Fíkniefna- og ofbeldisflóðið á Íslandi hefur ekki leitt til marktækra gagnaðgerða af hálfu stjórnvalda. Þvert á móti hafa fjármálaráðherra og tollstjórinn í Reykjavík dregið úr fíkniefnaleit og tekið þá tollverði á teppið, sem hafa verið að segja frá þessum samdrætti.
Á sama tíma eru kerfiskarlar að velta vöngum yfir, hvort ofsagt hafi verið einhvers staðar, að tvöhundruð ungmenni séu í harðri neyzlu fíkniefna, því að þau séu ekki í raun nema fimmtíu. Sumir saka jafnvel fjölmiðla að venju um að búa til vandamál, sem sé ekki til.
Meðan ráðherrar, embættismenn og sérfræðingar taka svona á málum, flæða fíkniefni og ofbeldi um landið í síauknum mæli. Nánast daglega berast okkur fréttir af ofbeldisverkum, en mjög sjaldan fréttum við, að tekizt hafi að ná fíkniefnasendingum úr umferð.
Reykjavíkurhöfn er eftirlitslaus langtímum saman. Utan Reykjavíkur er nánast ekkert gert til að stöðva innflutning um hafnir. Það er orðinn viðburður, að fíkniefni séu tekin á Keflavíkurflugvelli. Tollpóststöðin opnar marga pakka, en finnur sjaldnast þá réttu.
Fíkniefnainnflytjendur hafa svo mikinn stuðning af fjármálaráðherra og tollstjóranum í Reykjavík, að þeir geta tekið lífinu rólega. Samt höfðu þeir fyrir því í vor að berja hnýsinn tollvörð til óbóta, svona til að minna alla hina á að hafa hægt um sig í fíkniefnaleit.
Þannig er kerfið lamað með aðgerðum að ofan og neðan. Yfirlæknirinn á Vogi segir opinberlega, að þjóðfélagið hafi misst tökin á fíkniefnavandanum. Notkun flestra fíkniefna fer ört vaxandi og einkum hörðustu efnanna. Sprautufíklar eru orðnir algengt vandamál.
Til viðbótar við augljósan vanda innanlands, sést af innflutningi látins fólks, að við flytjum líka út fíkniefnavandann. Fólk fer til Kaupmannahafnar, Amsterdam, Taílands og fleiri staða til að komast í þægilegra neyzluumhverfi og er síðan flutt heim í líkkistum.
Unglingar undir refsialdri eru orðnir síbrotamenn í vopnuðum misþyrmingum. Í einu hverfi Reykjavíkur gera unglingar aðsúg að lögreglu og öðrum þeim, sem þangað koma vegna fíkniefnamála. Strætisvagnastjórar kvíða síðustu ferð að næturlagi um helgar.
Unglingarnir eru aðeins ein myndbirting vandamálsins, en sú alvarlegasta, af því að þeir eru óharðnaðir. Raunar gera þeir lítið annað en fara eftir þeim fyrirmyndum í hegðun, sem þeir sjá hjá kófdrukknum foreldrum heima fyrir og í flóði ofbeldiskvikmynda.
Ráðherrar, embættismenn, stjórnmálamenn og sérfræðingar verða að hætta að ganga óbeinna erinda fíkniefna- og ofbeldisbransans. Margfalda þarf tollgæzlu í skipa- og flughöfnum landsins, svo og í tollpósti, til þess að reyna að stemma fíkniefnafljótið að ósi.
Margfalda þarf löggæzlu á þessum sviðum og herða verulega dóma fyrir sölu og dreifingu fíkniefna. Jafnframt þarf að efla úrræði til meðferðar þeirra, sem ánetjast fíkniefnum og vilja takast á við fíknina. Núverandi möguleikar á því sviði eru af of skornum skammti.
Það er út í hött, að Barnaverndarstofa sé að eyða tíma í að taka þátt í umræðu um, hvort fimmtíu unglingar eða fleiri á landinu séu ofurseldir fíkniefnum, og að reyna að setja ofan í við þá, sem halda því fram, að þeir séu tvöhundruð, sem raunar er einnig allt of lág tala.
Miklu nær væri fyrir slíka aðila að taka þátt í tilraunum til að koma vitinu fyrir þá ráðamenn, sem bera ábyrgð á nánast óhindruðu flóði fíkniefna um landið.
Jónas Kristjánsson
DV