Rangfengið fé er rýrð í búi

Greinar

Stjórnarmenn í Byggðastofnun hafa misnotað aðstöðu sína þar til að útvega börnum sínum og tengdabörnum ódýra peninga til að byggja upp ferðaþjónustu heima í héraði. Þetta eru alþingismennirnir Egill Jónsson á Seljavöllum og Stefán Guðmundsson á Sauðárkróki.

Stefán útvegaði syni sínum fimm milljónir í fyrra til að setja upp veitingahús á Sauðarkróki, nánast við hlið tveggja annarra, sem þar eru fyrir við aðalgötu bæjarins. Egill útvegaði syni sínum tvær milljónir til að bæta fjórum gistiherbergjum við hús sitt á Seljavöllum.

Að gömlum sið halda málsaðilar því fram að fólk eigi ekki að gjalda þess að vera börn alþingismanna og stjórnarmanna Byggðastofnunar. Er þó ljóst, að venjulega er hafnað málefnum af þessu tagi. Þeir eru ekki margir, sem komast gegnum nálarauga Byggðastofnunar.

Vafasamar tiltektir af þessu tagi hafa löngum einkennt Byggðastofnun. Frægust varð þjónusta stofnunarinnar við Stefán Valgeirsson og ættingja hans, þegar þeir ráku hallærisfyrirtæki í fiskeldi á Melrakkasléttu. Enda fylgir spilling alltaf skömmtunarstofum ríkisins.

Sukkið í Byggðastofnun einkennist þó fremur af hreinni óráðsíu en misnotkun fjármuna í þágu ættingja. Í stofnuninni og fyrirrennurum hennar hafa brunnið milljarðar í fyrirgreiðslum til fyrirtækja, sem nú eru gjaldþrota eða horfin af vettvangi vegna erfiðleika.

Byggðastofnun er hefðbundið skólabókardæmi um, að þeir peningar ónýtast, sem fara um hendur skömmtunarstofnana ríkisvaldsins til að þjóna sérhagsmunum á borð við kjördæmapot og ættingjapot stjórnmálamanna, sem sitja á þingi og í stjórnum sukkstofnana.

Byggðastofnun hefur fengið á sig óorð. Um hana var skrifuð fræg skýrsla Ríkisendurskoðunar, sem fann henni fátt til málsbóta. Þess vegna hafa stjórnvöld tekið upp nýjar leiðir til að sukka, meðal annars á sviði ferðaþjónustu í kjördæmum hagsmunapotaranna.

Samkeppnisráð hefur úrskurðað, að ráðherraskipuð nefnd, sem veitti ellefu hótelum tuttugu milljóna króna styrk, hafi brotið samkeppnislög. Nefndina skipaði Halldór Blöndal samgönguráðherra og gerði flokksbróður sinn, Sturlu Böðvarsson alþingsmann, að formanni.

Engum kemur á óvart, að þau tvö hótel, sem hæstan styrkinn hlutu hjá nefndinni, eru bæði í kjördæmi Sturlu, Vesturlandskjördæmi. Ekki kemur heldur á óvart, að hótelstjórar, sem eru í samkeppni við útvöldu hótelin, kærðu meðferð málsins til Samkeppnisráðs.

Engum var gefinn kostur á að sækja um styrk hjá nefndinni og engar skýrar vinnureglur voru til um úthlutun fjárins. Úthlutunarnefndin kastaði peningunum að geðþótta í ýmsa aðila, sem hún mundi eftir og voru henni þóknanlegir, einkum frá kjördæmissjónarmiðum.

Engu máli virðist skipta, þótt vinnubrögð, sem hér er lýst að ofan, hafi sætt gagnrýni hlutaðeigandi eftirlitsstofnana, svo sem Ríkisendurskoðunar og Samkeppnisráðs. Stjórnmálamenn af landsbyggðinni virðast telja það vera helgan rétt sinn að mega misnota fé almennings.

Með því að opna þjóðfélagið, loka opinberum skömmtunarstofum og innleiða markaðslögmál í hagkerfið er smám saman verið að draga úr möguleikum valdamanna til að misnota aðstöðu sína. Atriði, sem varða byggðastefnu, hafa lengi setið á hakanum í þessari þróun.

Yfirleitt sannast líka, að rangfengið fé er rýrð í búi. Oftast brenna peningarnir, sem misnotaðir eru, og skilja byggðirnar eftir fátækari en þær voru fyrir.

Jónas Kristjánsson

DV