótin. Til þess hefur hann stuðning alls meginþorra ríkja heims, nema þess ríkis, sem ber meiri ábyrgð en nokkurt annað ríki á fjárhagsvandræðum Sameinuðu þjóðanna.

Bandaríkin eru skuldakóngurinn. Þau skulda Sameinuðu þjóðunum sem svarar 85 milljörðum íslenzkra króna. Samt eru Bandaríkin hvað eftir annað að reyna að fá Sameinuðu þjóðirnar til að taka að sér ný og ný verkefni, er kosta peninga, sem ekki eru til.

Sameinuðu þjóðirnar og Öryggisráðið hafa hvað eftir annað tekið þátt í verkefnum og haft kostnað af verkefnum, sem Bandaríkjastjórn hvers tíma hefur talið sér afar mikils virði, allt frá Kóreustríðinu yfir í Persaflóastríðið, frá hernámi Bosníu yfir í hernám Haítí.

Þótt Bandaríkin séu í vaxandi mæli að verða fjárhagslegur ómagi á heimspólitísku framfæri Sameinuðu þjóðanna, haga þau sér eins og þau eigi samtökin. Svartasta dæmið um frekju og yfirgang Bandaríkjanna er dólgsleg andstaða þeirra gegn endurráðningu Boutros Ghali.

Raunar hefur stjórn Clintons Bandaríkjaforseta ekkert málefnalegt út á Boutros Ghali að setja. Brottför hans hjálpar ekki neinum málum Bandaríkjanna og sparar Sameinuðu þjóðunum ekki krónu. Andstaðan er misheppnuð tilraun til að sýna mátt sinn og megin.

Velflestir bandamenn Bandaríkjanna í Sameinuðu þjóðunum hafa hvatt Bandaríkjastjórn til að skipta um skoðun. Hið sama hafa ótal samtök gert í Bandaríkjunum, þar á meðal fjölmörg kirkjuleg samtök. Bandaríkin hafa alls engan stuðningsaðila í máli þessu.

Bandaríkjastjórn er þegar farin að finna fyrir því að hafa æst alla upp á móti sér. Um daginn var ekki endurkosinn fulltrúi frá Bandaríkjunum í hina valdamiklu fjárlaganefnd Sameinuðu þjóðanna, enda tæpast við hæfi, að sjálfur ómaginn sitji í svo mikilvægri nefnd.

Eitt fordæmi er fyrir, að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafi ráðið framkvæmdastjóra gegn neitunarvaldi heimsveldis í Öryggisráðinu. Það var þegar Norðmaðurinn Tryggve Lie var, að ráði Bandaríkjanna, endurkjörinn árið 1950 gegn neitunarvaldi Sovétríkjanna.

Nú er kominn tími til að stöðva yfirgang Bandaríkjanna á sama hátt og yfirgangur Sovétríkjanna var stöðvaður 1950. Ríki Sameinuðu þjóðanna setja ofan, ef þau leyfa dólgslegri ríkisstjórn að haga sér eins og hún eigi samtökin og koma sér hjá því að greiða félagsgjald.

Ef skuldakóngurinn kemst upp með að neita Boutros Ghali um endurráðningu, þótt hann sé bezti framkvæmdastjórinn frá upphafi og njóti öflugs stuðnings flestra ríkja heims, hafa Sameinuðu þjóðirnar sett svo ofan, að vafasamt er, að samtökin eigi tilverurétt.

Eina leiðin til að verja reisn Sameinuðu þjóðanna gegn árás hins vanhæfa Clintons Bandaríkjaforseta er að endurráða Boutros Ghali gegn neitunarvaldi Bandaríkjanna.

Jónas Kristjánsson

DV