Hrapalleg útkoma íslenzka skólakerfisins í alþjóðlegum samanburði á kunnáttu í stærðfræði og raungreinum er ekki því að kenna, að við verjum litlu af peningum til skólamála. Við fjármögnum skólakerfið eins og Vesturlandaþjóðir og uppskerum eins og Afríkuþjóðir.
Útkoman segir ekki, að stærðfræði og raungreinar séu meiri Öskubuskur í skólakerfinu en aðrir flokkar námsgreina, til dæmis tungumál. Að vísu kann móðurmálskunnátta hér að vera sæmileg í fjölþjóðlegum samanburði, en um fleiri frambærileg fög er ekki vitað.
Niðurstaða hins fjölþjóðlega samanburðar getur hæglega leitt til þess, að erfiðara verði en áður fyrir íslenzka nemendur að komast í erlent framhaldsnám, til dæmis í háskólum. Danskir framhaldsskólar eru þegar hættir að taka mark á íslenzkum grunnskólaprófum.
Margar ástæður valda óförum íslenzka skólakerfisins, en þyngst vegur langvinn áherzla þess á fúsk og leiki í stað aga og vinnu. Grunntónn þessarar skólastefnu er, að skólinn eigi að vera skemmtileg félagsmiðstöð fyrir jafnaðarsinnað fólk og framleiða opinbera starfsmenn.
Ein hlið stefnunnar hefur verið nefnd Bremsukerfið. Það felst í að reynt er að hala skólanemendur inn að sléttri og felldri meðalmennsku. Hinir slöku fá sérkennslu til að hala þá upp. Reynt er að koma í veg fyrir, að hinir duglegu hlaupi of langt frá hópnum.
Það er engin tilviljun, að þjóðir, sem leggja áherzlu á samkeppni og sjálfsaga, frumkvæði og iðjusemi, fá meira út úr sínu skólakerfi en við fáum út úr okkar kerfi samvinnu og agaleysis. Hér eru skólaverkefni unnin í hópum, þar sem einn vinnur og hinir fljóta með.
Einungis 1% íslenzkra nemenda í stærðfræði og 2% í raungreinum eru í hópi þeirra 10%, sem ná beztum árangri í hinum fjölþjóðlega samanburði. Þetta sýnir, að skólakerfi okkar skilar hlutfallslega litlu af snillingum eða öðrum þeim, sem síðar á ævinni munu flytja fjöll.
Úr skólakerfi okkar kemur þægilegt fólk, sem getur lítið. Það hefur lært að fljóta með, en er ekki til mikilla átaka. Þetta er auðvitað alhæfing, sem ekki gildir um hvern einstakling fyrir sig, heldur um meðaltal heildarinnar eins og það birtist í fjölþjóðlegri rannsókn.
Margir Íslendingar koma af fullum krafti úr skólakerfinu, en þeir eru of fáir. Þá er athyglisvert, að sumir þeir, sem mest hafa lagt af mörkum til að gera tölvuþekkingu að útflutningsatvinnuvegi hér á landi, byrjuðu feril sinn á því að hrökklast próflausir út úr skólakerfinu.
Við breytum hvorki fúsks- og leikjastefnunni né bremsustefnunni með því að grýta meiri peningum í skólakerfið. Við verjum svipuðu fé til þess og þær þjóðir, sem fengu góða útkomu í hinum fjölþjóðlega samanburði. Við þurfum hins vegar að nota peningana betur.
Útreiðin stafar ekki af lágum launum og mikilli kennsluskyldu kennara, þótt þessi atriði séu sízt til bóta. Hún stafar ekki heldur af niðurskurði eða tækjaskorti. Í árangri erum við á báti með Spáni og Portúgal, þar sem laun eru lægri og tæpast til borð og stólar í skólum.
Sem dæmi um kveinistafastefnu íslenzkra skólamanna má nefna viðtal við kennara, sem kvartaði um, að skóli sinn ætti aðeins sextán tölvur og að einungis ellefu þeirra kæmust fyrir. Hann sá ekkert skrítið við að verja peningum í að kaupa þessar fimm, sem ekki komust fyrir.
Við þurfum að horfast í augu við, að við höfum um nokkurra áratuga skeið notað rangar forsendur í skólastarfinu. Við þurfum að losna við fúskið og leikina.
Jónas Kristjánsson
DV