Caruso

Veitingar

Notalegur formúlustaður undir ítalska nafninu Caruso er nýlegur af nálinni í Bankastræti. Gamalkunn formúlan felst í að rífa húsnæði niður í fokhelt, leyfa hressum stílista að leika lausum hala við framleiðslu á ímynd og bjóða síðan tilviljanakennda matreiðslu með bragðsterkum sósum á fremur háu verði.

Unnt er að komast hjá annmörkunum með því að halla sér að pizzum, sem hvorki eru lakari eða dýrari en gengur og gerist í bænum, kosta að meðaltali 1050 krónur og eru matarmiklar. Pitsa vegetali var fremur góð, hvorki hörð né seig, með hlutlausri sósu og ekki minnisstæðri.

Kaffið hét espresso, borið fram í litlum bollum. Það var svipað venjulegu kaffi, þunnt og ómerkilegt. Tiramisú var rangnefni eins og kaffið, íslenzk verksmiðju-lagterta með ostakökulögum, með miklu af þeyttum rjóma, súkkulaði- og jarðarberjasósu.

Beikonvafðar rækjur eru dularfullar á matseðli og reyndust vera aulafyndni. Þær bjuggu yfir yfirgnæfandi beikonbragði í bland við bragð af sætri púðursykursósu. Enn sterkara bragð var að jalapeno-piparkrydduðum úthafsrækjum, fremur seigum, blönduðum pönnusteiktu grænmeti á borð við rauðlauk, jöklasalat, grænan pipar og sveppi. Eldbragðið var skemmtilegt, en óþarft að blanda rækjum í það.

Sumt var ágætt í matreiðslunni. Þar á meðal voru fylltir sveppahattar með gráðosti og hæfilega kryddaðir hvítlaukssmjöri. Ennfremur kúrbítssneiðar undir ostþaki, með mildri tómat-basilikum-sósu. Einnig milt makkarónupasta með góðum smokkfiski og rækju í tómatsósu. Á óvart kom, að skötuselur var meyr og ferskur og ekki þíddur, borinn fram með góðu hrásalati, en því miður yfirgnæfður af laukkryddaðri tómatsósu.

Vel tókst til með fiskisúpu staðarins, þykka og bragðsterka tómatsúpu með nokkrum rækjum og smokkfiskhringjum. Laukblönduð tómatsúpa dagsins var líka þykk og matarleg, borin fram með smurðum pizzugeirum, snarpheitum úr ofni. Langbezt var ferskt salat í miklu magni, mestmegnis jöklasalat, ekki enn orðið brúnt, með rauðlauk, feta-osti, ætiþistilhjörtum og töluverðu af rækjum, borið fram í olíuedikssósu.

Lambahryggsneið var næsta grá og þétt, en sæmilega góð, með brakandi fiturönd og sterkri tómatsósu og bakaðri kartöflustöppu. Eins og í mörgum öðrum réttum staðarins var sósan hinn ríkjandi þáttur. Sama var að segja um ofeldaðan eldislax, engifer- og piparsteiktan, fátæklegan að magni, borinn fram með skúffubökuðum kartöfluskífum, sætri tómatrjómasósu og hvítlauksbrauði.

Vínlistinn er hversdagslegur, að mestu frá Gancia, jafnlítið spennandi og hvíta fransbrauðið, sem borið var á borð í upphafi máltíðar. Til var þó Chianti Classico frá Ricasoli á 2.150 krónur.

Þjónusta var óskóluð og ljúfmannleg. Slæðingur var af erlendu ferðafólki og innlendum saumaklúbbum, en markhóp ósjálfstæðra ungmenna vantaði. Ímyndin hefur ekki selzt enn.

Bezt er að sitja við lítil borð í notalegri garðstofu úti við götu. Innra er skuggsælla að sitja við stór borð umhverfis skrautlegan bar og pizzuofn. Innréttingar eru hráar, meðal annars burðarbitar í lofti, en vandaður viður er í nöktum borðplötum.

Miðjuverð þriggja rétta og kaffis er í skýjunum, 3.325 krónur. Hádegistilboð er samt frambærilegt, 870 krónur fyrir súpu og rétt dagsins.

Jónas Kristjánsson

DV