Við stöndumst skilyrðin

Greinar

Flest ríki Evrópusambandsins eiga í miklum erfiðleikum með að koma fjármálum sínum í það horf, að þau geti tekið þátt í eftirsóknarverðu myntbandalagi Evrópu, sem á að taka til starfa eftir tvö ár. Hins vegar hefur utangarðsríkið Ísland þegar uppfyllt skilyrðin.

Ríkisfjárlög á Íslandi hafa verið hallalaus í nokkur ár og eru vel innan krafna myntbandalagsins, sem gera ráð fyrir, að hallinn megi ekki vera meiri en 3% af landsframleiðslu. Þýzkaland, Bretland og Frakkland eru meðal ríkjanna, sem enn hafa ekki uppfyllt þetta skilyrði.

Ríkisskuldir Íslands hafa farið lítillega lækkandi að undanförnu og eru núna 55% af vergri landsframleiðslu. Það er rétt innan 60% marka myntbandalagsins og er raunar betri staða en hjá öllum ríkjum Evrópusambandsins nema Frakklandi, Bretlandi og Luxemborg.

Verðbólga á Íslandi er úm 2,5% á ári, í hærri kantinum í evrópskum samanburði og á mörkum myntbandalagsins. Það gerir ráð fyrir hámarki, sem sé 1,5% yfir verðbólgu þeirra þriggja ríkja, sem hana hafa minnsta. Minnsta verðbólgu hefur Svíþjóð, um 1% á ári.

Langtímavextir á Íslandi eru um það bil 8%, það er að segja 5% raunvextir að viðbættri 2,5% verðbólgu. Myntbandalagið gerir ráð fyrir, að langtímavextir séu aðeins 2% yfir vöxtum þriggja lægstu ríkjanna. Sú tala er nú um 6%, svo að Ísland sleppur þar í gegn.

Verðbólgan og langtímavextirnir eru veikasta hlið Íslands í þessum samanburði. Öll ríki Evrópusambandsins nema Grikkland uppfylla þessi tvö skilyrði og Ísland er rétt á mörkum þess að standast þau. Engin bólga má því verða í landinu á uppgangstíma næstu ára.

Síðasta skilyrðið varðar ekki fjármál, heldur gengisstefnu. Það er, að ríkið hafi í tvö ár verið í gengissamstarfi Evrópu, sem er aðdragandi myntbandalagsins. Þetta hefur Ísland ekki gert, af því að Seðlabankinn hefur notað viðskiptavegna gengiskörfu til viðmiðunar.

Ekkert er því til fyrirstöðu, að Ísland taki einhliða upp gengisviðmiðun við gengissamstarf Evrópu í stað gengiskörfunnar. Ef það er gert strax, uppfyllir Ísland einnig þetta lokaskilyrði, nákvæmlega þegar myntbandalagið tekur til starfa að rúmlega tveimur árum liðnum.

Fræðimenn, sem um þessi mál hafa fjallað, eru sammála um, að afar hagkvæmt sé fyrir ríki að geta gerzt aðili að myntbandalagi Evrópu. Það er í fyrsta lagi beinlínis mikilvægt fyrir ríki að koma fjármálum sínum í slíkt lag, að þau uppfylli skilyrði bandalagsins.

Í öðru lagi hefur aðild að myntbandalaginu í för með sér næsta sjálfvirkt aðhald, sem stuðlar að traustum fjármálum, lágri verðbólgu og lágum vöxtum. Talið er víst, að þátttakan leiði til lægri vaxta en ella þyrftu að vera. Á því einu gæti Ísland sparað milljarða á hverju ári.

Við sjáum líka, að stjórnir ríkja Evrópusambandsins eru önnum kafnar við að reyna að koma fjármálum sínum inn fyrir ramma myntbandalagsins eða láta líta svo út, að þau verði komin inn fyrir mörkin í tæka tíð. Frakkar beita að venju ýmsum sjónhverfingum til þess.

Mikil umræða fer nú fram um það í Evrópu, að Ítalía muni ekki ná markinu í tæka tíð vegna langvinns agaleysis í fjármálum ríkisins. Ítali grunar af gefnum tilefnum, að Þjóðverjar og fleiri vilji ekki hafa sig með til þess að spara myntbandalaginu hjúkrun veiks aðila.

Ísland er hins vegar þegar komið inn fyrir mörkin og þarf ekki að gera mikið annað en að halda í horfinu á væntanlegum þenslutíma til að komast í klúbbinn.

Jónas Kristjánsson

DV