Hungursneyð er óþörf

Greinar

Indland brauðfæðir tvöfalt fleira fólk en Afríka öll og það á landsvæði, sem er aðeins 13% af Afríku. Víðtækar hungursneyðir, sem einkenndu Indland fram yfir miðja þessa öld, hafa áratugum saman verið úr sögunni. Í Afríku er hins vegar sífellt hungur og hallæri.

Skilyrði til landbúnaðar eru ekki betri í Indlandi en annars staðar. Þar eru eyðimerkur og fúafen. Þar verða árvissar náttúruhamfarir í formi steypiregns og flóða. En landbúnaðurinn fær þar að mestu að vera í friði fyrir tilraunum ríkisins til verðmætaflutninga.

Á Vesturlöndum reynir ríkið víða að varðveita búsetu í sveitum með því að halda uppi verði innlendra landbúnaðarafurða. Víða í þriðja heiminum reynir ríkið hins vegar að halda þéttbýlisbúum á lífi með því að halda niðri verði innlendra landbúnaðarafurða.

Í báðum tilvikum er stefnan pólitísk. Stjórnvöld í þriðja heiminum styðjast fremur við borgarbúa en sveitamenn og haga sér í samræmi við það. Afleiðingin er að bændur njóta ekki hvatningar markaðarins til að framleiða vörur til sölu. Það gefur of lítið af sér.

Vandamál hungurs í heiminum er fyrst og fremst pólitískt, en ekki tæknilegt eða búvísindalegt. Matur er ekki framleiddur, aðallega af því að hann er með valdi gerður verðlaus, en síður af því að tækni eða þekkingu skorti. Markaðslögmálin fá ekki að ráða ferðinni.

Matvælaframleiðsla hefur í nokkra áratugi aukizt hraðar en fólki hefur fjölgað í heiminum. Nú er farið að draga úr fjölgun fólks. Búast má við, að mannkynið telji um 10-11 milljarða um miðja næstu öld og verði ekki fjölmennara en það. Og matur á að geta verið til.

Ef landbúnaður væri stundaður í Afríku við svipuð stjórnmálaskilyrði og nú eru í Indlandi, ætti álfan ekki í neinum vandræðum með að brauðfæða sig og eiga afgang til að selja Vesturlöndum fyrir peninga. Það gerist með því að leyfa markaðinum að ráða verði á mat.

Við munum sjá þessa breytingu verða fyrr í löndum Austur-Evrópu, þar sem bændum var áður haldið niðri með löggiltu hámarksverði. Eftir óreiðuna, sem nú ríkir þar við endalok samyrkjubúskaparins, mun byggjast þar upp markaðsbúskapur, sem brauðfæðir þjóðirnar.

Ekki verður þrautalaust að útrýma víðtækum hungursneyðum. Loftslagsbreytingar geta valdið staðbundnum og tímabundnum erfiðleikum. Notkun líftæknilegra aðferða getur haft slæmar hliðarverkanir, rétt eins og óhóflegur áveitubúskapur hefur hefnt sín um síðir.

En hafa verður í huga, að of mikill áveitubúskapur er ein afleiðingin af þeirri pólitísku ákvörðun að greiða niður verð á veituvatni til bænda. Afleiðingin hefur verið óhófleg notkun á takmarkaðri auðlind. Með markaðsverði á vatni á þetta ástand að geta batnað.

Við sjáum af Vesturlöndum, að hægt er að framleiða svo mikinn mat, að enginn veit, hvað á að gera við hann. Bandaríkin hafa reynt að draga úr offramleiðslunni með því að taka fimmta hvern akur úr umferð. Jafnvel hér norður á hjara flýtur allt í óseljanlegri búvöru.

Hvort tveggja er heimskulegt, stefna búvörustuðnings á Vesturlöndum og stefna hámarksverðs búvöru í þriðja heiminum. Ef landbúnaðurinn fær frið til að lúta lögmálum markaðarins, framleiðir hann mat handa heiminum, einnig þegar mannkynið er komið í tíu milljarða.

Hungur og hallæri eru fyrst og fremst mannanna verk, afleiðingar misheppnaðra tilrauna stjórnvalda til að hafa áhrif á verðlag og einkum á vísitölur verðlags.

Jónas Kristjánsson

DV